Fréttir og pistlar

Tilnefninganefndir - reynslan og hvað næst?

Tilnefninganefndir - reynslan og hvað næst?

Í dag var vel tekið á móti Stjórnvísifélögum í Kauphöllinni á morgunfundi þar sem fjallað var um nýjungar sem tengjast tilnefninganefndum, velt var fyrir sér gildi þeirra til framtíðar, aðkomu lífeyrissjóða sem hluthafa að vali fólks í stjórnir, og fjallað um samhengi þeirra og hluthafalýðræðis.

Formaður faghóps um góða stjórnarhætti Jón Gunnar Borgþórsson stýrði fundinum og flutti örstuttan inngang.  Í framhaldi voru flutt tvö erindi af þeim Hrafnhildi S. Mooney (Seðlabankinn)  og Magnúsi Harðarsyni (Nasdaq Iceland). Að erindum loknum urðu fjörugar umræður.

Hrafnhildur velti því upp í erindi sínu hvort fólk spyrði sig: „Er þetta enn ein nefndin?“  Meginhlutverk tilnefninganefndanna er að auka gagnsæi og betri niðurstöðu.  Tilnefningarnefnd á að tryggja fjölbreytileika og fjölbreytta samsetningu stjórnar.  Tekið hefur tíma að þróa tilnefningarnefndir rétt eins og góða stjórnarhætti.  Enn er þó óvissa um hvernig tilnefninganefndir eiga að starfa. Tilnefninganefndirnar hafa til þessa haft það meginverkefni að fara yfir stjórnarmenn.  Töluvert hefur verið rætt um hvort þetta sé undirnefnd stjórnar eða hluthafa.  Í tilnefningarnefnd þurfa að vera aðilar sem eru reynslumiklir og fólk lítur upp til.  Hrafnhildur sagði að samkvæmt lögunum þyrftir að: 1. Tilnefna einstaklinga til stjórnarsetu fyrir hluthafafund 2. Meta a.m.k. árlega skipulag, stærð, samsetningu og árangur stjórnar og framkvæmdastjóra og gera tillögur að úrbótum til stjórnar þegar við á. 3. Meta a.m.k. árlega og gefa stjórn skýrslu um þekkingu, hæfni og reynslu einstakra stjórnarmanna og stjórnar í heild og framkvæmdastjóra. 4. Meta amk árlega stefnu fyrirtækisins um ráðningu framkvæmdastjóra og stjórnenda .  Við val á tilnefningum skal tilnefningarnefnd horfa til 1. Hæfniskrafna til stjórnarmanna 2. Þess að stjórnarmenn hafi fjölbreytta þekkingu og reynslu 3. Kynjajafnvægi.  En er nóg að skipa tilnefningarnefndina?  Það segir ekki neitt nema að vera yfirlýsing það þarf að vera búið að setja nákvæmt niður og skjalfesta störf nefndarinnar.   

Magnús ræddi um yfirlýsingar frá lífeyrissjóðum og vísaði þar til LSR, Gildis og Lífeyrissjóðs verslunarmanna.  Rauði þráðurinn hjá öllum þessum lífeyrissjóðum eru góðir stjórnarhættir og að gagnsæi sé ríkjandi.  Lífeyrissjóðirnir hafa reynst mikil stoð á markaðnum.  Hlutdeild þeirra mætti vera minna afgerandi á markaðnum en hún er í dag.  Magnús sér fyrir sér að hlutdeild þeirri muni minnka en það gæti tekið tíma.   Þar kemur til aukin þátttaka erlendra fjárfesta á Íslandi og fjárfesting íslenskra lífeyrissjóða erlendis. 

Magnús velti því upp hvort hluthafar væru að hafa nægjanleg áhrif í tilnefningarnefndunum?  Hver er tilurð nefndanna og hverjir voru hvatamenn nefndanna?  Það voru nefnilega erlendir fjárfestar – markmiðið að auka gagnsæi stjórnar því þeir eru með takmarkað aðgengi að íslensku viðskiptalífi.  Erlendir fjárfestar hafa því mun minni áhrif en heimamenn.  Þessi hvatning er að Magnúsar mati hvatinn að tilnefningarnefndunum og það er engin spurning að með tilkomu tilnefningarnefnda hefur orðið aukið gagnsæi sem hefur laðað að erlenda fjárfesta.   Í dag stendur Ísland illa er kemur að erlendum fjárfestum og erum við langtum neðar prósentulega séð en aðrar Norðurlandaþjóðir.  Það er einungis fimmtungur eða fjórðungur samanborið við aðrar þjóðir.   Hluthafar hafa takmarkaða möguleika til að fara gegn tilnefninganefndunum – skerða þeir valið sem hluthafar höfðu?  Kauphöllin tók saman opinber gögn varðandi framboð í stjórnir og stjórnarkjör og bar saman við gögn 2013 og 2014 þegar tilnefningarnefndir voru ekki starfandi.  Borin voru saman fjöldi frambjóðanda við fjölda stjórnarmanna sem kosið var um.  Áður en nefndirnar komu til var fjöldi þeirra sem bauð sig fram sá sami og var í stjórninni.  Árið 2021 voru flest allir með tilnefningarnefndir og alltaf fleiri sem buðu sig fram í stjórnina. Eitt aðalhlutverk nefndanna er að passa upp á samsetningu stjórnarinnar.  Hluthafar eru engan veginn valdalausir því þeir eru hafðir með í ráðum.  Magnús velti upp tveimur atriðum í lokin.  Mætti breyta því þannig að eins og í Svíþjóð þá væru 100% að fulltrúar stærstu hluteigenda væru í nefndinni – það seinna væri að bjóða upp á valkosti við einn tiltekinn aðila í stjórn þ.e. í ráðgjöfinni færi áfram ráð um æskilega samsetningu.

  

Framtíðaráhrif fjarvinnu á framboð á vinnuafli – tækifæri og ógnanir

Gunnar Haugen, Talent manager leikja fyrirtækisins CCP, bauð faghóp framtíðarfræða á morgunfund. Þar fjallaði hann um áhrif fjarvinnu á framboð á vinnuafli og þau framtíðaratriði sem geta haft áhrif á þá þróun. Gunnar þekkir vel íslenskan atvinnumarkað og er reynslumikill þegar kemur að hæfni starfa.
Hjá CCP er gerð krafa á stjórnendur að vera á staðnum.  Gunnar ræddi um munninn á fjar-tvinn-og sveigjanlegri vinnu – ekkert af þessu var fundið upp í Covid. Sveigjanlegt þá ræður þú hvar og hvenær þú vinnur.  Fjarvinna (remote) vinnan fer ekki fram á svæði vinnuveitenda. Tvinnvinna(hybrid) Vinnan fer fram bæði á vinnustað eða utan hans. Staðvinna (on-site) þú ræður ekki hvar þú vinnur.  Þetta er svona næstum allskonar.  Í grunninn er minnsti sveigjanleikinn í staðvinnu.  Hybrid vinna getur verið án sveigjanleika því þú stýrir því ekki sjálfur og settar eru skorður.  Síðan er fjarvinna þar getur verið t.d. aðili erlendis sem verður að vera bundinn á einhverri skrifstofu.  Þetta eru 2 víddir óháðar hvor annarri annars vegar sveigjanleiki (y-ás) og hins vegar viðverukrafa (x-ás).  Í fjarvinnu er krafa um mikla reynslu, skýr verkefni líkari verktöku.  Fjarvinna hentar oft ekki þeim sem  eru ungir, nýir í starfi, nýju teymi, þar sem er mikil sköpun og í verkefnum milli landa.  Í tvinnvinnu er mikilvægt að hafa góða vinnuaðstöðu, starfið krefst ekki stöðugrar viðveru og að það sé nægileg nálægð við vinnustað.  Tvinnvinna á ekki við ef starfið krefst viðveru t.d. stjórnendur, þar sem verið er að vinna við sköpun (þá dettur allt úr sinki) og þar sem mikið er um samskipti.  Staðvinna þar sem ekki er  hægt að vinna með öðrum hætti, mögulega aðgengi að vinnu sem ekki væri annars í boði.  Það er ekki gott að vera í staðvinnu ef ferðakostnaður og ferðatími er hár.

Það er erfitt að spá um framtíðina því trend og gögn eru varasöm. Að spá fyrir framtíðina með gögnum. Framboð og eftirspurn hefur gríðarleg áhrif á verð – Gunnar nefndi dæmi um hækkað olíuverð þegar arabarnir bjuggu til skort.

Frá 2000 hafa komið stór áföll – 4 svartir svanir  11.septmeber – Hrunið – Covid – Úkranía .  Enginn Svananna kallaði fram breytingu á vinnu.  Nær engin fyrirtæki sögðu „sendum alla heim og drögum varanlega úr húsnæðiskostnaði“.  Viðhorfskannanir segja ekki allan sannleikann varðandi hybride vinnu.  Það eru breytingar í aðsigi – en það gengur betur þegar allir vinna saman.  Þegar allir fóru heim þá var kostnaður og tími við ferðalag til og frá vinnu sýnilegur.  Fyrir Covid var í flestum tilvikum gert ráð fyrir að ferðir til og frá vinnu væri á ábyrgð starfsmanns, kostnaður innifalinn í launum og ferðatími oft nýttur í þágu vinnuveitenda. Tími er gríðarlega verðmætur.

Hvað er þá hægt að nota til að spá fyrir um framtíðina? Hvernig spáir maður rétt? Spáðu langt fram í tímann -  Leggðu mannlegt eðli á vogarskálarnar. Rómeo og Júlía, Dæmisögur Esóps, mannlegt eðli breytist mjög hægt. Calvinismi og Hedonismi einhvers staðar þar á milli er jafnvægið.  Vinir okkar eru framboð og eftirspurn og hvers virði er útborgunin mín til að geta gert það sem ég vil. 

Hvaða áhrif mun hnattræn hlýnum hafa á næstu 10 árum?  Væntanlegra verður hægari lífstíll, færri ferðir til og frá vinnu, dregið úr sóun og neyslu, miklu minni túrismi, lengri frí ef við fáum að fara í frí.

Spáin hans Gunnars fyrir næstu 10 ár: Mest verktakar, sérstaklega milli landa. Laun munu fara niður – húsnæðis og launasamningar endurspela tvinnvinnu, auknar tómstundir, aukin samvera fjölskyldna, úlfatímanum jafnar skipt. Staðvinna verður í grunninn óbreytt , fækkun á staðvinnu störfum vegna tækni eða lögð niður vegna skorts á vinnuafli, hærri laun og/eða styttri vinnutími vegna viðverukröfu.  Laun þeirra sem verða í staðvinnu munu hækka. Eftir 30 ár 2052 – Kuhnian Paradigm Shift.  Keynes sagði að eftir 100 ár verði vinnutíminn 20 tímar á viku.  Kynslóðirnar sem hér eru verða að mestu horfnar eða hverfa af vinnumarkaði.  Hnattræn hlýnun verður megin áhrifavaldur þjóðfélaga ef það er ekki allt farið í skrúfuna.  Störf sem verða horfin og gervigreind tekin við: eru t.d. dómarar, lögfræðingar, heimilislæknar, arkitektar og endurskoðendur. 

 

 

Boð á viðburð með Sima Bahous framkvæmdustýru UN Women fimmtudag kl.10:00

Faghópur um leiðtogafærni vekur athygli á þessum áhugaverða viðburði: 
Þér er boðið á viðburðinn „Moving Forward: Partnership for an Equal World“ sem haldinn er í Hátíðarsal Háskóla Íslands, fimmtudaginn 10. nóvember, klukkan 10:00 til 11:00 í tilefni af heimsókn Simu Bahous, framkvæmdastýru UN Women til Íslands.

Sima Bahous verður heiðursgestur viðburðarins og er því um að ræða einstakt tækifæri til að heyra frá fyrstu hendi um stöðu mála og áherslur UN Women á heimsvísu. Bahous mun halda erindi þar sem hún ræðir meðal annars mikilvægt samstarf UN Women við Ísland, en stofnunin á í nánu samstarfi við íslensk stjórnvöld og ríkislögreglu er kemur að jafnréttismálum. Þá er stuðningur Íslendinga við verkefni stofnunarinnar eftirtektarverður, en vegna hans hefur íslenska landsnefndin sent hæsta framlag allra landsnefnda til verkefna UN Women á heimsvísu sex ár í röð, óháð höfðatölu. Bahous mun jafnframt fjalla um stöðu jafnréttismála í heiminum í dag og helstu áskoranir sem blasa við UN Women í framtíðinni.

Forsetafrú Íslands, Eliza Reid, mun setja viðburðinn og í kjölfar erindis Bahous fara fram pallborðsumræður þar sem þátttakendur í pallborði ræða mikilvægi samvinnu til að sporna gegn því bakslagi sem orðið hefur í jafnréttismálum á síðastliðnum árum.

Þátttakendur í pallborði eru Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi ráðherra, Andrés Ingi Jónsson þingmaður, Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélags Íslands, Askur Hannesson meðlimur Ungmennaráðs UN Women á Íslandi, og Steinunn Gestsdóttir aðstoðarrektor Háskóla Íslands. Umræðustjóri er Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi ráðherra.

Vinsamlegast staðfestu þátttöku þína með því að skrá þig á viðburðinnhér

Kær kveðja,

Starfskonur UN Women á Íslandi 

Góð framtíð

Framtíðarfræðingurinn Gerd Leonard hefur lagt áherslu á að kynna hugtakið Góð framtíð, að hluta til sem mótsvar við neikvæðum fréttum um framtíðarhorfum. Nú hefur hann móta vettvang áhugafólks um hugtakið og kynnir það meðal annarrs í þessu myndbandi. Njóttið.

https://www.youtube.com/watch?v=6_OBsVe0qrY

 

 

 

Betri heimur byrjar heima Ný lög um hringrásarhagkerfið

Við héldum streymisfund í gær um nýju hringrásarlögin í samstarfi við Samtök Atvinnulífsins. Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur hjá Samtökum verslunar og þjónustu, Eygerður Margrétardóttir, verkefnisstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM-Vallár voru með fróðlegar og framsögur. Að framsögum loknum stýrði Hugrún Elvarsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins pallborðsumræðum sem Freyr Eyjólfsson, verkefnastjóra hringrásarhagkerfisins hjá Sorpu, Líf Lárusdóttur markaðsstjóri Terra umhverfisþjónustu og Brynjar Bergsteinsson, framleiðslustjóri Set hf. tóku þátt í.
Við þökkum þeim sem horfðu á útsendinguna og þeir sem ekki náðu að fylgjast með geta séð viðburðinn hér. 
https://vimeo.com/751019525?embedded=true&source=vimeo_logo&owner=11332684&fbclid=IwAR2hHm7omdnohfh583opWOgpMfRAfQ25ia8AZ6AcFeusEBBvEWig_8N2RWI
 

Staða hinsegin fólks á íslenskum vinnumarkaði

Hér má nálgast einstaklega áhugaverðar glærur frá viðburðinum og myndir.  Faghópur um jafnlaunastjórnun hélt viðburð um nýjustu rannsóknir BHM og Samtakanna '78 um laun og kjör hinsegin fólks á Íslandi.  Nýleg greining­ sem unnin var í samstarfi Sam­tak­anna '78 og BHM sýnir fram á að launamunur virðist vera á milli einstaklinga á íslenskum vinnumarkaði eftir kynhneigð þeirra. Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur BHM sagði frá rannsókninni og niðurstöðunum. Sólveig Rós frá Ráði ehf., stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í hinseginleika var jafnframt með fræðsluerindi um hinseginleika og vinnustaðamenningu.

Maður, manneskja, man eða menni?

Eitt helsta baráttumál Rauðsokkahreyfingarinnar kringum 1970 var að fá viðurkenningu á jafnstöðu kvenna við karla – að konur væru líka menn. Þetta var mjög skiljanleg og eðlileg barátta á þeim tíma, og oft er vitnað í ummæli Vigdísar Finnbogadóttur í kosningabaráttunni 1980 þegar hún sagði „Það á að ekki að kjósa mig vegna þess að ég er kona, heldur vegna þess að ég er maður“. En kringum 1990 vildu Kvennalistakonur fremur leggja áherslu á sérstöðu kvenna og fannst orðið maður ekki vísa til sín – vildu heldur nota orðið manneskja, t.d. í laga-máli. Það er líka mjög skiljanlegt og eðlilegt. Hér vantar heppilegt orð sem konur og kynsegin fólk geti tekið til sín en er laust við þá sterku skírskotun til karlmanna sem orðið maður óneitanlega hefur. Í fyrirlestrinum verður fjallað um merkingu orðsins maður í sögulegu samhengi og vandkvæði á að nota það í kynhlutlausri merkingu. Bent verður á að tilbrigði og blæbrigði í notkun orðsins eru fjölbreyttari en oft er gert ráð fyrir í umræðunni, og ekki er hægt að setja allar beygingarmyndir orðsins undir sama hatt. Þá verður rætt um samsetningar sem enda á -maður og hvort hægt sé eða eðlilegt að nota samsetningar sem enda á -fólk í staðinn. Enn fremur verður rætt um samsetningar þar sem rótin mann-/menn- er fyrri liður og rökstutt að öðru máli gegni um þær en hinar. Að lokum verður fjallað um kosti og galla annarra orða sem reynt hefur verið eða stungið upp á að nota í staðinn – manneskja, man og menni.

Nýtt: Innskráning í gegnum island.is

Kæru Stjórnvísifélagar.
Til þess að einfalda innskráningu á vefinn www.stjornvisi.is og til að halda betur utan um notendur geta Stjórnvísifélagar framvegis innskráð sig með rafænum skilríkjum gegnum island.is

Við fyrstu innskráningu island.is er notandinn beðinn um að tengja aðgang sinn við kennitöluna, eftir að það hefur verið gert þá hefur rafræna innskráningin tekið við fyrir þann notanda framvegis á vefnum (sjá mynd).

Haustráðstefna Stjórnvísi var haldin 11. október 2022

Streymi af haustráðstefnu Stjórnvísi 11. október 2022 í heild sinni. 
Myndir af ráðstefnunni.
Tengill á erindin í sitthvoru lagi á facebooksíðu Stjórnvísi. 

Haustráðstefna Stjórnvísi var haldin í beinni útsendingu og á Grand Hótel. Þema ráðstefnunnar var „GRÓSKA -  Vöxtur, þroski, árangur“.   Ráðstefnustjóri var Salóme Guðmundsdóttir, stjórnarmaður hjá Eyri Ventures og Viðskiptaráði Íslands.

Dagskráin var eftirfarandi:

09:00 Formaður stjórnar Stjórnvísi Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs Strætó setTI ráðstefnuna. 

09:10 FYRIRLESTUR:  Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant. 

09:30 SPJALL:  Haraldur Bjarnason forstjóri Auðkenni ræddi við Andra Þór Guðmundsson forstjóra Ölgerðarinnar og Hrund Rudolfsdóttur forstjóra Veritas

09:55 FYRIRLESTUR: Berglind Ósk Bergsdóttir, notendamiðaður textasmiður.  - Hefurðu upplifað loddaralíðan? (Imposter syndrome)

10:15 FYRIRLESTUR:   Matti Ósvald Stefánsson, heildrænn heilsufræðingur og atvinnumarkþjálfi.  - Fjórar stoðir persónulegs vaxtar/grósku.

10:35 FYRIRLESTUR: Þórhildur Helgadóttir, forstjóri Póstsins. 

 

Vel heppnuð áhugaverð frumraun hjá faghópi um breytingastjórnun.

Síðastliðinn fimmtudag var hagnýt vinnustofa hjá faghóp um breytingastjórnun. Farið var á kaf í bókina Switch – how to change things when change is hard þar sem kynnt var til sögunnar aðferðarfræðin um fílinn, knapann og slóðann. Veitt var fræðsla um efnið sem vinnuhópar unnu síðan úr praktísk verkefni. Rúsínan í pylsuendanum var síðan heimsókn annars rithöfundarins, Dan Heath, sem hélt frábært erindi í gegnum Teams og tók við fyrirspurnum.
Um var að ræða frumraun af þessum toga fyrir faghópinn, og jafnvel fyrir Stjórnvísi líka og hver veit nema það verði gert meira af þessu, í bland við fjölmenna Teams viðburði sem komin er góð reynsla af.

 

Haustráðstefna Stjórnvísi 11.október 2022 kl.09:00-11:00 á Grand Hótel og í beinu streymi.

Þú bókar þig með því að smella hér. FRÍR AÐGANGUR - ALLIR VELKOMNIR. Bæði á Grand Hótel og í beinu streymi. Haustráðstefna Stjórnvísi hefur undanfarin ár farið fram á netinu við góðar viðtökur.  Við höldum því áfram og sendum dagskrána út í beinu streymi og bjóðum alla þá sem áhuga hafa velkomna á Grand hótel meðan húsrúm leyfir. 
Linkur á streymið er hér.   

Fyrir hvern: Fyrir alla Stjórnvísifélaga.  Mikilvægt er að velja við skráningu hvort þú mætir á staðinn eða fylgist með í streymi. Boðið upp á glæsilegt morgunverðarhlaðborð frá kl.08:30 og einnig í hléi.  

Þema ráðstefnunnar: "GRÓSKA -  Vöxtur, þroski, árangur"  
Ráðstefnustjóri:  Salóme Guðmundsdóttir, stjórnarmaður hjá Eyri Ventures og Viðskiptaráði Íslands. 

Pallborðsstjórnandi:  Haraldur Agnar Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis. 

Dagskrá: 
09:00 Formaður stjórnar Stjórnvísi Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs Strætó setur ráðstefnuna. 

09:10 FYRIRLESTUR:  Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant. 

09:30 SPJALL:  Haraldur Bjarnason ræðir við Andra Þór Guðmundsson forstjóra Ölgerðarinnar og Hrund Rudolfsdóttur forstjóra Veritas

09:55 FYRIRLESTUR: Berglind Ósk Bergsdóttir, notendamiðaður textasmiður.  - Hefurðu upplifað loddaralíðan? (Imposter syndrome)

10:15 FYRIRLESTUR:   Matti Ósvald Stefánsson, heildrænn heilsufræðingur og atvinnumarkþjálfi.  - Fjórar stoðir persónulegs vaxtar/grósku.

10:35 FYRIRLESTUR: Þórhildur Helgadóttir, forstjóri Póstsins. 

Sigríður Harðardóttir sviðsstjóri mannauðs-og gæðasviðs Strætó, formaður stjórnar Stjórnvísi setur ráðstefnuna kl. 09:00. Því næst munu verða flutt erindi og pallborðsumræður. 

Verið öll hjartanlega velkomin.

Aðgangur er frír.

Samantekt frá okkar fyrsta viðburði

Nú er vika liðin frá fyrsta viðburði okkar sem fjallaði um hver tilgangur miðlunar og gagnvirkra samskipta fjölmiðla og lögaðila á milli.

Þar sem fyrirhugað er að halda sambærileg erindi á landsbyggðinni á komandi vetri viljum við veita innsýn í það sem fór fram á viðburðinum og miðla þannig áfram því sem við höfum tök á, að teknu tilliti til trúnaðar við frummælendur og áheyrendur.

  

Hvert er helsta vandamál miðlunar?

Kjarni þess erindis sem Ingvar Örn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Cohn og Wolfe á Íslandi flutti, var sá að innan almannatengsla á Íslandi hefur lengi skort fagmennsku. Staðreyndin er sú að stór hluti þeirra sem sinna almannatengslum með áberandi hætti, eins og upplýsingafulltrúar, koma úr fjölmiðlaheiminum og hafa litla eða enga faglega þekkingu á faglegri hliðum almannatengsla. Þau sem hafa aflað sér þekkingar og reynslu starfa yfirleitt á bak við tjöldin, til dæmis við stefnumótun, samskiptaáætlanir og framkvæmd þeirra. Þetta veldur bjögun í almennri umræðu þar sem sýnilegi hluti almannatengslanna er oft á tíðum ekki sá faglegi.

Mögulega stafi slík vinnubrögð af því að það séu eins konar ranghugmyndir í gangi varðandi samskipti fjölmiðla og lögaðila annars vegar og hins vegar  lögaðila og almannatengla til dæmis varðandi hvert hlutverk fjölmiðla raunverulega er. Í þessu samhengi velti Ingvar sérstaklega upp spurningum um mikilvægi fjölmiðla fyrir almannatengsl.  

Við teljum okkur flest vita að hlutverk fjölmiðla er að upplýsa almenning um það sem á sér stað í samfélaginu. Upplýsa á þann hátt að það sé verið að segja satt og rétt frá og gagnsæi fylgir störfum fjölmiðla, sem stuðlar að því að skipulagsheildir vilji koma hreint fram í garð almennings.

Ef við skoðun hlutverk almannatengsla er kjarninn almennt sá að breyta viðhorfum í jákvæða átt með upplýsingamiðlun til að mynda og viðhalda gagnkvæmum tengslum, skilningi, samþykki og samvinnu hagaðila á milli.

Þar sem meginhlutverkin eru skýr þarf að velta fyrir sér hvað gæti hamlað þessum hlutverkum.

 

Samkvæmt alþjóðlegum siðareglum almannatengla er ekki leyfilegt að beita sefjun gagnvart fjölmiðlafólki eða almenningi. Raunin er sú að oft er verið að reyna að sefja fjölmiðla eða almenning til að fylkja sér að baki málstað án þess að áheyrendur skilaboðanna viti nokkuð um raunverulegu markmið þess að reynt er að hafa áhrif á hann. Almannatenglar sem ekki hafa hlotið fagmenntun eða tilhlýðilega þjálfun þekkja ekki þessa reglu og fylgja henni því ekki. Að líkindum stuðlar þetta að ranghugmyndum um starfshætti almannatengla. Þetta skapar því vantraust, og réttilega.

Hver er lausnin?

Lítið hefur breyst í grundvallar þáttum alþjóðlegra siðareglna almannatengla, sem Basil Clarke setti í byrjun síðustu aldar. Clarke, sem starfaði á þeim tíma sem blaðamaður hjá Daily Mail, talaði fyrir því að allt efni sem kæmi frá almannatengli yrði merkt sendanda og skýrt tekið fram um hvers konar efni var um að ræða og að þetta væri mikilvægasti punkturinn að það sé skylt að upplýsa hver viðskiptavinurinn er og í hvaða tilgangi efninu væri miðlað.

Okkar aðferð í faghópnum er að stuðla að fagmennsku með samtali fagaðila á milli, ásamt því að leggja línurnar þar sem fagaðilar geta í framhaldinu dregið einhver mörk og skapað málefnalega gagnrýni á ófagleg vinnubrögð kollega sinna og stutt við fagleg vinnubrögð sem geta leitt til betri samskipta og miðlunar á milli fjölmiðla, almannatengla og lögaðila.

  

Niðurstaða umræðnanna?

Að erindi loknu tóku við pallborðsumræður þar sem Brynjar Níelsson, varaþingmaður og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og fjölmiðlarýnir og Þórarinn Þórarinsson, einn reyndasti blaðamaður landsins og nú starfandi á Fréttablaðinu, svöruðu ásamt Ingvari spurningum úr sal.
Umræðan hverfðist fljótt um hlutverk fjölmiðla en í þeim geira eru skiptar skoðanir um það hvort skilgreina beri fjölmiðla sem fjórða valdið eða ekki. Bæði Brynjar og Þórarinn vildu meina að sú skilgreining ætti ekki rétt á sér. Fjölmiðlar hefðu ekkert formlegt vald og ættu að forðast það að líta á sig sem fjórða valdið því annars gætu fjölmiðlarnir orðið hluti af „establishmentinu“ sem ynni gegn þekktum tilgangi þeirra. Fór þessi umræða fram á þeirri forsendu sem Ingvar nefndi í sínu erindi að fjölmiðlafólkið sjálft væri að meirihluta sammála þeirri skilgreiningu; að fjölmiðlar eru fjórða vald samfélagsins.

Þá kom einnig fram að vantraust fjölmiðlafólks gagnvart almannatenglum væri almennt enda eru fjölmiðlar undir stöðugum þrýstingi að birta umfjöllun um allskonar hluti sem væri í raun ekki áhugaverðir frá sjónarhóli fjölmiðla. Faglegt traust gæti þó myndast þar sem almannatenglar taka hlutverk sitt alvarlega gagnvart fjölmiðlum með einskonar hliðvörslu gagnvart fjölmiðlum þar sem viðskiptavinir eru stoppaðir af með málefni sem ekki ættu raunverulegt erindi í fjölmiðlum.

Það virðist þó samróma niðurstaða fundarins að hlutverk fjölmiðla, óháð því hvort þeir eru skilgreindir sem fjórða valdið eða ekki, er eitt það mikilvægasta í frjálsu og lýðræðislegu samfélagi. Af því leiðir að almannatenglum ber að umgangast fjölmiðla af ábyrgð þar sem heiðarlegir starfshættir eru hafði að leiðarljósi og barist er gegn sefjun með öllum tiltækum ráðum.

 

Við kveðjum að sinni og viljum við minna fólk á að fylgjast með hliðstæðum viðburðum á landsbyggðinni á næstunni.

 

 

 

 

 

 

 

"Bylting í stjórnun 2022 - Í auga stormsins" ráðstefna 30. september

Faghópur um leiðtogafærni vekur athygli á einstaklega áhugaverðri ráðstenu "Bylting í stjórnun 2022 - Í auga stormsins" sem fer fram í Gamla bió 30. september. Nánari upplýsingar og skráning hér http://manino.is/i-auga-stormsins/  

TÍMAMÓTATAL – reynslusaga stjórnanda úr heilbrigðiskerfinu.

TÍMAMÓTATAL – reynslusaga stjórnanda úr heilbrigðiskerfinu.
 
Jón Magnús deilir upplifun sinni af markþjálfun og því hvernig aðferðin gerði honum kleift að finna köllun sína í starfi, vita hver hann raunverulega er og hvernig hann gæti eftirleiðis lifað í sátt við sig með því að taka fulla ábyrgð á eigin lífi og líðan.
Að lokum mun Jón Magnús Kristjánsson sitja fyrir svörum ásamt markþjálfa sínum Aldísi Örnu Tryggvadóttur, PCC vottuðum markþjálfa hjá Heilsuvernd.
 
 
Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir er ráðgjafi heilbrigðisráðherra í málefnum bráðaþjónustu í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Jón útskrifaðist með embættispróf í læknisfræði frá HÍ og sem sérfræðingur í almennum lyflækningum og bráðalækningum frá háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Hann er auk þess með MBA-gráðu frá HR. Jón hefur viðtæka reynslu sem stjórnandi í heilbrigðiskerfinu og starfaði sem yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala og síðar framkvæmdastjóri hjá Heilsuvernd þar til hann hætti þar störfum í júní sl. Heilsuvernd er sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtæki sem rekur hjúkrunarheimili og heilsugæslustöð auk þess að vera einn stærsta veitandi fyrirtækjaþjónustu á heilbrigðissviði á Íslandi. Jón hefur auk þess starfað með íslensku rústabjörgunarsveitinni og farið í sendiferðir á vegum alþjóða Rauða Krossins.

Á mitt vörumerki heima á TikTok?

Faghópur um þjónustu- og markaðsmál hóf starfsárið af krafti í morgun með fundi sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík. Streymi af fundinum er aðgengilegt á facebooksíðu félagsins.  

Samfélagsmiðillinn og myndbandsveitan TikTok hefur á stuttum tíma orðið einn vinsælasti samfélagsmiðillinn í heimi og mörg fyrirtæki byrjað að nýta sér vettvanginn í kjölfarið í markaðslegum tilgangi.

Ásmundur Atlason, markaðsstjóri Domino's og Unnur Aldís Kristinsdóttir, markaðsstjóri Smitten sögðu frá því hvernig TikTok hefur haft áhrif á þeirra markaðsmál og hvernig þau hafa náð árangri með sitthvorri áherslunni.

Dominos á Íslandi voru ein af fyrstu fyrirtækjunum á Íslandi til að nýta sér TikTok. Efnið þeirra hefur vakið heimsathygli og eru þau með yfir 160 þúsund fylgjendur.

Smitten er ört vaxandi sprotafyrirtæki sem hefur verið að teygja sig til Danmerkur. TikTok hefur verið eitt helsta vopnið fyrir góðum vexti í Danmörku með notkun TikTok ads og áhrifavalda þarlendis.

 

Diversify Nordic Summit

Í síðustu viku héldu tvær stjórnarkonur faghóps um fjölbreytileika og inngildingu til Osló til að taka þátt í fyrsta Diversify Nordic Summit. Ráðstefnan var haldin í fallegu umhverfi við Holmenkollen skíðasvæðið. Á ráðstefnuna var mætt fólk víðsvegar að úr heiminum, flest frá Norðurlöndunum en auk þeirra voru þátttakendur frá Norður-Ameríku, Afríku og annars staðar frá Evrópu. Þátttakendur höfðu það flest sameiginlegt að brenna fyrir fjölbreytileika og inngildingu fólks til atvinnuþátttöku og í samfélögum sínum almennt. Ráðstefnan var skipulögð af Diversify sem eru samtök, ekki rekin í hagnaðarskyni, sem vinna að því að auka fjölbreytileika innan fyrirtækja og auka skilning samfélagsins á mikilvægi inngildingar.

Chisom Udeze sem stofnaði Diversify Nordics og er forsprakki þess að ráðstefnan var sett á fót, er upprunalega frá Nígeríu. Chisom hefur búið í Noregi í fjöldamörg ár og fannst tími til kominn að stofnað væri til samtals milli Norðurlandanna á sviði inngildingar. Hún viðurkenndi í setningarræðu sinni að gera þyrfti betur á næsta ári, því enginn fyrirlesara eða þátttakenda í pallborðsumræðum voru einstaklingar með fötlun eða frá frumbyggjaþjóðum líkt og Inúíta eða Sama. Einnig var skortur á þátttakendum frá Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum og sagðist Chisom staðráðin í því að bæta um betur á næsta ári. Að takast á við vankanta sinnar eigin ráðstefnu strax í upphafi setti tóninn fyrir það sem eftir kom. Umræður voru innihaldsríkar, gagnrýnar og á sama tíma leituðust þátttakendur til að sýna hvorum öðrum skilning. Öll voru vissulega komin til að læra af hvoru öðru, öðlast reynslu og betrumbæta sín samfélög eða fyrirtækjamenningu.

Þann lærdóm sem við drógum helst af þessari ráðstefnu er að Ísland er ekki bara komið frekar stutt á veg í þessu málefni, heldur eru Norðurlöndin ekki endilega komin mikið lengra en við í þessari umræðu. Hin svokallaða samnorræna „afneitun“ (e. Nordic denial), þ.e. tilhneigingin til að halda svo fast í þá hugmynd að allt hljóti að vera í lagi í velferðarríkjunum okkar að ekki gefst rými til að tala um vandamálin, eða hlusta á raddir þeirra sem verða fyrir óréttlæti í okkar eigin ríkjum, ristir enn djúpt. Nauðsynlegt er að horfast í augu við þá fordóma sem eru ríkjandi hjá okkur sjálfum og skoða hvernig ómeðvituð hlutdrægni heldur aftur af ákveðnum hluta fólks.

Þrátt fyrir að öll Norðurlöndin geti greinilega gert mun betur til að breyta hugarfari sínu gagnvart fjölbreyttu starfsfólki þá þykir okkur enn vanta upp á að samtalið sé tekið á Íslandi. Frá hinum löndunum mátti sjá mjög fjölbreyttan hóp einstaklinga sem starfa við mannauðsmál, fjölbreytileika- og inngildingarstjórnun fyrir hin ýmsu fyrirtæki og var umræðan eftir því. Þetta er ólíkt því sem gerist alla jafna á Íslandi. Hér er vissulega fjölbreytileiki til staðar, enda næstum fjórðungur íbúa landsins innflytjendur, börn innflytjenda eða einstaklingar með erlendan bakgrunn. Samt sem áður skortir fjölbreytileikann enn í mörgum geirum og sérstaklega í stjórnunarstöðum. 

Við viljum ekki að Ísland verði eftirbátur hinna landanna, enda höfum við allt bolmagn til þess að vera framarlega á sviði inngildingar, líkt og í svo mörgu öðru. Það er von okkar að sá aukni áhugi sem við finnum fyrir að fólk sýni inngildingu færi íslenskum fyrirtækjum og íslensku samfélagi meiri velferð. Enda hafa fjölbreyttar raddir, með fjölbreytta reynslu, sannað að þær færa sínu nærumhverfi hagsæld og hamingju - svo fremi sem þær upplifa inngildingu. 

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, stjórnarmeðlimur

Irina S. Ogurtsova, formaður

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?