Ánægjuvogin 2022

Lógó fyrir ÁnægjuvoginaÞann 13. janúar 2023 voru niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2022 kynntar og er þetta tuttugasta og fjórða árið sem ánægja íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti.

 

Að vinna Ánægjuvogina er eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki
Mikill heiður er fyrir fyrirtæki að vera hæst á sínum markaði í Íslensku ánægjuvoginni. Íslenska ánægjuvogin er mælikvarði á ánægju viðskiptavina sem er mæld reglulega yfir árið og gagnast fyrirtækjum sem mælikvarði á þeirra frammistöðu á milli ára og í samanburði við helstu samkeppnisaðila. Þau fyrirtæki sem vinna á sínum markaði fá að nota merki Íslensku ánægjuvogarinnar á sínu markaðsefni sem og njóta heiðursins. 


40 fyrirtæki í 14 atvinnugreinum voru mæld

Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 40 fyrirtæki í 14 atvinnugreinum. Nokkur munur er á ánægju þeirra fyrirtækja sem voru mæld og eru einkunnir frá 56,1 til 81,3 af 100 mögulegum. N1 rafmagn kemur nýtt inn í mælingar í ár sem raforkusali.


Átta fyrirtæki marktækt hæst á sínum markaði
Gyllta merkið er einungis veitt þeim fyrirtækjum sem eru með tölfræðilega marktækt hæstu einkunnina á viðkomandi markaði, þ.e. þar sem segja má með 95% vissu að viðskiptavinir fyrirtækisins með hæstu einkunnina séu að jafnaði ánægðari en viðskiptavinir fyrirtækisins með næsthæstu einkunnina. Þessir sigurvegarar mega þar af leiðandi segjast vera með ánægðustu viðskiptavinina.

Sigurvegarar Íslensku ánægjuvogarinnar 2022 – Gullhafar

  • Costco eldsneyti 81,3 stig meðal eldsneytisfyrirtækja
  • Nova 76,9 stig meðal fjarskiptafyrirtækja
  • Apótekarinn 75,3 stig meðal apóteka
  • IKEA 75,2 stig meðal húsgagnaverslana
  • Krónan 74,4 stig meðal matvöruverslana
  • Orka náttúrunnar 70,8 stig meðal raforkusala
  • BYKO 70,5 stig meðal byggingavöruverslana
  • Sjóvá 69,5 stig meðal tryggingafélaga


Vinningshafar í sinni atvinnugrein – Blátt merki
Efstu fyrirtæki á mörkuðum þar sem ekki var marktækur munur á efsta og næstefsta sæti fengu einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur.

  • Heimilistæki 75,6 stig meðal raftækjaverslana
  • Play er í fyrsta skipti að fá mælingu með 72,1 stig meðal flugfélaga
  • A4 71,7 stig meðal ritfangaverslana
  • Smáralind 68,3 stig meðal verslunarmiðstöðva
  • Landsbankinn 66,3 stig meðal banka

Costco eldsneyti var með marktækt hæstu einkunn allra fyrirtækja sem mæld voru í Ánægjuvoginni og hafa fengið þá nafnbót frá því þau komu inn á íslenska markaðinn árið 2017. 

 

Einkunnir allra birtra fyrirtækja í hverri atvinnugrein má sjá í töflunni hér að neðan.

Talfa með niðurstöðum 2022

 

Um framkvæmd rannsóknar
Prósent sá um framkvæmd mælinga sem fór fram frá maí til desember árið 2022. Könnunin var send í tölvupósti á könnunarhóp Prósents. Um 3.000 manna úrtak á hverjum markaði. 200-1.000 svarendur fyrir hvert fyrirtæki. Niðurstöður voru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs og búsetu þýðisins.

Ánægjuvogin samanstendur af þremur spurningum:

  1. Á heildina litið, hversu ánægður(ur) eða óánægð(ur) ert þú með reynslu þína af [fyrirtæki]?
  2. Hugleiddu allar væntingar þínar til [fyrirtækis] annars vegar og reynslu þína af fyrirtækinu hins vegar. Að hve miklu leyti uppfyllir [fyrirtæki] væntingar þínar?
  3. Núna biðjum við þig um að ímynda þér hið fullkomna [fyrirtæki á viðkomandi markaði]. Hversu nálægt slíku fyrirtæki er [fyrirtæki]?

Ánægjuvogareinkunnin tekur gildi á kvarðanum 0-100, þar sem hærri einkunn gefur til kynna meiri ánægju. Athygli er vakin á siða- og viðmiðunarreglum um notkun á merki Íslensku ánægjuvogarinnar sem finna má á http://stjornvisi.is/anaegjuvogin ásamt öðrum upplýsingum um Íslensku ánægjuvogina.

Íslenska ánægjuvogin er í eigu Stjórnvísi og sá Prósent um framkvæmd á Íslensku ánægjuvoginni 2022.

Nánari upplýsingar
 
Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi, í síma 840 4990,  netfang: gunnhildur@stjornvisi.is
Trausti Heiðar Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents í síma 546 1008 / 859 9130, netfang: trausti@prosent.is.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?