Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi veitt í sjötta sinn og heiðursfélagi útnefndur 5.mars 2015


Verðlaunahafar ásamt forseta Íslands. Frá vinstri: Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem afhenti verðlaunin, Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, heiðursverðlaunahafi Stjórnvísi 2015, Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Ágústa Björg Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs og rekstrar Sjóvár.

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi voru veitt í sjötta sinn fimmtudaginn 5.mars í Turninum íKópavogi að viðstöddum forseta Íslands. Þetta er í senn verðlaunahátíð og ráðstefna þar sem þrír áhugaverðir fyrirlesarar fluttu erindi sem tengdist þema hátíðarinnar: „Ísland, land tækifæranna, verðmætasköpun til framtíðar“. Fyrirlesarar voru þau:

  • Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins og formaður samtaka ferðaþjónustunnar.
  • María Bragadóttir, framkvæmdastjóri Alvogen á Íslandi.
  • Jens Garðar Helgason, formaður SFS, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Handhafar stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2015 eru:

  • Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs
  • Ágústa Björg Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs og rekstrar Sjóvár

Ekki voru veitt sérstök frumkvöðlaverðlaun að þessu sinni, því ekki bárust nægilega margar tilnefningar í þennan flokk

Heiðursfélagi Stjórnvísi 2015 útnefndur og verðlaunaður: Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar.

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin og Bára Sigurðardóttir, formaður dómnefndar, flutti ræðu fyrir hönd dómnefndar. Fjölmenni var við afhendingu verðlaunanna.

Dómnefnd 2015 skipuðu eftirtaldir:

  • Agnes Gunnarsdóttir, stundakennari við Háskólann á Bifröst
  • Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi Capacent
  • Bára Sigurðardóttir, formaður dómnefndar og mannauðsstjóri hjá Termu.
  • Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofu og formaður Félags forstöðumanna * ríkisstofnana.
  • Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
  • Helgi Þór Ingason, dósent og forstöðumaður MPM náms við HR.
  • Hjörleifur Pálsson, stjórnarmaður og ráðgjafi

Ritari dómnefndar er Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Stjórnandi ársins 2015

Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK.

Verðlaunahafinn er framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og hefur leitt það frumkvöðlastarf sem átt hefur sér stað hjá sjóðnum frá stofnun þess árið 2008. Árangur og ávinningur af starfsemi VIRK fjárhagslegur og samfélagslegur er mjög mikill þar sem hann hefur á undanförnum árum skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði.

Talnakönnun komst nýverið að þeirri niðurstöðu að um 10 milljarða ávinningur hafi verið af starfsemi VIRK árið 2013 sem skili sér til Tryggingarstofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins að ótöldum ábata hvers einstaklings og samfélagsins alls. Fagleg vinna VIRK hefur m.a. vakið athygli erlendis frá, matsferillinn og þverfaglega teymisvinnan sem hann byggist á er meðal þeirra þátta í starfseminni sem erlendir fagaðilar líta til sem fyrirmyndar. Verðlaunahafinn er frábær leiðtogi með skýra framtíðarsýn og markmið. Skapar vinnuumhverfi þar sem hver einstaklingur fær að nýta hæfileika sína til fulls og ber traust til þeirra . Hann er hvetjandi stjórnandi, góður hlustandi og dregur fram bestu eiginleika síns fólks með jákvæðni og uppbyggilegum stjórnunarhætti, skýrum markmiðum og stuðningi til að ná þeim.


Verðlaunahafinn er Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK

Millistjórnandi ársins 2015

Ágústa Björg Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs og rekstrar Sjóvár

Verðlaunahafinn er forstöðumaður mannauðsdeildar Sjóvá. Hann er mikil fagmanneskja og hefur að þróun aðferða við starfsmannamat, starfsmannviðtöl, stjórnendamat o.fl. Verðlaunahafinn hefur mikla hæfileika í mannlegum samskiptum og leitast ávallt við að laða fram það jákvæða í fólki.

Ef takast þarf á við erfið starfsmannamál er það gert af mikilli festu en um leið einkennast öll verk hans af virðingu fyrir þeim sem í hlut eiga. Sjóvá fékk í fyrra jafnlaunavottun með tiltölulega lítilli fyrirhöfn þar sem mál voru þegar í góðu horfi hjá félaginu.


Verðlaunahafinn er Ágústa Björg Bjarnadóttir sem stýrt hefur mannauðsmálum Sjóvá frá árinu 2007.

Frumkvöðull ársins 2015

Ekki voru veitt sérstök frumkvöðlaverðlaun að þessu sinni, því ekki bárust nægilega margar tilnefningar í þennan flokk

Heiðursfélagi Stjórnvísi 2015

Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar


Heiðursfélagi Stjórnvísi 2015 Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar.

Það er mér mikill ánægja og sérstakur heiður að fá að kynna heiðursfélaga Stjórnvísi 2015 og á einstaklega vel við hér í dag því heiðursfélaginn Jón G. Hauksson er einn af upphafsmönnum Stjórnunarverðlaunanna sagði Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi.

Þær viðmiðunarreglur sem stuðst er við um val á heiðursfélaga Stjórnvísi eru eftirfarandi:

1. Að viðkomandi hafi unnið gott starf fyrir félagið
2. Hafi unnið að rannsóknum, kennslu eða fræðslu á sviði stjórnunar.
3. Sé frumkvöðull að innleiðingu nýjunga á sviði stjórnunar.
4. Hafi verið öðrum góð fyrirmynd í starfi sínu.

Þessar viðmiðunarreglur uppfyllir Jón G. Hauksson allar og meira til. Hann gekk í félagið vorið 2009 eftir að til hans var leitað um að koma inn í stjórnina og miðla af reynslu sinni.

Hann sat samfleytt í stjórninni í fjögur ár, tvo síðari árin sem formaður félagsins. Hann lagði sig fram í stjórn félagsins um að hrinda ýmsum nýjungum í framkvæmd með öðrum stjórnarmönnum, eins og að efna til haustráðstefnu á hverju ári sem og að koma Stjórnvísiverðlaununum á laggirnar eins og áður var nefnt.

Sem formaður félagsins árin 2011 til 2013 lagði hann megináherslu á kraftmikið starf í faghópum, að fjölga í félaginu, huga að stefnumótun þess, treysta fjárhaginn, koma á fundum allra faghópa með stjórn og gera veg stjórnarskiptarfunda meiri. Megináherslu lagði hann á að félagið yrði þekktara í atvinnulífinu á meðal æðstu stjórnenda í stærstu fyrirtækjum landsins svo að meiri skilningur yrði á kröftugri þátttöku starfsmanna þeirra innan Stjórnvísi. Í hans stjórnartíð fjölgaði félögum úr 600 í 2000.

1. Jón hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir nýjungar og rannsóknir í stjórnun. Árið 2005 var hann fyrsti karlmaðurinn sem hlýtur viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir umfjöllun og rannsóknir á samanburði á stöðu kvenna og karla í atvinnulífinu. Aðeins einn annar karlmaður hefur fengið þessa viðurkenningu Jafnréttisráðs; Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur sem hlaut þau á síðasta ári.
2. Árið 2006 var hann fyrsti karlmaðurinn sem hlýtur viðurkenningu FKA; Félags kvenna í atvinnulífinu, fyrir rannsóknir og skrif um stöðu og áhrif kvenna í atvinnulífinu. Aðeins einn annar karlmaður hefur hlotið viðurkenningu FKA; Hreggviður Jónsson, eigandi Veritas Capital.
3. Hann hóf fyrstur að rannsaka og greina kerfisbundið fjölda kvenna í forstjórastörfum stærstu fyrirtækja landsins, fjölda kvenna í stjórnum stærstu fyrirtækja landsins og fjölda kvenna í framkvæmdastjórnum stærstu fyrirtækja landsins. Allt áhrifamiklar breytur í umræðunni um að setja lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.

Jón hóf sömuleiðis árlega og kerfisbundna umfjöllun um sprotafyrirtæki í Frjálsri verslun til að vekja athygli á nýsköpun,

Jón hefur unnið nokkrar rannsóknir á eignarhaldi stærstu fyrirtækja landsins.

Hann hefur setur lengur en nokkur annar í dómnefnd Frjálsrar verslunar um mann ársins í atvinnulífinu eða í 23 ár.

Hann hefur valið 100 áhrifamestu konur landsins í atvinnulífinu sl. 11 ár; í náinni samvinnu við um sex til sjö álitsgjafa sem hann hefur leitað til.

Hann hefur setið frá upphafi og lengur en nokkur annar í nefnd um val á viðskiptafræðingi ársins hjá Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

Hefur verið tíður gestur í fréttaþáttum og spjallþáttum í útvarpi og sjónvarpi í nærri 20 ár um stjórnun og viðskipti.

Hann hefur verið gestafyrirlesari við Háskóla Íslands í um 12 ár og fjallað sérstaklega um einkenni leiðtoga og farsælla stjórnenda, um landslagið í atvinnulífinu og helstu leikendur þess – þá hefur hann flutt fyrirlestra um stærstu samruna og sameiningar fyrirtækja á Íslandi allt aftur til ársins 1980. Þá hefur hann flutt fyrirlestra um nokkurra ára skeið við Háskólann á Bifröst, Háskólann í Reykjavík og á Akureyri. 

Hann hefur flutt fjölda fyrirlestra í Rotary-hreyfingunni um atvinnulífið og helstu áhrifamenn þess.

Þá hafa tugir nemenda við viðskiptadeild Háskóla Íslands leitað til hans við skrif á ritgerðum undanfarin tuttugu ár.

Nýjasta framlag Jóns er nýr sjónvarpsþáttur hans fyrir hönd Frjálsrar verslunar, Viðskipti, á sjónvarpsstöðinni ÍNN sem unnin er í samvinnu við Kauphöllina Nasdaq. Þar er farið kerfisbundnara og skipulegar yfir gengi skráðra bréfa í kauphöllinni en áður hefur verið gert – sem og almenn umfjöllun og viðtöl við helstu stjórnendur landsins.

Jón er stúdent frá MR árið 1975 og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands vorið 1980.

Núverandi samstarfsmaður og samstúdent Jóns úr MR 1975 Benedikt Jóhannesson segir um Jón:

Jón er mjög jákvæður vinnufélagi og hugmyndaríkur. Hann hefur mikinn metnað fyrir hönd blaðsins og hefur mjög góð tengsl í viðskiptalífinu. Hann hefur fengið fjölmarga aðila til þess að segja frá nýjungum á ýmsum sviðum viðskiptalífsins. Hann á auðvelt með að fá fólk til þess að skrifa í blaðið eða mæta þangað sem viðmælendur. 

Jón hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að fjalla um konur í atvinnulífinu og þeirra stjórnunaraðferðir, t.d. hvort þær séu með einhverjum hætti öðru vísi en þær sem karlar nota. mestu skiptir þó að Jón hefur um árabil haldið úti blaði sem segir frá því helsta sem er að gerast í viðskiptalífinu og undirliggjandi straumum með jákvæðu viðhorfi til frjálsra viðskipta.

Þeir sem störfuðu með Jóni í stjórn Stjórnvísi segja um Jón: Hann er metnaðarfullur, kraftmikill, skemmtilegur, jákvæður og hugmyndaríkur. Jón hrindir hugmyndum í framkvæmd og lætur verkin tala. Það var mikið líf og fjör í félaginu og gróskumikið starf þegar hann var formaður. Hann á sannarlega heiður skilinn fyrir framlag sitt til félagsins.

Stjórnvísi óskar verðlaunahöfum og heiðursfélaga innilega til hamingju ásamt öllum þeim sem voru tilnefndir til Stjórnunarverðlaunanna 2015.

Eftirtaldir aðilar voru tilnefndir til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2015:

  • Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar
  • Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins
  • Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
  • Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Skýrslutæknifélags Íslands
  • Ágústa Björg Bjarnadóttir, forstöðumaður mannauðs og rekstrar Sjóvár
  • Ásta Malmquist, deildarstjóri fyrirtækjaþjónustu í Landsbankanum
  • Barði Þorkelsson, gæðastjóri Veðurstofu Íslands
  • Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group
  • Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofunnar
  • Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri geoSilica Iceland ehf
  • Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja
  • Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð í Landsbankanum
  • Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna
  • Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands
  • Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar trygginga hf.
  • Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, verkfræðistofu
  • Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri á verkefnastofu Landspítalans
  • Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI og markaðsstjóri Kjörís
  • Guðrún Sólveig, leikskólastjóri á Rauðhól
  • Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi og CEO Huxun
  • Hafsteinn Bragason, mannauðsstjóri Íslandsbanka
  • Halla Björg Baldursdóttir, sviðsstjóri rafrænnar stjórnsýslu Þjóðskrá Íslands
  • Halldóra G. Hinriksdóttir, forstöðumaður verkefnastofu og stefnu Landsbankans
  • Helen Breiðfjörð, mannauðsstjóri Vodafone
  • Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg
  • Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár
  • Hermann Guðmundsson, verkefnastjóri BM Vallá ehf.
  • Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands
  • Ingvi Þór Elliðason, framkvæmdastjóri Capacent
  • Jensína K. Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og mannauðs í Landsbankanum
  • Jóhanna Þ. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri aðfangasviðs Innes
  • Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri tjónaþjónustu Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
  • Kolbeinn Finnsson, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs N1
  • Kristín Pálsdóttir, deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg
  • Kristján Þór Hallbjörnsson, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Eimskips
  • Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins
  • Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands
  • Maríanna Magnúsdóttir, deildarstjóri viðskiptaferla hjá VÍS
  • Ólafía B. Ragnarsdóttir, formaður VR
  • Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans
  • Perla Ösp Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri áhættustýringarsviðs Landsbankans
  • Ragnheiður D. Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingsþjónustu og samskiptasviðs TM
  • Rannveig Eir Einarsdóttir, forstöðumaður flugþjónustudeildar Icelandair
  • Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraneskaupsstaðar
  • Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR
  • Sigurður Ragnarsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs Háskólans á Bifröst
  • Unnur Guðríður Indriðadóttir, fagstjóri þróunarsviðs VR
  • Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins
  • Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs
  • Þorsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og ráðgjafasviðs, Reiknistofu bankanna
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?