Viðburðir framundan

Stjórnarfundur Stjórnvísi - (lokaður fundur)

Stjórnarfundir Stjórnvísi eru haldnir fyrsta fimmtudag hvers mánaðar kl.11:00-12:00. Í stjórn félagsins eru 9 aðilar og eru fundir til skiptis á Teams og á vinnustöðum stjórnarfólks. Þema starfsársins er „FRAMSÝN FORYSTA“. Á fyrsta vinnufundi stjórnar sem haldinn var í júní 2025 gerði stjórn með sér samskiptasáttmála þar sem m.a. var rætt um að:

  1. Mæta undirbúin á stjórnarfundi 2. Mæta tímalega 3. Taka ábyrgð á verkefnum 4. Hafa uppbyggilega gagnrýni 5. Samskipti séu opin og eðlileg 6. Vera á staðnum 7. Allt stjórnarfólk sé virkt í starfi stjórnar 8. Stjórn ákveði sameiginlega hvar og hvernig samskipti eiga sér stað; tölvupóstur sé hinn formlegi vettvangur utan funda, en að fundir og spjall eigi sér stað á Microsoft Teams.

Stjórn er komin með drög að áhersluverkefnum starfsársins 2025-2026 sem eru fjögur. Þau verða útfærð nánar og sett á þau mælikvarða til að fylgjast með framvindu:

  1. Faghópar
    • Undirverkefni
    • Ábyrgðaraðilar
  2. Heimasíða
    • Undirverkefni
    • Ábyrgðaraðilar
  3. Myndbönd
    • Undirverkefni
    • Ábyrgðaraðilar
  4. Sóknarfæri
    • Undirverkefni
    • Ábyrgðaraðilar

 

Unnið verður í þessum áhersluverkefnum og fundað um þau sérstaklega milli fastra stjórnarfunda. Öll áhersluverkefni vísa til meginmarkmiða Stjórnvísi, eiga sér undirverkefni og mælikvarða. (sjá neðar í texta). Formaður og/eða framkvæmdastjóri félagsins stýrir stjórnarfundum þar sem áhersluverkefni stjórnar eru rædd ásamt öðrum verkefnum. Stjórn hefur aðgengi að sameiginlegu svæði í skýinu. Fundargerðir stjórnar eru öllum opnar hér.

 

Á aðalfundi haldinn 7. maí 2025 voru kosin í stjórn félagsins:

Stjórn Stjórnvísi 2025-2026.
Anna Kristín Kristinsdóttir, Engineering Manager Lead, JBT Marel, formaður (2025-2026)
Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar kosin í stjórn (2022-2026)
Héðinn Jónsson, Chief Product Officer hjá Helix health. (2025-2027)
Ingibjörg Loftsdóttir, sérfræðingur í lýðheilsu og stjórnun, formaður faghóps um Heilsueflandi vinnuumhverfi (2023-2026)
Lilja Gunnarsdóttir, sjálfstætt starfandi markþjálfi og teymisþjálfi kosin í stjórn (2022-2026)
Matthías Ásgeirsson, Bláa Lónið, stofnandi faghóps um aðstöðustjórnun kosinn í stjórn (2024-2026)
Snorri Páll Sigurðsson, deildarstjóri innkaupastýringar Alvotech, formaður faghóps um innkaupstýringu (2023-2026)
Tinna Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðsmála og sjálfbærni ON (2025-2027)
Viktor Freyr Hjörleifsson, mannauðssérfræðingur hjá Vegagerðinni. (2025-2027)

Kosin voru í fagráð félagsins.

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar (2025-2027)
Haraldur Agnar Bjarnason, forstjóri Auðkennis (2025-2027)
Margrét Tryggvadóttir, skemmtanastjóri NOVA (2024-2026)
Sigríður Harðardóttir, mannauðsstjóri Norðuráls (2024-2026)
Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO (2024-2026)

Kosnir voru tveir skoðunarmenn til 2ja ára á síðasta aðalfundi:

Sigríður Soffía Sigurðardóttir, endurskoðunarsviði KPMG (2024-2026)
Hjördís Ýr Ólafsdóttir, endurskoðunarsviði KPMG (2024-2026)

Eftirfarandi eru fyrstu tillögur/drög að mælikvörðum stjórnar 2025-2026

 

Mælikvarðar fyrir áhersluverkefni stjórnar 2025-2026

oo= rauntíma mælaborð á síðu Stjórnvísi www.stjornvisi.is

ooo= mælt árlega í viðhorfskönnun til félagsmanna

  1. Faghópar
      • Aukning á virkni faghópa oo
      • Viðburðir séu sýnilegir og auglýstir tímanlega ooo
      • Stjórn sé í reglulegu og góðu sambandi við stjórnir faghópanna ooo
      • Verkferlar félagsins fyrir stjórnir faghópa, faghópafundi og ráðstefnuhald eru skráðir og unnið eftir þeim. ooo

 

  1. Myndbönd
    1. Talning á fjölda félaga sem horfa á myndbönd á innri vef Stjórnvísi (verði sett inn í mælaborð)
    2. Fjöldi myndbanda sem er settur inn á (verði sett inn í mælaborð)
    3. Áhorf á Facebook

 

  1. Sóknarfæri
  1. Fjölgun fyrirtækja oo
        1. Fjölgun fyrirtækja með 200 eða fleiri starfsmenn oo
        2. Fjölgun fyrirtækja með 100-199 starfsmenn oo
  1. Fjölgun á heildarfjölda notenda (innri markaðssetning fyrirtækja) oo
  2. Fjölgun virkra félaga oo
  3. Fjölgun nýrra virkra félaga oo
  4. Fjölgun viðburða oo
  5. Fjölgun félaga á fundum oo
  6. Aukning á nýskráningum í mánuðinum oo
  7. Aukning á félagafjölda í faghópum oo
  8. Aukning á virkum fyrirtækjum oo
  9. Fjölgun nýrra háskólanema oo
  10. Fagmennska sé ávallt höfð að leiðarljósi í öllum störfum ooo
  11. Stjórnin efli og viðhaldi trausti á félagið með fagmennsku að leiðarljósi og starfi skv. stefnu félagsins ooo

Gæðastjórnun – Aftur er boðið upp á kaffi á meðan við köfum á dýptina

Faghópur um gæðastjórnun ætlar að endurtaka viðburð sem fór fram 28. október síðastliðinn. En aðfaranótt þess dags byrjaði að snjóa all verulega þannig að einungis örfáir aðilar komust á fundarstað. Þess vegna ætlar ætlum við að endurtaka leikinn og bjóða áhugafólki um gæðamál og stjórnunarkerfi á staðviðburð þar sem þátttakendur hittast og taka þátt í umræðum um sín uppáhalds viðfangsefni. Sett verða upp umræðuborð með umræðustjórnendum (moderators) sem halda utan um samtalið á hverju borði. Viðfangsefnin ákvarða þátttakendur í sameiningu í upphafi viðburðar og velja sér í kjölfarið borð/málefni sem þeir hafa áhuga á og gefst kostur á að koma á framfæri hugmyndum og áskorunum ásamt því að fá innblástur frá öðrum. Möguleiki er að skipta um borð/málefni einu sinni á viðburðinum ef fólk kýs. Viðburðinum lýkur svo með stuttri samantekt þar sem hver umræðustjórnandi kynnir helstu niðurstöðurnar sem fram komu á viðkomandi borði - svo allir fái innsýn í umræður og lærdóma morgunsins.

Kjörið tækifæri til að ræða gæðamál á dýptina, fá nýja sýn á áskoranir og viðfangsefni og hitta kollega í morgunkaffi og gæðaspjall😊

Fjöldi þátttakenda er miðaður við hámark 25 manns. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst – fyrstur kemur, fyrstur fær.

InnSæi og áttaviti stjórnenda í samtímanum

 

Hrund Gunnsteinsdóttir býður Stjórnvísi félögum í samstarif við fagóp um leiðtogafærni upp á þennan viðburð. Hlekkur á viðburðinn

Á klukkutíma svörum við eftirfarandi spurningum:

👉 Hvernig get ég eflt hugrekkið og traust á eigin dómgreind?
👉 Af hverju er vel þjálfað innsæi svona mikilvægt í dag, í lífi og starfi?
👉 Hvernig hjálpar skapalónið InnSæi mér að stilla mig inn á og ná meistaratökum á innsæinu?
👉 Hvernig er innsæið grundvöllurinn fyrir greind okkar, innra jafnvægi og ákvarðanir?
👉 Ég þrái breytingar, en ekki fleiri verkefni. Er InnSæi eitthvað fyrir mig?


Á sama tíma og innsæið hefur gríðarlega mikil áhrif á hegðun okkar og ákvarðanir, höfum við allof oft misskilið það eða vanrækt. Núna er tímabært að endurskilgreina samband okkar við og skilning á innsæi.

Innsæið verður sérstaklega mikilvægt þegar við stöndum frammi fyrir óvissu, álagi, flóknum verkefnum og vilja til að nota gervigreindina á áhrifaríkan hátt.

“Hrund's advice can change your life. In a world of AI, your intuition will be your defining difference.”

- Bill George, Senior Fellow Harvard Business School & metsöluhöfundur bókarinnar True North

Hlökkum mikið til að sjá ykkur.

 

Um Hrund:

Hrund Gunnsteinsdóttir er leiðtogaþjálfi, höfundur og fyrirlesari. Bókin hennar InnSæi kom út í fyrra og er nú seld um allan heim á 14 tungumálum.

Hrund hefur unnið með innsæið og rannsakað það í yfir 20 ár. Hún stýrði Prisma diplómanáminu (LHÍ, Bifröst og RA) sem var viðurkennt af Norræna ráðherraráðinu fyrir að svara hvað best kröfum vinnumarkaðarins á 21. öldinni. Hrund er handritshöfundur og meðleikstjóri alþjóðlegu heimildarmyndinnar InnSæi (2016). Hrund er vottaður leiðtogaþjálfi, hefur stundað stjórnenda-og leiðtoganám hjá Harvard Kennedy School, Yale, Stanford og Oxford Said Business School. Hún er Yale World Fellow, sat í ráðgjafaráði International Leadership Center hjá Yale, og hefur hlotið viðurkenningar eins og World Economic Forum Young Global Leader, Cultural Leader og Viðurkenningu Sjávarklasans fyrir leiðtogastörf á sviði sjálfbærni. Hrund hefur haldið fjölmarga fyrirlestra og haldið vinnstofur fyrir leiðtoga á þessu sviði og víða um heim, t.d. á vettvangi TED, World Economic Forum, Yale háskóla, Alibaba, Unilever, IMAGINE Leaders, og á Mannauðsdeginum. Hrund hefur einnig víðtæka stjórnunarreynslu hér heima og erlendis. Sjá meira hér.

Nýlega birtist viðtal við Hrund um mikilvægi innsæis á okkar tímum á CNN, grein eftir Hrund í TIME Magazine, og nýleg podcöst viðtöl eru t.d. The Evolving Leader og What's Next með Philip Meissner.

Heilsufarsupplýsingar - aðþjóðaflutningar, heilbrigðisrannsóknir, áskoranir og tækifæri

Heilsufarsupplýsingar eru stór hluti af daglegu lífi okkar og fara víða – bæði innanlands og utan. Vinnslu þeirra fylgja flóknar reglur og áskoranir, sérstaklega þegar þær eru fluttar út fyrir landssteinana. Á þessum viðburði á vegum faghóps um persónuvernd ræðum við m.a. hvernig þessi mál standa í dag, hvaða upplýsingar þetta eru og hvaða reglur gilda en einnig hvaða tækifæri eru til nýtingar gagnanna.

Við byrjum á morgunkaffi, te og smákökum í salnum kl. 9 áður en erindin hefjast kl. 9:15. Áætlað er að viðburðurinn standi til klukkan 11 ef líflegar umræður skapast. 

Viðburðurinn verður haldinn hjá Íslenskri erfðagreiningu, Sturlugötu 8, 102 Reykjavík í salnum Tjörninni sem er til hægri þegar gengið er inn í húsið. 

Við hvetjum ykkur til að mæta, taka þátt í umræðum og efla tengslanetið. Ath. að ekki verður boðið upp á streymi frá viðburðinum.

Dagskrá:

  • Alþjóðaflutningur persónuupplýsinga og heilbrigðisrannsóknir
    Anna Kristín Úlfarsdóttir, fagdirektør í alþjóðadeild norsku Persónuverndar (Datatilsynet) og sérfræðingur í undirhópi Persónuverndarráðsins (EDPB) um alþjóðaflutning síðan 2018. Erindið var einnig haldið 16. október sl. í París á ráðstefnu um persónuvernd í heilbrigðismálum (EHDPC).

  • Heilsufarsupplýsingar – reglur, vernd og framtíðarmöguleikar
    Elfur Logadóttir, framkvæmdastjóri ERA og sérfræðingur í tæknirétti, fjallar um hvaða reglur gilda, um hverja þær gilda, hvernig gögnin eru vernduð í dag og hvað við getum gert til að bæta öryggi og nýtingu þeirra eða m.ö.o. hvernig er hægt að heyja túnið þannig að uppskeran verði að gagni.

  • Skipulag og starfsemi Datatilsynet
    Anna Kristín lokar svo viðburðinum með því að gefa okkur innsýn í hlutverk og starfsemi norsku Persónuverndarinnar.

Áhættustýring og loftslagsbreytingar – Er þitt fyrirtæki berskjaldað?

Smelltu hér til að bóka þig á viðburðinn.
Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á íslenskt samfélag, hagkerfi og virðiskeðjur. Á þessum sameiginlega viðburði Festu og Stjórnvísi skoðum við hvernig slíkar breytingar geta haft áhrif á rekstur, hvernig við getum beitt ímyndunarafli í áhættustýringu og hversu vel fyrirtæki og opinberir aðilar eru undirbúin fyrir vaxandi loftslagsáhættu. Fundurinn er rafrænn og fer fram þann 16. desember kl 13:00 - 14:00.

Dagskrá:

  • Dr. Anna Hulda Ólafsdóttir, sérfræðingur í loftslagsaðlögun hjá Veðurstofu Íslands, segir okkur frá mögulegum afleiðingum loftslagsbreytinga á Íslandi.
  • Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku, fer yfir ráð gegn óhugsandi áhættu.
  • Dr. Mikael Allan Mikaelsson, sérfræðingur á sviði loftslagsstefnumótunar hjá Stockholm Environment Institute, mun fjalla um hvernig loftslagsbreytingar eru að endurmóta áhættulandslag íslenskra fyrirtækja og hagkerfisins í heild ásamt því að kynna nýtt framtak á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

 

Að loknum erindum verður opið fyrir umræður. Þátttakendur eru hvattir til að íhuga eftirfarandi spurningar fyrir fundinn:

 

  • Hefur íslenskt atvinnulíf þegar orðið fyrir áhrifum af truflunum í hnattrænum virðiskeðjum?
  • Hversu meðvituð og vel undirbúin eru íslensk fyrirtæki fyrir loftslagstengdar truflanir í virðiskeðjum?
  • Hvernig er hægt að nýta samstarf hins opinbera og einkageirans til að styrkja efnahagslegt öryggi á tímum vaxandi loftslagsáhrifa?

 

Verkefnið sem Dr. Mikael kynnir er nýtt framtak á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem norrænar rannsóknarstofnanir — þar á meðal Stockholm Environment Institute — kanna hvernig auka megi loftslagsþol efnahagskerfisins með öflugu samstarfi opinberra aðila og atvinnulífsins. Verkefnið beinir sjónum að því hvar slíkt samstarf er nauðsynlegt til að vernda mikilvægar virðiskeðjur fyrir norrænt samfélag.

 

Í framhaldi af þessu verða haldnir geirasértækir hringborðsfundir snemma árs 2026, þar sem fyrirtæki víðsvegar af Norðurlöndum verða boðuð til þátttöku. Þar koma saman leiðtogar fyrirtækja og opinberra aðila til að móta hagnýtar lausnir til að draga úr loftslagsdrifnum röskunum.

Eldri viðburðir

Gæðastjórnun - Kaffi og kafað á dýptina 28. okt.

Enn eru nokkur pláss laus á STAÐFUNDINUM "Gæðastjórnun - Kaffi og kafað á dýptina" sem fram fer 28. okt. kl. 09:00-10:30 í húsnæði Náttúrufræðistofunar Urriðaholtsstræti 6-8, Garðabæ. Sjá nánar í hér að neðan.

Skráning fer fram að venju á vef Stjórnvísi - sjá hér: https://www.stjornvisi.is/is/vidburdir/kaffi-og-kafad-a-dyptina

---

Faghópur um gæðastjórnun býður áhugafólki um gæðamál og stjórnunarkerfi á staðviðburð þar sem þátttakendur hittast og taka þátt í umræðum um sín uppáhalds viðfangsefni. Sett verða upp umræðuborð með umræðustjórnendum (moderators) sem halda utan um samtalið á hverju borði. Viðfangsefnin ákvarða þátttakendur í sameiningu í upphafi viðburðar og velja sér í kjölfarið borð/málefni sem þeir hafa áhuga á og gefst kostur á að koma á framfæri hugmyndum og áskorunum ásamt því að fá innblástur frá öðrum. Möguleiki er að skipta um borð/málefni einu sinni á viðburðinum ef fólk kýs. Viðburðinum lýkur svo með stuttri samantekt þar sem hver umræðustjórnandi kynnir helstu niðurstöðurnar sem fram komu á viðkomandi borði - svo allir fái innsýn í umræður og lærdóma morgunsins.

Kjörið tækifæri til að ræða gæðamál á dýptina, fá nýja sýn á áskoranir og viðfangsefni og hitta kollega í morgunkaffi og gæðaspjall😊

Fjöldi þátttakenda er miðaður við hámark 25 manns. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst – fyrstur kemur, fyrstur fær.

Vel sóttur fundur í JBT Marel í morgun - Hvernig vinna HSE og LEAN saman.

Stjórnvísifélagar fjölmenntu í JBT Marel í morgun þar sem Lilja Birgisdóttir (HSE/ÖHU Manager) hjá JBT Marel fræddi  okkur um hvernig HSE (ÖHU) og LEAN vinna saman, kosti þess og galla.

Boðið var upp á morgunhressingu fyrir kynninguna kl. 08:30. Eftir kynninguna var öllum boðið upp á fræðslu og útsýningshring á svölunum þar sem hægt verður að horfa yfir framleiðsluna.

Vel sóttur fundur um hvaða áhrif NIS2 hefur á íslensk fyrirtæki og stofnanir

Í dag hélt faghópur um góða stjórnarhætti sinn fyrsta fund í Grósku.  Fundurinn var einstaklega áhugaverður og vel sóttur. Hægt er að nálgast glærur fyrirlesara á innraneti Stjórnvísi með því að smella hér og velja "ítarefni". Hér má nálgast myndir sem voru teknar. 

NIS2 er Evróputilskipun um net- og upplýsingaöryggi (Network and Information Systems Directive) sem tók gildi í Evrópu í október 2024 og kemur til með að vera innleidd í íslensk lög.  Tilskipunin mun ná yfir fleiri fyrirtæki á Íslandi en fyrri tilskipun og ábyrgð stjórnenda á netöryggi verður gerð skýrari.

Nanitor mun bjóða til morgunverðarfundar þar sem fjallað verður um tilskipunina og áhrif hennar á stjórnir og stjórnendur fyrirtækja.

Dagskrá viðburðarins:

  • Hildur Sif Haraldsdóttir, yfirlögfræðingur Advania flytur erindi um áhrif NIS2 á íslensk fyrirtæki
  • Heimir Fannar Gunnlaugsson forstjóri Nanitor: Frá óvissu til yfirsýnar á 24 klst með Nanito

Viðburðurinn er haldinn í móttökurými á 2. hæð í Grósku hugmyndahúsi, Bjargargötu 1. Húsið opnar klukkan 8.30.

Skýrsla til Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna Almenn gervigreind á tímamótum – tækifæri og ógnir fram­tíðarinnar

Gervigreindin (AI) eru nú á hraðri siglingu í átt að einni róttækustu tækniframför mannkynssögunnar: almennri gervigreind (e. Artificial General Intelligence, AGI). Þessi tegund gervigreindar er ekki lengur fjarlæg framtíðarsýn heldur raunveruleiki sem sérfræðingar telja að geti orðið að veruleika innan áratugarins. Með stuðningi gríðarlegra fjárfestinga og kraftmikillar nýsköpunar stendur mannkynið frammi fyrir djúpstæðum umbreytingum – en einnig áður óþekktri áhættu.

Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna: https://uncpga.world/agi-uncpga-report/

Á síðu Framtíðarseturs Íslands: https://framtidarsetur.is/2025/06/02/almenn-gervigreind-a-timamotum-taekifaeri-og-ognir-framtidarinnar/

Upptaka frá viðburðinum: Can your dreams improve your leadership skills.

Í gær fjallaði Michael Rohde, sérfræðingur í draumum hvernig við getum nýtt draumana okkar til að skilja djúpvitund eða ómeðvitaða greind okkar og hvernig við getum nýtt þessa vitneskju í okkar daglega lífi til að auka persónulegan þroska. 

Michael hefur helgað feril sinn því að kanna djúpstæð áhrif drauma á líf okkar í vöku, sérstaklega á sviði leiðtoga og persónulegs þroska. 

Hægt er að horfa á upptöku af viðburðinum næstu vikuna og hlekk á hana og glærurnar má finna á síðu viðburðsins hér

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?