Ánægjuvogin 2025

Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2025 kynntar

Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar fyrir árið 2025 voru kynntar 22. janúar en þetta er tuttugasta og sjöunda árið sem ánægja viðskiptavina íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti. Íslenska ánægjuvogin verðlaunar þau fyrirtæki sem skara fram úr í ánægju viðskiptavina á sínum markaði.

 

Nýsköpun og stafræn upplifun einkenna sigurvegarana

Niðurstöður sýna að þau fyrirtæki sem mælast með hæstu ánægju viðskiptavina eiga það sameiginlegt að vera nýskapandi, leggja áherslu á þjónustu og sterka stafræna upplifun, oft á mörkuðum sem hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum.

„Íslenska ánægjuvogin hefur þann tilgang að hvetja íslensk fyrirtæki til að hlúa að ánægju viðskiptavina og veita þeim samræmdan og hlutlausan mælikvarða á frammistöðu sína á milli ára og í samanburði við helstu samkeppnisaðila. Það er mikill heiður fyrir fyrirtæki að vera hæst á sínum markaði í Íslensku ánægjuvoginni og mörg setja sér markmið því tengt“ segir Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Íslensku ánægjuvogarinnar og Stjórnvísi.

Í þetta skiptið var skyndibitamarkaður mældur í fyrsta sinn. Til þess að mælast í Íslensku ánægjuvoginni þurfa fyrirtæki að ná ákveðinni stærð og markaðshlutdeild.

 

indó sigurvegari Ánægjuvogarinnar annað árið í röð

indó er sigurvegari Íslensku ánægjuvogarinnar árið 2025 með 84,7 stig, hæsta allra fyrirtækja. Þetta er í annað skiptið sem niðurstöður hafa verið birtar fyrir indó og í bæði skiptin hefur fyrirtækið sigrað. Í öðru sæti er Dropp með 83,9 stig, aðeins tæpu einu stigi á eftir. Dropp var sigurvegari Ánægjuvogarinnar árið 2023. Costco eldsneyti var 3. hæsta fyrirtækið með 81,3 stig.

Mikill munur á hæstu og lægstu fyrirtækjum

Það mælist töluverð breidd á ánægju þeirra fyrirtækja sem voru mæld og eru einkunnir frá 60,8 til 84,7 af 100 mögulegum.

„Það er ljóst að ánægja viðskiptavina er ekki föst stærð og það er ekkert sem heitir að hafa áskrift að Ánægjuvoginni. Fyrirtækin þurfa stöðugt að vinna að ánægju 1 viðskiptavina. Á nokkrum mörkuðum má sjá umtalsverðar breytingar á niðurstöðum fyrirtækja milli ára, þar sem sum hafa bætt stöðu sína verulega, á meðan önnur hafa lækkað frá fyrri mælingu.” segir Gunnhildur

Konur á miðjum aldri á landsbyggðinni eru ánægðasti hópurinn

Gögnin sýna fram á ólíka upplifun út frá kyni, aldri og búsetu. Konur á aldrinum 55-64 ára á landsbyggðinni er ánægðasti hópur neytenda á Íslandi en karlmenn 35-44 ára á landsbyggðinni sá óánægðasti.

Uppskeruhátíðin á Grand hótel

Uppskeruhátíð Íslensku ánægjuvogarinnar 2025 var haldin á Grand hótel í dag, fimmtudaginn 22. janúar 2026, klukkan 15:00 til 16:00. Upptöku af viðburðinum má nálgast hér: https://www.youtube.com/live/fzZ7VQaE1d8

Um Íslensku ánægjuvogina

Íslenska ánægjuvogin er í eigu Stjórnvísi og sá Prósent um framkvæmd á Íslensku ánægjuvoginni 10. árið í röð. Gögnum var safnað frá apríl til desember árið 2025. Könnunin var send í tölvupósti á könnunarhóp Prósents á um 2.000 manna úrtak á hverjum markaði. 175 til 1.000 svör bárust fyrir hvert fyrirtæki. Niðurstöður voru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs og búsetu þýðisins. Athygli er vakin á siða- og viðmiðunarreglum um notkun á merki Íslensku ánægjuvogarinnar sem finna má á https://www.stjornvisi.is/is/vidburdir/islenska-anaegjuvogin-1 ásamt öðrum upplýsingum um Íslensku ánægjuvogina.

Nánari upplýsingar veita:

Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi, sími 840 4990, netfang: gunnhildur@stjornvisi.is

Trausti Heiðar Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents, sími 546 1008 / 859 9130, netfang: trausti@prosent.is.

 

AUKAEFNI - YFIRLIT – ÁNÆGJUVOGIN 2025

Sigurvegarar ánægjuvogarinnar 2025 – Gullhafar

  • Indó með 84,7 stig meðal banka
  • Dropp með 83,9 stig meðal póstþjónustufyrirtækja
  • Costco eldsneyti með 81,3 stig meðal eldsneytis- og hraðhleðslustöðva
  • ELKO með 77,1 stig meðal raftækjaverslana
  • IKEA með 76,9 stig meðal húsgagnaverslana
  • Sjóvá með 72,9 stig meðal tryggingafélaga
  • Nova með 72,7 stig meðal fjarskiptafyrirtækja
  • Krónan með 72,7 stig meðal matvöruverslana

Vinningshafar í sinni atvinnugrein 2025 – Blátt merki

Efstu fyrirtæki á mörkuðum þar sem ekki var marktækur munur á efsta og næstefsta sæti fá einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur, en þá er veitt blátt merki.

  • Lyfjaver með 79,0 stig meðal apóteka
  • Tokyo sushi með 75,7 stig meðal skyndibitastaða
  • A4 með 73,8 stig meðal ritfanga- og bókaverslana
  • BYKO með 69,6 stig meðal byggingavöruverslana
  • Orka náttúrunnar með 69,4 stig meðal raforkusala
  • Kringlan með 67,4 stig meðal verslunarmiðstöðva

Einkunnir allra birtra fyrirtækja í hverri atvinnugrein

 

*Fyrirtæki sem eru með tölfræðilega marktækt hæstu einkunnina í viðkomandi atvinnugrein

 

Ánægjuvogin samanstendur af þremur spurningum:

  1. Á heildina litið, hversu ánæg(ð/ður/t) eða óánæg(ð/ður/t) ert þú með reynslu þína af [fyrirtæki]?
  2. Hugleiddu allar væntingar þínar til [fyrirtækis] annars vegar og reynslu þína af fyrirtækinu hins vegar. Að hve miklu leyti uppfyllir [fyrirtæki] væntingar þínar?
  3. Núna biðjum við þig um að ímynda þér hið fullkomna [fyrirtæki á viðkomandi markaði]. Hversu nálægt slíku fyrirtæki er [fyrirtæki]?

Ánægjuvogareinkunnin tekur gildi á kvarðanum 0-100, þar sem hærri einkunn gefur til kynna meiri ánægju.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?