Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi veitt í sjöunda sinn 12.apríl 2016

Verðlaunahafar ásamt forseta Íslands og formanni dómnefndar.

Frá vinstri:
Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Frostaskjóli,
Þorbjörg Jensdóttir, framkvæmdastjóri IceMedico ehf,
Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja,
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og
Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítala.

Stjórnunarverðlaunin 2016

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi voru veitt í sjöunda sinn 12.apríl við hátíðlega athöfn á Grand hótel að viðstöddum forseta Íslands. Þetta er í senn verðlaunahátíð og ráðstefna þar sem þrír áhugaverðir fyrirlesarar fluttu erindi sem tengdist þema hátíðarinnar: „Vegferð stjórnandans - leiðtogahlutverkið “. Fyrirlesarar voru þau:

  • Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, yfirmaður rannsókna og greininga Plain Vanilla.
  • Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs.
  • Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja.

Handhafar stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2016 eru:

  • Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Frostaskjóli í flokki millistjórnenda,
  • Þorbjörg Jensdóttir, framkvæmdastjóri IceMedico ehf í flokki frumkvöðla
  • Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja í flokki yfirstjórnenda.

Ásta Bjarnadóttir, formaður dómnefndar og framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítala kynnti niðurstöður dómnefndar. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin eins og hann hefur gert frá því verðlaun þessi voru fyrst afhent fyrir sex árum. Fjölmenni var við afhendingu verðlaunanna.

Dómnefnd 2016 skipuðu eftirtaldir:

  • Ásta Bjarnadóttir, formaður dómnefndar og framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítala.
  • Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofunnar
  • Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
  • Helgi Þór Ingason, prófessor og forstöðumaður MPM náms við Háskólann í Reykjavík.
  • Hjörleifur Pálsson, stjórnarmaður og ráðgjafi.
  • Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs.
  • Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Ritari dómnefndar er Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Yfirstjórnandi ársins 2016

Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja.

Verðlaunahafinn kom til starfa hjá þessu tæknifyrirtæki haustið 2012 sem aðstoðarforstjóri og var síðan ráðinn forstjóri sumarið 2013. Fyrirtækið er rótgróið, allavega þremur árum eldra en stjórnandinn sjálfur, en undir stjórn hans hefur það mótað nýja stefnu, selt eignir og gert margar breytingar á kjarnastarfseminni. Tekjur og hagnaður samstæðunnar hafa aukist verulega, og þjónustumælingar og vinnustaðagreiningar eru einnig á réttri leið.

Um verðlaunahafann er sagt að hann er einstaklega hæfur leiðtogi, snöggur að greina kjarnann frá hisminu og dvelur ekki við einstaka smáatriði. Hann hefur skýra sýn og leggur mikið upp úr að kúrsinn hverju sinni sé öllum ljós. Hann veitir öðrum frelsi og umboð til athafna, leiðbeinir, hrósar og veitir endurgjöf og tekur á málum þegar þörf krefur. Hann dregur fram það besta fram í öðrum, hlustar vel og leiðbeinir, er sterk fyrirmynd, með framúrskarandi samskiptahæfileika og mjög sterkur „sáttamiðlari“ ef svo ber við. Hann leggur mikið upp úr hópvinnu og sameiginlegri niðurstöðu og sátt. Upplýsingaflæði skiptir hann miklu máli og leggur hann mikinn metnað í reglulega starfsmannafundi með öllum starfsmönnum.

Stjórnandinn nýtir hvert tækifæri til að hrósa öðrum, tala um afrek annarra (t.d. á starfsmannafundum) og koma því áleiðis hve dýrmætt starfsfólk fyrirtækisins er fyrir árangur og framtíð fyrirtækisins. Stjórnandinn sýnir einnig á sér mannlega hlið í allri nálgun við viðskiptavini, sem er mjög vel metið.

Verðlaunahafinn er auðmjúkur, einlægur, hógvær og heiðarlegur og það er einfalt að leita til hans með öll mál. Hann lætur sig allt varða og fólk veit hvar það hefur hann. Þar að auki tekur hann sjálfan sig ekki of hátíðlega og alltaf til í að taka þátt í glensi og gríni.

Verðlaunahafinn hefur fengið stjórnendur samstæðunnar með sér í lið til að búa til þá framtíðarsýn að vera eftirsóknaverðasti vinnustaðurinn í upplýsingatækni. Verðlaunahafinn nýtur enda mikils traust hjá starfsfólki og stjórnendum. Stjórnendur sem meta hann í stjórnendamati í vinnustaðagreiningu gefa honum mjög hátt mat, sem endurspeglar þá almennu skoðun stjórnenda fyrirtækisins að hann sé sterkur leiðtogi, sem gott er að leita til.
Verðlaunahafinn í flokki yfirstjórnenda hefur, í stuttu máli, leitt sitt fyrirtæki upp úr ákveðnum hjólförum og gert það nútímalegra og meira aðlaðandi sem vinnustað fyrir þá þekkingarstarfsmenn sem bera uppi starfsemina. Viðsnúningur í rekstri sýnir að sá árangur hefur skilað sér til viðskiptavina og hluthafa líka.


Verðlaunahafinn er Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja.

Millistjórnandi ársins 2016

Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Frostaskjóli.

Stjórnandinn hefur verið í starfi sínu frá árinu 1997. Á þeim árum hefur samfélagið tekið miklum breytingum. Reksturinn sem um ræðir hefur farið úr því að vera félagsmiðstöð fyrir unglinga í að verða frístundamiðstöð með margar starfseiningar. Verðlaunahafinn var brautryðjandi í að breyta því sem áður var kallað „heilsdagsskóli“ yfir í að verða frístundaheimili. Við þetta breyttist innra starf mjög mikið og samstarf við tómstundaðila í hverfinu var stóraukið, til að samþætta vinnudag barna með því að færa tómstundir inn í vinnudaginn.

Undir stjórn stjórnandans var árið 2010 stofnað það sem kallað er „safnfrístundaheimili“, en í því felst meiri stígandi og aldursskipting. Nú eru önnur hverfi að taka upp sambærilegt kerfi. Verðlaunahafinn hefur verið í forystu fyrir Vesturbæjarfléttuna, sem er samráð grunnskóla, leikskóla og frístundmiðstöðva í Vesturbæ. Í þessu felst m.a. sameiginlegur starfsdagur og stóraukið samstarf þeirra er koma að uppeldisumhverfi barna í Vesturbæ. Verkefnið hefur hlotið athygli annarra sveitafélaga og verið kynnt á samnorrænum ráðstefnum.

Frístundamiðstöðin sem stjórnandinn leiðir, er sú stofnun innan starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem hlotið hefur hvað bestan árangur í viðhorfskönnun stéttarfélagsins sem kennd er við ,,Stofnun ársins“, en þar eru starfsmenn spurðir álits. Miðstöðin varð Stofnun ársins í flokki stærri stofnana árið 2015 og 2013, í 2. sæti árið 2014, og 5. sæti árið 2012. Þetta er besti árangur stofnunar innan starfsmannafélagsins.

Til að ná þessum árangri var farið í markvissa vinnu til að gera starfsumhverfi starfsmanna sem best og stuðla að góðum starfsanda. Mikið er unnið með myndræna stjórnun og umbótavinnu, þrátt fyrir að vinnuumhverfið sé þess eðlis að mikið er um hlutastörf og starfsmannavelta þó nokkur. Allir taka þátt í að vinna stefnu og starfsáætlun, einnig þjónustuþegar. Kannanir er snúa að þjónustuþegum koma mjög vel út og miðstöðin er ávallt í forystu á borgarvísu, auk þess sem hún hefur hlotið hvatningarverðlaun skóla- og frístundasviðs og aðrar viðurkenningar fyrir gott starf.

Verðlaunahafanum í flokki millistjórnenda er þannig lýst: Hún er fyrirmyndar stjórnandi. Hún hvetur og aðstoðar starfsmenn til að fylgja hugmyndum sínum eftir og láta góðar hugmyndir verða að veruleika. Orðrétt sagði í tilnefningu frá samstarfsmönnum: „Við starfsmenn höfum oft staðið frammi fyrir erfiðum málum sem þarfnast skjótrar úrlausnar við og hefur hún ávallt aðstoðað og hvatt okkur áfram og komið með góðar hugmyndir.“


Verðlaunahafinn er Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Frostaskjóli.

Frumkvöðull ársins 2016

Þorbjörg Jensdóttir, framkvæmdastjóri IceMedico ehf

Af mikilli stefnufestu, áræðni og hugviti hefur þessi frumkvöðull byggt upp fyrirtækið IceMedico ehf., framleiðanda vörunnar HAp+, sem eru munnvatnsörvandi, tannvænir molar, sem einkum eru þróaðir fyrir þá, sem þjást af þrálátum munnþurrki vegna sjúkdóma eða lyfjatöku.

Frumkvöðullinn hefur sýnt mikla forystuhæfileika og er vísindamaðurinn að baki uppfinningu, sem HAp+ byggir á, en í henni felst nákvæmt hlutfall sýru og kalks, þar sem sýran hámarkar náttúrulega munnvatnsframleiðslu, en kalkið kemur í veg fyrir glerungseyðandi áhrif sýrunnar. IceMedico er eigandi einkaleyfis á þessari uppfinningu í fjölda landa. Verðlaunahafinn hefur leitt uppbyggingu IceMedico og samstarf við söluaðila, fjárfesta og aðra.

Frumkvöðullinn hefur myndað öflugt teymi og vinnur ötullega að því að skapa liðsheild og hvetjandi andrúmsloft. Hún er óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir og hefur skýra sýn á stefnu IceMedico til framtíðar. Árangurinn hefur verið mikill. Til dæmis fjórfaldaðist salan á HAp+ árið 2015 og er varan nú seld í apótekum og verslunum og hjá tannlæknum; og verið er að vinna frekara markaðsstarf í tengslum við heilbrigðisstofnanir. Þá er hafin markviss vinna við að afla markaða erlendis og á IceMedico nú í viðræðum við stóra keðju heilsuvörubúða í Bretlandi. Nýsköpun og þróun HAp+ ber af samkeppnisvörum hvað varðar virkni, tannvernd og bragðgæði. Uppfinningin er einföld og byltingarkennd í senn. HAp+ hefur vakið athygli erlendis og hefur verið umfjöllunarefni á erlendum ráðstefnum á þessu sviði. Nýnæmi og erindi HAp+ á markað er þess vegna mikið. Frumkvöðullinn stefnir að töluverðri vöruþróun til viðbótar, bæði til að auka gæði kjarnavörunnar og einnig til að þróa nýjar vörur á sama grunni, t.d. tannvænt sælgæti fyrir börn. Þá stefnir frumkvöðullinn á rannsóknir og þróun á öðrum vörum, þar sem uppfinningin nýtist, ekki síst í lyfjageiranum.

Verðlaunahafinn í flokki frumkvöðla er sérfræðingur á sínu sviði og hefur mikla þekkingu og reynslu bæði hvað varðar vísindin og viðskiptin í kringum HAp+. Hún þekkir þarfir og væntingar viðskiptavinanna og er einnig virkur í fræða- og viðskiptasamfélaginu á þessu sviði. Frumkvöðullinn hefur mótað skýra stefnu til að halda samkeppnisforskoti og einnig til að byggja IceMedico upp sem sterkt og alþjóðlegt rannsóknar- og þróunarfyrirtæki á þessu sviði.


Verðlaunahafinn er Þorbjörg Jensdóttir, framkvæmdastjóri IceMedico ehf

Stjórnvísi óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju ásamt öllum þeim sem voru tilnefndir til Stjórnunarverðlaunanna 2016.

Eftirtaldir aðilar voru tilnefndir til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2016:

  • Arndís Inga Sverrisdóttir, gæðastjóri Novomatic Lottery Solutions.
  • Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Skýrslutæknifélags íslands.
  • Ásthildur M. Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel hf.
  • Benóný Ólafsson, forstjóri Gámaþjónustunnar hf.
  • Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri ÍSAM.
  • Birgitta Baldursdóttir, forstjóri True Westfjords.
  • Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu-og þjónustusviðs Símans.
  • Bylgja Kjærnested, deildarstjóri lyflækningasviðs Landspítala.
  • Einar Sigurðarson, framkvæmdastjóri Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur.
  • Elísabet Austmann, Competence Center Manager Marel.
  • Elísabet Einarsdóttir, starfsmannastjóri Íslandshótela.
  • Erla Jóna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Ölgerðarinnar..
  • Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins.
  • Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri geoSilica Iceland ehf.
  • Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja.
  • Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna.
  • Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga
  • Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar trygginga hf.
  • Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Frostaskjóls.
  • Halla Hrund Logadóttir, forstöðumaður Íslenska orkuháskólans við HR.
  • Helga Fjóla Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Íslenska Gámafélagsins.
  • Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri TrueNorth.
  • Helga Sif Friðjónsdóttir, deildarstjóri geðsviðs Landspítala.
  • Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku ehf.
  • Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri bráða-fræðslu-og gæðasviðs Sjúkrahússins á Akureyri.
  • Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
  • Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar og erlendra viðskipta hjá TM.
  • Hrafnhildur Garðarsdóttir, viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Íslandsbanka.
  • Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands.
  • Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka hf.
  • Jóhanna Másdóttir, innkaupastjóri Innnes.
  • Jóhanna Þ. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri aðfangasviðs Innnes ehf.
  • Jón Björnsson, forstjóri Festi.
  • Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri hjá Landspítala.
  • Jón von Tetzchner, frumkvöðull og stofnandi Vivaldi.
  • Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska Gámafélagsins ehf.
  • Kolbeinn Finnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs N1.
  • Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri markaðs-og sölusviðs hjá Nóa Síríus
  • Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova.
  • Lísbet Grímsdóttir, deildarstjóri Rannsóknakjarna Landspítala.
  • Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels.
  • Magnús Guðmundsson, forstjóri Landsmælinga Íslands.
  • Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innnes ehf.
  • Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorku hjá Landsvirkjun.
  • Maríanna Magnúsdóttir, deildarstjóri viðskiptaferla VÍS.
  • Ólafía B. Ragnarsdóttir, formaður VR.
  • Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri Umhverfis-og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.
  • Petrea I. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu-sölu og markaðsmála 365.
  • Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar.
  • Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar.
  • Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.
  • Sigríður Indriðadóttir, starfsmannastjóri Mannvits.
  • Sigríður Olgeirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar-og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka.
  • Sigrún Sigurðardóttir, CFO Dropa.
  • Sigurður Pálsson, forstjóri BYKO.
  • Sólveig Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Tryggingastofnunar ríkisins.
  • Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
  • Steinn Jóhannsson, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla.
  • Svali H. Björgvinsson, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs hjá Icelandair.
  • Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
  • Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365.
  • Sölvi Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Umslag ehf.
  • Þorbjörg Jensdóttir, framkvæmdastjóri Ice Medico ehf.
  • Þorvaldur Jacobsen, framkvæmdastjóri þróunarsviðs VÍS.
  • Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR.
  • Þórarinn Þórarinsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Samskipa.
  • Þórhildur Ólöf Helgadóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Heklu.
  • Össur Kristinsson, frumkvöðull og yfirhönnuður Rafnar ehf.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?