Siðareglur Stjórnvísi

Framtíðarsýn Stjórnvísi er að vera drifkraftur í umræðu um faglega stjórnun meðal félagsfólks auk þess að vera eftirsóttur valkostur í þekkingarleit, miðlun og tengslamyndun. 

Siðareglum Stjórnvísi, félagi um framsækna stjórnun, er ætlað að varðveita orðspor, fagmennsku og trúverðugleika félagsins. Siðareglurnar gefa skýrt til kynna hvað telst mikilvægt fyrir menningu og samskipti þeirra sem starfa á vettvangi Stjórnvísi og hvetja til faglegra vinnubragða og vandaðra stjórnunarhátta.

Stjórn Stjórnvísi, framkvæmdastjóri, stjórnir faghópa og allt félagsfólk starfa eftir megingildum félagsins sem eru fræðsla (þekkingarmiðlun), fagmennska og framsækni. Öll leggjast þau á eitt við að miðla og efla þekkingu á framsækinni stjórnun og leiðtogahæfni og stuðla að málefnalegri, faglegri og gagnrýnni umræðu á þessum sviðum.

Fræðsla

Við leggjum okkur fram um að miðla fjölbreyttri og faglegri þekkingu og reynslu um framsækna stjórnun af heilindum og faglegum metnaði. Við leggjum þannig áherslu á að mennta og fræða á ábyrgan hátt um það helsta sem er á döfinni í stjórnun og leiðtogafærni á hverjum tíma.

Við höfum vönduð vinnubrögð að leiðarljósi í öllum okkar störfum og sækjum þekkingu til öflugra einstaklinga hverju sinni. Við leggjum áherslu á að öll sem starfa og koma fram fyrir hönd félagsins beiti ávallt faglegri þekkingu sinni og persónulegri færni og séu meðvituð um ábyrgð sína gagnvart félaginu.

Við leggjum áherslu á tengslamyndun og að virkja fólk til samstarfs við að miðla þekkingu sinni, reynslu og kunnáttu til annarra á uppbyggilegan og málefnalegan hátt. Við stuðlum að faglegri þekkingarmiðlun og öflugu samstarfi og forðumst að láta persónulega hagsmuni hafa áhrif á störf okkar í þágu félagsins.

Við sýnum hvort öðru traust í þekkingarmiðlun innan Stjórnvísi, t.d. á faghópafundum, og höldum trúnað sé eftir því óskað.

Fagmennska

Við leggjum metnað okkar í að vera til fyrirmyndar fyrir félagið á öllum sviðum og gerum ekkert sem gæti skaðað orðspor Stjórnvísi. Við sýnum félaginu ávallt fyllstu hollustu í störfum okkar fyrir það.

Þegar við störfum eða komum fram fyrir hönd Stjórnvísi erum við ávallt fagleg og meðvituð um ábyrgð okkar.

Við styðjumst við leiðbeinandi reglur, gagnreynda þekkingu og alþjóðleg viðmið eftir því sem við á og fögnum uppbyggilegri gagnrýni sem nýta má til að gera faglega starfsemi félagsins betri.

Við leggjum áherslu á trúverðugleika og óhlutdrægni. Við forðumst alla sérhagsmunagæslu hvaða nafni sem hún nefnist og misnotum ekki undir neinum kringumstæðum þau tækifæri og aðstöðu sem þátttaka í félagsstarfi hjá Stjórnvísi veitir okkur, s.s. til að skapa okkur viðskipti. Við hagnýtum okkur ekki upplýsingar um hvert annað á óeðlilegan hátt og látum ekki pólitískar eða trúarlegar skoðanir hafa áhrif á störf okkar fyrir Stjórnvísi. Við fjöllum um málefni hvers annars af nærgætni og heiðarleika og sýnum hvert öðru virðingu og umburðarlyndi. Við leggjum áherslu á málefnalega umræðu og forðumst mismunun í hvaða mynd sem er.

Við leggjum áherslu á samfélagslega ábyrgð í öllum störfum Stjórnvísi, erum umhverfisvæn og förum vel með fjármuni og önnur verðmæti sem okkur er trúað fyrir í nafni félagsins.

Framsækni

Við leggjumst öll á eitt að viðhalda orðspori, ímynd og trúverðugleika félagsins sem valkosti til þekkingarleitar og miðlunar þekkingar og reynslu á framsækinni stjórnun og leiðtogahæfni.

Við sækjum fram af krafti og horfum til nýjustu strauma og stefna í faglegri stjórnun á hverjum tíma.

Við leggjum áherslu á nýsköpun, lærdóm og þróun og forðumst stöðnun og úrelt vinnubrögð. Við sýnum frumkvæði og erum leiðandi afl í umræðu um faglega og framsækna stjórnun.


Siðareglur Stjórnvísi eru ekki tæmandi lýsing á góðum starfsháttum heldur ber hvert og eitt okkar ábyrgð á að fylgja þeim og starfa í anda megingilda Stjórnvísi af heilindum, óhlutdrægni og fagmennsku. Stjórn, framkvæmdastjóri, formenn og stjórnarfólk faghópa skulu leggja sérstaka áherslu á að halda siðareglur félagsins í heiðri og kynna þær reglubundið fyrir öðru félagsfólki. 

Stjórn Stjórnvísi tilnefnir eftir þörfum þrjá aðila í siðanefnd sem úrskurða um brot. Ábendingar um brot skulu berast siðanefndinni. Brot á siðareglunum geta varðað áminningu en einnig missi félagsaðildar ef þau eru alvarleg eða ítrekuð.

Siðareglurnar skulu endurskoðast árlega þó sú endurskoðun kunni að fela í sér óbreyttar reglur frá ári til árs.

Siðareglur þessar voru samþykktar á stjórnarfundi Stjórnvísi þann 20. júní 2019 og endurskoðaðar í nóvember 2022.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?