Sjálfbærniskýrsla ársins

Í dag veittu Festa, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins og var það hátæknifyrirtækið Marel sem hlaut viðurkenninguna. Þetta er í sjötta sinn sem viðurkenningin er veitt og voru 35 skýrslur tilnefndar. Yfirlit yfir tilnefningarnar í ár má nálgast á hér.


Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að í skýrslunni hafi verið birtar upplýsingar sem ganga lengra en að uppfylla aðeins regluverk:

 

„Sjálfbærniskýrsla Marel ber með sér að þar birtist lesandanum upplýsingar sem raunverulega séu nýttar til virðisaukningar fyrir félagið en ekki sem skylduæfing til að uppfylla regluverk. Marel hefur sett sér metnaðarfull markmið og ætlar fyrirtækið meðal annars að draga úr losun frá umfangi 1 og 2 um 42% fyrir árið 2030 miðað við árið 2021 og um 25% í umfang 3. Þá ætlar Marel að endurvinna 90% af úrgangi sínum fyrir árið 2026 og stefnir að kolefnishlutleysi virðiskeðjunnar árið 2040. Það er því virkilega gaman að geta veitt Marel viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins 2023.“

 

Í dómnefnd sátu Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærni, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo, Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og umhverfis hjá Landsvirkjun og Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnastjóri í stefnumótun og sjálfbærni hjá Isavia. Þeim til stuðnings var skipað fagráð sem lagði mat á allar skýrslunar. Það var skipað þremur nemendum við Háskólann í Reykjavík sem hafa lokið námskeiði sem snýr að sjálfbærniupplýsingagjöf, þeim Heiðrúnu Örnu Ottesen Þóroddsdóttur, Kára Jóni Hannessyni og Jóhönnu Sól Erlendsdóttur. Við þökkum dómnefnd og fagráði fyrir afskaplega vel unnin störf. 

 

Marel hefur verið aðildarfélag Festu síðan 2016 og er óhætt að segja að fyrirtækið hafi skapað sér sérstöðu með því að setja sjálfbærnimál á oddinn með góðum árangri. 


Hér má skoða sjálfbærniskýrsluna sjálfa.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?