Tilnefningarnefndir hafa á undanförnum árum orðið sífellt algengari leið til að velja í stjórnir fyrirtækja og stofnana, og eru oft taldar mikilvægt tæki til að tryggja faglegar og gagnsæjar ákvarðanir við val á stjórnarmönnum. En eru þær alltaf besta leiðin?
Á þessum viðburði verður fjallað um tilnefningarnefndir sem hluta af góðum stjórnarháttum – hlutverk þeirra, ávinning og áskoranir. Við rýnum í hvernig þær geta stuðlað að hæfni, fjölbreytileika og sjálfstæði innan stjórna, en veltum einnig upp gagnrýnum spurningum: Hver velur nefndina? Hvernig tryggjum við að ferlið sé lýðræðislegt og gagnsætt? Og hvaða áhrif hafa tilnefningarnefndir á valdahlutföll og traust?
Við höfum fengið tvær reynslumiklar konur til að fjalla um þetta áhugaverða málefni.
Drífa Sigurðardóttir, ráðgjafi og eigandi Attentus, og Jensína Kristín Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Vinnvinn, munu deila reynslu sinni og sjónarmiðum, og þátttakendur fá tækifæri til að taka virkan þátt í umræðum.
Jensína og Drífa hafa báðar víðtæka stjórnunarreynslu úr íslensku atvinnulífi og þekkja vel starf tilnefningarnefnda frá fyrstu hendi sem meðlimir og formenn slíkra nefnda.
Viðburðurinn er ætlaður stjórnarmönnum, stjórnendum, nefndarmeðlimum og öllum þeim sem hafa áhuga á faglegum stjórnarháttum og lýðræðislegum ferlum innan stjórna.
Húsið opnar kl. 8.30.
