Framtíðarfræði

Framtíðarfræði

Faghópurinn er fyrir alla þá sem hafa áhuga á framtíðarfræðum, nýtingu þeirra og möguleikum.

Tilgangur faghópsins er að auka víðsýni og styðja við nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífs með notkun framtíðafræða. Markmiðið er að efla þekkingu á notkun framtíðarfræða sem hagnýtu tæki fyrir fyrirtæki og stofnanir til að takast á við framtíðaráskoranir, jafnt tækifæri sem ógnanir. Framtíðarfræði samanstanda af aðferðum sem hægt er að beita til að greina á kerfisbundinn hátt mögulegar birtingarmyndir framtíðar og vera þannig betur í stakk búin til að mæta óvæntum áskorunum.

Viðburðir

Síungir karlmenn – kynning á jólabókinni í ár og aðferð til að móta æskileg framtíðaráform

Vefslóð á fundinn
Ekki verða hægeldaður í viðhorfum samtíðar

Í fyrrihluta málstofnunnar verður bókin Síungir karlmenn. Innblástur, innsæi og ráð, kynnt. Síðar verður kynnt vinsæl aðferð framtíðarfræða, sem mótuð var af professor Sohail Inayatullah, þar sem farið er frá núverandi stöðu mála og hugað að æskilegri stöð í framtíðinni.

Í bókinni er aðferðin aðlöguð að einstaklingum en hún er víða notuð við að rýna framtíðaráform, mótun stefnu eða við hverskyns nýsköpun.

Vefslóð á fundinn 

Bókina og aðferðina munu höfundarnir Sævar Kristinsson og Karl G. Friðriksson kynna.

Bókin hefur að geyma 45 hugleiðingar fyrir síunga karlmenn. Þarna er um að ræða hvatningu að fara úr viðjum vanans, og brjóta upp eldri viðmið samfélagsins. Þó svo bókin sé stíluð á karlmenn þá, eins og stendur á bókakápu, hentar hún öllum kynjum.

Með bókinni vilja höfundar ögra vanabundnum viðmiðum, ýta við hugsun og opna dyr að nýjum viðhorfum og möguleikum fyrir síunga karlmenn eða karlmenn á besta aldri. Við viljum stuðla að breyttum viðhorfum samfélagsins til aldurs og þá vegferð er best að byrja með að fá hvern og einn til að rýna sjálfan sig.

Við höfum orðið varir við að umræða um aldur og það að eldast er oft lituð af neikvæðum formerkjum, klisjum. Miðaldra og eldri einstaklingar, oft reynsluboltar í fullu fjöri, mæta þröngsýnum viðhorfum sem eru ólík raunveruleikanum, jafnvel niðurlægjandi og langt frá því að vera í takti við getu þeirra og hæfni.

Bókin hefur verið rýnd af mörgum aðilum og fengið góðar umsagnir:

„Þessi bók situr í manni eftir lesturinn. Það er svo margt í henni sem ég hef ákveðið að tileinka mér. Frábær bók!"

Gunnar Helgason, rithöfundur

„Ef þetta er uppskrift að langlífi, þá tek ég tvær! Lífsgleði, forvitni og núvitund í sönnum stíl síungra karlmanna.“

Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi og frumkvöðull

„Hér er einmitt verið að fjalla um hluti sem ég verið að velta fyrir mér – bæði gagnlegt og skemmtileg lesning“

Páll Jakob Líndal, dr. í umhverfissálfræði og markþjálfi

Framtíðar-samfélagsrými í þágu velsældar.

Umhverfissálfræði, samsköpun og skipulag borga og bæja.

Join the meeting now

Tækniframfarir munu breyta eðli starfa framtíða og hversu miklum tíma er varið á vinnustöðum. Þessar breytingar munu hafa áhrif á samsetningu og íbúafjölda í sveitarfélögum um land allt og kalla óneitanlega á endurskoðun á vægi samfélagsrýma. Hvernig hönnum við innviði og almenningsrými í sveitarfélögum sem stuðla að velsæld og efla tengsl milli íbúa til framtíðar?

Dögg Sigmarsdóttir og Páll Jakob Líndal kynna á fjarfundi ólíkar útfærslur á þróun samfélagsrýma framtíða sem ýta undir mannvænt og vistvænt samfélag í virku samráði við íbúa.

Dögg Sigmarsdóttir, sérfræðingur í sköpun samfélagsrýma, kynnir hugmyndir borgarbúa frá Framtíðarfestivali Borgarbókasafnsins um mögulega nýtingu almenningsrýma eins og bókasafna eftir 100 ár og hvernig slík samfélagsrými gætu komið í veg fyrir að tengslarof, ójöfnuður og vistkreppa samtímans fylgi okkur inn í framtíðina.

Páll Jakob Líndal, umhverfissálfræðingur, kynnir nýja nálgun í skipulagi fyrir þéttbýlið Árnes í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem gagnvirkt þrívíddarlíkan af þéttbýlinu er þróað í tölvuleikjaumhverfi sem m.a. býður upp á kraftmikla upplifun í sýndarveruleika, og gerir hagaðilum kleift að skoða og meta skipulagið á aðgengilegan og sannfærandi hátt. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldi núverandi þéttbýliskjarna sem telur um nú 60 manns ríflega tífaldist á næstu árum og áratugum. Frá upphafi hefur sveitarstjórn lagt áherslu á að skipulagið byggi á umhverfissálfræðilegum áherslum, með það að markmiði að skapa mannvænt umhverfi og samheldið samfélag. Verkefnið markar nýja nálgun í skipulagsvinnu þar sem samþætt er vísindaleg þekking úr umhverfissálfræði, hönnun og skipulagsgerð, auk virks samráðs við íbúa. Með þessu er lagður grunnur að sjálfbærum þéttbýliskjarna í íslensku dreifbýli.

Páll Jakob Líndal er með doktorspróf í umhverfissálfræði frá Háskólanum í Sydney og rekur ráðgjafar-og rannsóknarfyrirtækið ENVALYS þar sem umhverfissálfræði, skipulagi og hönnun er tvinnað saman með hjálp þrívíddar- og sýndarveruleikatækni. Þá er Páll forstöðumaður viðbótarnáms á meistarastigi í umhverfissálfræði við Háskólann í Reykjavík auk þess að vera fyrirlesari og markþjálfi.

Dögg Sigmarsdóttir er verkefnastjóri sem lokið hefur APME í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er með meistaragráðu í Political and Economic Philosophy frá Universität Bern (Sviss) og hefur einnig lokið diplómanámi í alþjóða- og evrópurétti frá sama háskóla. Hún hefur stýrt fjölmörgum verkefnum sem snúa að mótun samfélagsrýma og eflingu borgaralegrar þátttöku í þágu inngildingar, velsældar og félagslegrar sjálfbærni.

Er þjálfun gervigreindar brot á höfundarétti?

Join the meeting now

Við höfum fengið Guðrúnu Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs til að fjalla um þær áskoranir sem skapandi greinar standa frammi fyrir varðandi nýtingu höfundaréttarvarðra verka til þjálfunar gervigreindar.  

Guðrún Björk hefur bent á að  „rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur af tekjum tónhöfunda gæti horfið með tilkomu gervigreindar.“ Áhugavert verður að heyra af stefnumiðum samtakanna til að takast á við þessa þróun, en STEF hefur starfað náið með norrænum höfundaréttarsamtökum og sett fram stefnu til framtíðar hvað varðar leyfisveitingar vegna spunagreindar. 

Þær spurningar sem leitast verður við að svara eru m.a.: 

  • Er þjálfun gervigreindar með höfundaréttarvörðum verkum brot á höfundarétti?
  • Hvaða áhrif hafa ákvæði tilskipunar ESB sem mælir fyrir um að rétthafar verði að kjósa að standa utan ("opt-out") þjálfunar gervigreindar annars sé slík þjálfun heimil án samþykkis. 
  • Hvað verður um þau verk sem gervigreindin skapar?  Eru þau höfundaréttarvarin? Hvað með verk sem eru að hluta til sköpuð af gervigreind?  
  • Hverjar eru skyldur fyrirtækja sem síðan nýta sér verk sköpuð af gervigreind í sínum rekstri?

Fundurinn verður einungis á streymi, föstudaginn 31. október kl. 9:00 -10:00. 

 Guðrún Björk Bjarnadóttir er framkvæmdastjóri STEFs. STEF eru innheimtusamtök tón- og textahöfunda á Íslandi. Guðrún Björk er hæstaréttarlögmaður með cand.jur gráðu frá Háskóla Íslands og viðbótar mastersgráðu í Evrópurétti frá Stokkhólmsháskóla svo og gráðu á meistarastigi í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Guðrún Björk  á að baki farsælan feril sem lögmaður hjá LOGOS lögmannsþjónustu og Samtökum atvinnulífsins áður en hún hóf störf hjá STEFi. Guðrún Björk hefur einnig sinnt kennslu í lögfræði bæði við Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur og haldið fjölda erinda og fyrirlestra hjá ýmsum aðilum, hin síðustu ár aðallega á sviði höfundaréttar. Guðrún Björk situr í stjórn NCB (Nordisk Copyright Bureau) sem annast hagsmunagæslu fyrir höfunda á Norðurlöndunum vegna hljóðsetningar og eintakagerðar verka þeirra og í stjórn Tónlistarmiðstöðvar.

Fréttir

Endurhugsun viðskiptalífsins með gervigreind

Nýlega kom út áhugaverð skýrsla frá Dubai Future Fountation. Hér eru tvær tilvitnanir er tengjast efni skýrslunnar:

Gervigreindarfulltrúar hafa möguleika á að verða öflugir bandamenn bæði leiðtoga og starfsmanna. Þeir geta aukið mannlega getu, umbreytt fyrirtækjum innan frá og tryggt að nýsköpun skapi varanlegt virði fyrir skipulagið.
Lidia Kamleh, aðallögfræðingur, Dubai Future Foundation

„Gervigreind er ekki bara tæki, heldur umbreytandi afl sem getur gjörbreytt uppbyggingu, tilgangi og umfangi fyrirtækjadeilda.“
John Jeffcock, forstjóri Winmark

Skýrslan dregur saman umræður, athuganir og framtíðarsýn sem komu fram á lokuðum fundi sem Winmark hélt í samstarfi við Dubai Future Foundation.

Skýrsluna má nálgast á eftirfarandi vefslóð:

https://www.dubaifuture.ae/insights/re-imagining-business-with-ai/

Áhugavert viðtal um þróun gervigreindar

Hér er viðtal við Eric Schmidt, fyrir framkvæmdastjóra Google, fjárfestir og hugsuður um þróun gervigreindar. Viðtalið er nokkuð langt, en áhugavert. Tækifæri til að drepa tíman og hugleiða framtíðina, í hvíld sumarsins :)

https://www.youtube.com/watch?v=qaPHK1fJL5s 

Skýrsla til Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna Almenn gervigreind á tímamótum – tækifæri og ógnir fram­tíðarinnar

Gervigreindin (AI) eru nú á hraðri siglingu í átt að einni róttækustu tækniframför mannkynssögunnar: almennri gervigreind (e. Artificial General Intelligence, AGI). Þessi tegund gervigreindar er ekki lengur fjarlæg framtíðarsýn heldur raunveruleiki sem sérfræðingar telja að geti orðið að veruleika innan áratugarins. Með stuðningi gríðarlegra fjárfestinga og kraftmikillar nýsköpunar stendur mannkynið frammi fyrir djúpstæðum umbreytingum – en einnig áður óþekktri áhættu.

Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna: https://uncpga.world/agi-uncpga-report/

Á síðu Framtíðarseturs Íslands: https://framtidarsetur.is/2025/06/02/almenn-gervigreind-a-timamotum-taekifaeri-og-ognir-framtidarinnar/

Stjórn

Karl Friðriksson
Framkvæmdastjóri -  Formaður - Framtíðarsetur Íslands
Anna Sigurborg Ólafsdóttir
Framtíðarfræðingur -  Stjórnandi - Skrifstofa Alþingis
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri -  Stjórnandi - Framtíðarsetur Íslands
Funi Magnússon
Sérfræðingur -  Stjórnandi - Össur
Guðjón Þór Erlendsson
Sérfræðingur -  Stjórnandi - Skipulagsstofnun
Gunnar Haugen
Annað -  Stjórnandi - CCP hf.
Ingibjörg Smáradóttir
Sérfræðingur -  Stjórnandi - Náttúrufræðistofnun
Kolfinna Tómasdóttir
Sérfræðingur -  Stjórnandi - Rannís
Sigurður Br. Pálsson
Forstjóri -  Stjórnandi - BYKO
Sævar Kristinsson
Sérfræðingur -  Stjórnandi - KPMG ehf
Þór Garðar Þórarinsson
-1 -  Stjórnandi - Háskóli Íslands
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?