Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2019

Verðlaunahafar ásamt forseta Íslands og formanni dómnefndar.

Frá vinstri: Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Köru Connect, Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá, Linda Gunnarsdóttir yfirflugstjóri Icelandair, Sigurður Egill Þorvaldsson leiðtogi framleiðsluskipulags Rio Tinto á Íslandi og Borghildur Einarsdóttir formaður dómnefndar og forstjóri Einkaleyfastofunnar.   

 

Stjórnunarverðlaunin 2019

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi voru veitt í tíunda sinn 28. febrúar við hátíðlega athöfn á Grand hótel að viðstöddum forseta Íslands. Þetta var í senn verðlaunahátíð og ráðstefna þar sem tveir áhugaverðir fyrirlesarar fluttu erindi sem tengdist þema hátíðarinnar: „ Helstu áskoranir við að byggja upp traust og liðsheild í viðamiklum breytingum.“. Fyrirlesarar voru:

 • Birna Ósk Einarsdóttir framkvæmdastjóri sölu-og þjónustu Icelandair
 • Hafsteinn Bragason mannauðsstjóri Íslandsbanka.  

Handhafar stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2019 eru:

 • Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Köru Connect í flokki frumkvöðla.
 • Linda Gunnarsdóttir yfirflugstjóri Icelandair í flokki millistjórnenda.
 • Sigurður Egill Þorvaldsson leiðtogi framleiðsluskipulags Rio Tinto á Íslandi í flokki millistjórnenda.
 • Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá í flokki yfirstjórnenda.

Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Einkaleyfastofunnar kynnti niðurstöður dómnefndar. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin og flutti ávarp.

Dómnefnd 2019 skipuðu eftirtaldir:

 • Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Einkaleyfastofunnar.
 • Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Viss ehf.
 • Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
 • Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs.
 • Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Festi og fyrrverandi forstjóri Icepharma hf.
 • Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.
 • Þröstur Olaf Sigurjónsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík. 

Ritari dómnefndar var Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi

 

Yfirstjórnandi ársins 2019

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.

 Hermann Björnsson

Yfirstjórnandi ársins 2019 er lögfræðingur sem tók við starfi forstjóra elsta tryggingafélags á Íslandi síðla árs 2011. Hans fyrsta verk var ekki að setjast inn á skrifstofu heldur kom hann sér fyrir á bás í opnu vinnurými. Strax frá byrjun var sleginn sá tónn að samskiptin skyldu vera opin og boðleiðirnar stuttar.

Áhersla var lögð á að byggja upp traust og starfsánægju á nýjan leik með þá sannfæringu að vopni að árangur í rekstri og ánægja viðskiptavina myndu fylgja í kjölfarið.

Hér var kominn fram bjartsýnn, ákveðinn og kraftmikill leiðtogi sem einnig var meðvitaður um að það er ekki einfalt mál að breyta fyrirtækjamenningu.

Það er þó nákvæmlega það sem hefur tekist undir stjórn verðlaunahafans í ár. Starfsmaður í upplýsingatæknideild félagsins lýsti störfum hans svona: „Hér innanhúss er búið að skapa menningu þar sem lögð er áhersla á opinská skoðanaskipti, jafnrétti milli kynja og að raddir allra fái að heyrast. Forstjórinn hvetur okkur til þess að taka frumkvæði, dreifir ábyrgðinni og treystir á að allt starfsfólk leggi hönd á plóg við stefnumótun fyrirtækisins. Lögð hefur verið rík áhersla á að auka starfsánægju í þeirri bjargföstu trú að góður starfsandi skili sér í betri þjónustu til viðskiptavina.“

Slík breyting verður vitaskuld ekki af sjálfu sér, heldur er hún afrakstur nýrrar hugsunar, ákvarðana og stefnufestu. Gott dæmi er sá árangur sem náðst hefur í jafnréttismálum síðan forstjórinn tók við. Þar hefur hann virkilega látið verkin tala. Fyrirtækið var meðal þeirra fyrstu sem hlutu jafnlaunavottun VR og jafnlaunamerki Velferðarráðuneytisins. Kynjahlutföll eru hvarvetna jöfn, hvort sem um er að ræða í yfirstjórn félagsins eða framlínu. „Svona viljum við hafa þetta og munum að sjálfsögðu halda áfram á sömu braut,“ skrifaði forstjórinn nýlega um árangurinn sem náðst hefur í jafnréttismálum.

Yfirstjórnandi ársins 2019 er ekki maður sem berst mikið á og honum líður best í faðmi fjölskyldunnar. Náin samstarfskona hans til margra ára lýsti honum svo: „Hann er yfirvegaður og skilningsríkur stjórnandi sem treystir sínu fólki og nýtur þess fyrst og fremst að sjá það blómstra. Hann er bráðskemmtilegur húmoristi, en er hins vegar lítið fyrir sviðsljós og athygli. Hann hefur til dæmis aldrei verið á Facebook svo það verður einhver annar að setja inn mynd af honum með verðlaunin þangað!“

Annað samstarfsfólk verðlaunahafans segja einn af hans stærstu kostum sem stjórnandi vera hversu auðvelt hann eigi með að setja sig í spor annarra. Kona sem starfar hjá félaginu sagði aðspurð: „Það er mjög gott og þægilegt að vinna við hans hlið. Hann er keppnismaður sem er bæði sanngjarn og kröfuharður og þannig nær hann því besta fram úr samstarfsfólki sínu. En svo hikar hann ekki við að hrista upp í hlutunum þegar þess þarf.“

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa síðan verðlaunahafinn tók við starfi forstjóra. Fyrirtækið mælist hæst í ánægju viðskiptavina og var eitt fimm fyrirtækja sem hlaut nafnbótina Framúrskarandi fyrirtæki í könnun VR árið 2018. Starfsánægja hefur stöðugt aukist og mælist nú meðal þess hæsta meðal íslenskra fyrirtækja (í topp 2% skv. Gallup).

Það er sérstök ánægja að tilkynna að Yfirstjórnandi ársins 2018 er Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.

Millistjórnandi ársins 2019

Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri Icelandair.

 stjórnunarverðlaun 2019 Linda

Stjórnandinn er kona hefur starfað í sínum geira í 25 ár og hjá núverandi vinnuveitenda í 22 ár þar sem hún gegnir stjórnunarstöðu og er hún ein örfárra kvenna í heiminum sem gegnir slíku starf. Hún fékk snemma áhuga á faginu, fór til Bandaríkjanna í nám og valdi fög sem tengdust áhugamálinu. Áhugamálið var flug. Árið 1993 hóf hún störf sem flugmaður hjá Íslandsflugi og árið 1995 hóf hún störf hjá Flugleiðum sem nú heitir Icelandair. Hún var fjórða konan til að gegna starfi flugmanns hjá félaginu. Hún hefur flogið fjölmörgum tegundum flugvéla í starfi sínu, allt frá 19 sæta Beechcraft uppí 262 sæta Boeing 767. Hún varð flugstjóri hjá Icelandair árið 2005. Hún hefur verið flotastjóri Boeingþotna Icelandair, þjálfunarflugstjóri (fyrst kvenna hjá Icelandair til að sinna þjálfun í flughermi), prófdómari, aðstoðaryfirflugstjóri og núna gegnir hún starfi yfirflugstjóra Icelandair, eins og áður sagði örfárra kvenna í heiminum í því starfi. Hjá Icelandair starfa yfir 600 flugmenn og þar af eru um 12% konur, eitt hæsta hlutfall sem þekkist í heiminum í dag. Stjórnandinn er góð fyrirmynd fyrir aðrar konur sem vilja hasla sér völl á vettvangi þar sem konur alla jafna hafa ekki verið á.

Þess má einnig geta að hún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík, með áherslu á stjórnun og stefnumótun.

Starfi yfirflugstjóra fylgir mikil ábyrgð og erill, starfsemin er í fullum gangi allan sólarhringinn, allt árið um kring, flugvélarnar stoppa aldrei og það getur reynt mikið á yfirflugstjóra. Í starfi sínu sem stjórnandi leggur hún áherslu á umburðarlyndi og mikilvægi þess að vera hluti af hópnum. Samstarfsmenn og kollegar segja hana stýra af festu og öryggi, hún er ákveðin þegar þarf á að halda, hún er ávallt fagleg í störfum sínum, hefur þægilega framkomu og býr yfir sérstakri færni í mannlegum samskiptum og hefur lag á að dreifa ábyrgð þegar það á við.

Hún á þrjú börn og elskar að ferðast og verja frítímanum með fjölskyldu sinni. Millistjórnandi ársins 2019 er Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri Icelandair.

 

 

 Millistjórnandi ársins 2019

Sigurður Egill Þorvaldsson, leiðtogi í steypuskála ÍSAL og staðgengill framkvæmdastjóra steypuskála. 

 Sigurður Egill 2019

Þessi stjórnandi hefur verið tengdur sínum vinnustað frá tvítugsaldri og gengur  elsti sonur hans  undir nafninu „Þorri“ hjá vinnufélögum því konan hans missti legvatnið á Þorrablóti fyrirtækisins 1997.  Íþróttir hafa alltaf skipað stóran sess í hans lífi, sjálfur spilaði hann handbolta til 26 ára aldurs, hefur þjálfað yngri flokka FRAM og setið síðustu 10 ár í stjórn Handknattsleiksdeildar Fram.  Tvö barna hans spila handbolta í Noregi og Þýskalandi.  

Það sem einkennir þennan stjórnanda er að hann hefur djúpa innsýn  inn í starfsemi fyrirtækisins, hefur jákvæð áhrif á samverkamenn sína, gengur fram með góðu fordæmi og hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu.  Hann hefur góða samskiptaeiginleika, er úrræðagóður og á gott með að taka ákvarðanir.  Er ábyrgur, sjálfsöruggur en getur líka deilt verkefnum og ábyrgð með samstarfsfólki. Í mörgum tilfellum hefur hann sýnt veigamikið frumkvæði og átt hugmyndir að framúrskarandi verkefnum og lausnum við krefjandi aðstæður á sínum vinnustað.  Hann vinnur mikið á jafningjagrunni og hans stjórnunaraðferðir eru í anda þjónandi forystu. 

Ferill þessa stjórnanda vakti einróma athygli og áhuga dómnefndar og er ferill hans að mörgu leiti sérstakur. Stjórnandinn hefur unnið sig jafnt og þétt upp frá því að vera ófaglærður verkamaður yfir í að vera traustur, menntaður og vel metinn stjórnandi hjá einu stærsta fyrirtæki landsins. Hann getur því talist góð fyrirmynd og hvatning til þeirra sem hyggja á stjórnendastarf í framtíðinni.  Hann var einungis með verkmenntapróf frá Verslunarskóla Íslands að baki þegar hann  hóf störf hjá fyrirtækinu. Hann sótti sér menntun í Stóriðjuskóla ÍSAL sem leiddi til þess að hann var gerður að verkstjóra í steypuskála þar sem hann leiddi hóp 20 starfsmanna við góðan orðstír.  Árið 2004 lauk hann stúdentsprófi og 2008 var hann gerður að leiðtoga á viðhaldssviði. Síðan tók við gæðastjórnun og straumlínurekstur í 2 ár.    Eftir það tókst hann á við nýjar áskoranir á framleiðsluskipulagi sem er afar flókin starfsemi þar sem að nýr steypuskáli ÍSAL var tekinn í notkun um það leyti.   En á þessum annatíma lauk hann einnig diplomanámi frá EHÍ í rekstrar-og viðskiptafræði til að styrkja sig enn frekar í starfi og árið 2014 var hann gerður að staðgengli framkvæmdastjóra steypuskála. 

Sá sem hlýtur viðurkenningu Stjórnvísi í ár í flokki millistjórnenda er Sigurður Egill Þorvaldsson, leiðtogi í steypuskála ÍSAL og staðgengill framkvæmdastjóra steypuskála.  

 

 

 

Frumkvöðull ársins 2019

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Köru Connect.

stjórnunarverðlaun 2019 Þorbjörg 

 Sá einstaklingur sem hlýtur frumkvöðlaviðurkenningu Stjórnvísi hefur í fjölmörg ár beitt sér fyrir framþróun á sviði mennta- og velferðarmála með eftirtektarverðum hætti.

Eftir að hafa menntað sig á sviði uppeldisfræði og síðar námssálfræði í Bandaríkjunum, kennt, starfað og rannsakað á háskólastigi, lá leiðin í stjórnmálin þar sem viðkomandi starfaði fyrst um sinn við hlið menntamálaráðherra sem sérstakur ráðgjafi í skólamálum og síðar sem borgarfulltrúi þar sem markmiðið var að leiða nauðsynlegar og uppbyggjandi breytingar á skólakerfinu.
Smám saman rann það upp fyrir viðkomandi að breytingarnar sem áttu sér stað innan kerfisins væru of hægfara. Hægt væri að hafa skjótvirkari áhrif til hins betra með því að taka málin í eigin hendur. Sá kraftur og ástríða sem þarf til að taka slíka ákvörðun lýsir viðkomandi stjórnanda vel. Undanfarin ár hefur þessi öflugi einstaklingur byggt upp hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að því að bylta aðgengi skjólstæðinga að sérfræðiþjónustu og nútímavæða starfsumhverfi sérfræðinga. Fyrirtækið sem er stofnað árið 2014 hefur náð góðum árangri hér á landi og fékk á síðasta ári um 200 milljón króna fjármögnun til að styðja við vöxt þess í Skandinavíu.
Í tilnefningu til verðlaunanna er tekið fram að viðkomandi ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og hafi sýnt mikla elju og þrautseigju við að umbylta gamalgrónum gildum og aðferðum með því að hagnýta tækniframfarir og setja viðskiptavini og ólíkar þarfir þeirra í öndvegi. Hugbúnaðurinn gerir skjólstæðingum m.a. kleift að bóka og sækja ýmis konar sérfræðiþjónustu á einfaldan máta í gegnum vandað fjarfundakerfi. Þessi nýbreytni hefur einnig orðið til þess að draga verulega úr umsýslu og rekstrarkostnaði sérfræðinga sem geta þar af leiðandi betur einblínt á að sinna skjólstæðingum sínum.
Viðkomandi hefur unnið til margvíslegra verðlauna fyrir frumkvöðlastarf sitt og hlaut fyrirtækið nú fyrir skemmstu viðurkenningu fólksins á Norrænu nýsköpunarverðlaununum sem fram fóru í Kaupmannahöfn síðastliðið haust.

Það er kristaltært að sá einstaklingur sem hlýtur í dag frumkvöðlaviðurkenningu Stjórnvísi brennur fyrir málstaðnum, lætur mótlætið efla sig og veigrar sér ekki við að ýta við stjórnvöldum þegar kemur að mennta- og velferðarmálum. Það var einróma álit dómnefndar að innkoma fyrirtækisins á markaðinn hefði orðið til þess að hreyfa við fagsviðum sem staðið hafa stöðug í áratugi.

Það er með ánægju sem það tilkynnist að viðurkenning Stjórnvísi árið 2019 fyrir frumkvöðlastarf hlýtur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Köru Connect.

 

Stjórnvísi óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju ásamt öllum þeim sem voru tilnefndir til Stjórnunarverðlaunanna 2019.

Eftirtaldir aðilar eru tilnefndir til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2019:

Anna Lára Guðfinnsdóttir, mannauðsstjóri BL

Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs-og sölusviðs Nóa Síríus

Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar Sjóvá

Auður Þórhallsdóttir, sviðsstjóri mannauðs og gæða hjá Virk

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu-og þjónustu Icelandair

Bjarni Hrafn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Terra Nova

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group

Bogi Þór Siguroddsson, stjórnarformaður og eigandi Johan Rönning

Edda Hermannsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsmála, samskipta og greininga hjá Íslandsbanka

Egill Jónsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs hjá Össur

Elfa Björk Björgvinsdóttir, stofnandi og eigandi 22Hill

Elín Hjálmsdottir, framkvæmdastjóri mannauðs-og markaðssviðs Eimskipa

Elín Þórunn Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri tjóna hjá Sjóvá

Elísabet Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Löður ehf.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur

Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu

Georg G. Andersen, forstjóri Inkasso ehf.

Gestur Pétursson, forstjóri Elkem á Íslandi

Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins

Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Fræðslusetursins Starfsmenntar

Hafdís Hansdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu VÍS

Halla Hrund Logadóttir, Co founder and director Harvard Kennedy School

Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri Varðar

Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá

Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri IÐUNNAR fræðsluseturs

Hildur Ösp Gylfadóttir, mannauðs-og fjármálastjóri Fiskistofu

Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri og stofnandi Grid

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri FKA

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri markaða hjá Landsbankanum

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka

Ingibjörg Gréta Gísladóttir, viðburðastjóri og markaðsráðgjafi Rigga

Jóhanna Þ. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri aðfangasviðs Innnes

Jón von Tetzchner, frumkvöðull og stofnandi Vivaldi

Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri þróunar atvinnutengingar hjá Virk

Júlíus B. Kristinsson, fjármálastjóri ORF Líftækni hf.

Júlíus Steinn Kristjánsson, mannauðsstjóri Ölgerðarinnar

Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri og stofnandi Florealis

Leifur Guðmundsson, tæknistjóri Air Iceland Connect

Lilja Gunnarsdóttir, fulltrúi á fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar

Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri Icelandair

Linda Björk Ólafsdóttir, fjárfestir og eigandi Johan Rönning

Magnús Árnason, markaðsstjóri NOVA

Magnús Brimar Magnússon, yfirmaður starfsemi á jörðu hjá Air Iceland Connect

Maren Lind Másdóttir, deildarstjóri farangurkerfa Isavia

Margrét Júlíana Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Rosamosa ehf

Margrét Lísa Steingrímsdóttir, forstöðumaður skammtímavistunar í Álfalandi, Reykjavíkurborg

Ómar Þröstur Hjaltason, framkvæmdastjóri og stofnandi Base Parking

Páll Sturluson, sviðsstjóri lýsingar Reykjafell ehf.

Rannveig Grétarsdóttir, stofnandi og stjórnarformaður Eldingar

Sigríður Harðardóttir, mannauðs-og gæðastjóri Strætó

Sigríður Indriðadóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Íslandspósts

Sigurður Egill Þorvaldsson, leiðtogi framleiðsluskipulags Rio Tinto á Íslandi

Sigurður Helgason, innkaupastjóri Innnes ehf

Sigurður B. Pálsson, forstjóri BYKO

Sonja Margrét Scott, mannauðsstjóri Coca-Cola European Partners Ísland

Sólrún Kristjánsdóttir, mannauðsstjóri Orkuveitu Reykjavíkur

Stefán Kjærnested, varafjársýslustjóri Fjársýslu ríkisins

Theódór Ragnar Gíslason, tæknistjóri og stofnandi Syndis

Trausti Harðarson, stjórnarformaður og frumkvöðull Ceo Huxun

Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Samgöngustofu

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Köru connect 

Þuríður Björg Guðnadóttir, yfirmaður sölu-og þjónustu einstaklinga hjá NOVA

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?