Mannauðsstjórnun

Mannauðsstjórnun

Faghópur um mannauðsstjórnun starfar á víðu sviði mannauðsstjórnunar. Markmið faghópsins er að skapa vettvang fræðslu, upplýsinga og þróunar fyrir þá sem starfa að mannauðsmálum eða hafa áhuga á þeim málaflokki, allt frá ráðningu starfsmanna til starfsloka.

Viðburðir á næstunni

Helstu einkenni stjórnenda hjá bestu þjónustufyrirtækjunum og hvað má læra af þeim?

 

Flest ef ekki öll fyrirtæki vilja að viðskiptavinir sínir upplifi góða þjónustu. Það eru ýmis tæki og tól sem hægt er að beita en það verður ekki hjá því komist að hafa afar hæfa og góða stjórnendur. 

Í samvinnu við Nova og Expectus er ætlunin að fara yfir það hvað einkennir stjórnendur fyrirtækja sem ná árangri. 

Nova hefur í mörg ár átt ánægðustu viðskiptavini á fjarskiptamarkaði og því verður afar athyglisvert að fá kynningu á því hjá Þuríði Björg yfirmanni einstaklingssviðs hvað einkennir þeirra stjórnendur og stjórnendahætti. 

Með Þuríði ætlar Kristinn Tryggvi hjá Expectus að ræða hverskonar þjálfun og færni þessir stjórnendur ættu að hafa og hvaða faglega nálgun er hægt að taka til að hámarka árangur stjórnendanna. 

Fréttir

Lausnamiðuð samskipti

Lausnamiðuð samskipti
Faghópur um mannauðsstjórnun hélt í morgun fróðlegan og gagnlegan fyrirlestur sem fjallaði um lausnamiðuð samskipti.
Lilja Bjarnadóttir, sáttamiðlari og lögfræðingur og stofnandi Sáttaleiðarinnar, fjallaði um leiðir til þess að tala um það sem skiptir máli og hvernig við getum náð betri árangri í samskiptum við erfiðar aðstæður. Góð samskipti eru lykilþáttur í allri velgengni, hvort sem um er að ræða í fyrirtæki eða fjölskyldulífi. Með því að vera meðvitaðri um leiðir til þess að sníða hjá algengum mistökum getum við bætt eigin árangur og vellíðan. Í fyrirlestrinum var m.a. farið yfir hvernig við ræðum viðkvæm málefni og finnum sameiginlegar lausnir, án þess að móðga fólk eða hrinda því frá okkur.
Allir geta bætt sig í samskiptum, góðir leiðtogar nota lausnamiðuð samskipti þ.e. þeir taka ábyrgð á eigin samskiptum. Við getum ekki stjórnað hvernig aðrir eru en við getum leitt með góðu fordæmi. Mikilvægt er að hugsa í lausnum og gefast aldrei upp, læra af mistökunum og hafa trú að við getum bætt okkur. En hvað þurfum við að gera til að undirbúa okkur undir samtöl svo þau gangi vel. 1. Undirbúa sig vel 2. Veita samskiptum athygli 3. Lausnir og ákvarðanir.
Varðandi undirbúninginn þá þarf 1. Gera sér grein fyrir markmiðum okkar og hvað við viljum fá út úr samtalinu. 2. Tilfinningar okkar og ímynd. 3. Horfa í spegil. Mikilvægi er að spyrja hvað við viljum raunverulega ná út úr samskiptunum; viljum við að einhver eigi að gera eitthvað? Hvað viljum við fyrir hinn aðilann til lengri tíma? Hvernig vil ég að sambandið milli okkar sé? Einnig þurfum við að spyrja okkur hvað við viljum ekki. Við viljum t.d. ekki að viðkomandi finnist við hafa verið að ráðast á hann.
Einnig er mikilvægt að hugsa til þess hvaða þátt við eigum í vandamálum? Gæti það verið aðgerðaleysi þ.e. að við gerðum ekki neitt. Það er ekki svo klippt og skorið. Við þurfum að vera gagnrýnin á okkur sjálf, þannig treysta aðrir okkur betur. Enginn er fullkominn og flest allir hafa eitthvað óöryggi. Grín getur hitt á erfiða taug hjá fólki sem við þekkjum ekki og vitum ekki um. Áform annarra eru oft túlkuð út frá því hvaða áhrif þau hafa á okkur. Hvernig myndi hlutlaus aðili hugsa? Að skilja báðar hliðar er það mikilvægasta fyrir hvern og einn. Helstu mistök sem fólk gerir er að útskýra ekki ástæður ákvörðunar sinnar og gera ráð fyrir að fólk hafi sama skilning á aðstæðum.

Þjónandi forysta í framkvæmd hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur tileinkað sér þjónandi forystu. Í morgun var haldinn fundur hjá Lögreglunni á Hverfisgötu á vegum faghóps um mannauðsstjórnun þar sem Sigríður Björk fjallaði um framkvæmd þjónandi forystu í sínu starfi, áskoranir og ávinning. Í fyrra fengu félagar Stjórnvísi kynningu á Þjónandi forystu og gildum hennar og á þessum fyrirlestri var gefin innsýn í hvernig þjónandi forysta er í framkvæmd og hvernig er að vinna samkvæmt gildum þjónandi forystu. Þjónandi forysta breytir viðteknum samskiptum og stjórnunaraðferðum. Núna starfa 630 manns hjá lögreglunni en þyrfti að vera tæplega 1000 manns. Þrjátíu prósent þeirra sem eru í götulögreglunni eru konur og eru 53,8% þeirra eru undir 40 ára aldrei. Í dag missir lögreglan mikið af konum yfir til flugfélaganna vegna þess að þar eru hærri laun og meiri frítími. Sérstakar aðstæður eru í lögreglunni, starfað er eftir lögreglulögum, reglugerð um starfsstig innan lögreglu, píramídaskipulag/stigveldi, margvíslegar kröfur og afstaða til lögreglu.
Öllu máli skiptir hvernig lögreglan kemur fram því viðmót og viðbrögð á vettvangi hafa mikil áhrif. En markmiðin eru skýr. Lögð er áhersla á þjónustu við almenning, meiri þjónusta fyrir minna skattfé, aukin fagmennska, bættir verkferlar, meiri starfsánægja, meiri kraftur í starfseminni, nýsköpunarhugsun, meira jafnræði innan skipulagsheildarinnar og að auðmýkt sé ekki talinn veikleiki heldur styrkur. Sigríður sagði að þjónandi leiðtoginn væri umhyggjusamur. En hvað er þjónandi forysta? Að rækta upp leiðtoga og styrkja þá, að horfa alltaf á viðskiptamanninn, auka heilbrigði og gleði á vinnustaðnum, ýta hindrunum úr vegi, halda egóinu í tékki og að sýna auðmýkt og þjónustulund.
Þjónandi leiðtogi er fyrst og fremst þjónn. Rótin liggur í hinni eðlislægu þörf mannsins til þess að þjóna. Í framhaldi af því tekur fólk þá meðvituðu ákvörðun að gerast leiðtogar. Besti mælikvarði þjónandi forystu er að spyrja sig: „Vaxa þeir sem þjónað er sem einstaklingar og verða þeir heilbrigðari?“ Mikill misskilningur er að ætla að þjónandi forysta feli í sér undirgefni, ekki hægt að sópa vanda undir teppið, alltaf hugsað um heildarhagsmuni. Það er spurning um lífsgæði að vera öruggur í sínu landi. Þjónandi forysta krefst ákveðins jarðvegs, það er vandkvæðum bundið að koma henni á í umhverfi sem stýrt er með í anda einveldis og þar sem samstarfsfólk sýnir tregðu við að taka á sig þá ábyrgð sem fylgir þjónandi forystu.
Lögreglan vinnur í dag mikið af samstarfsverkefnum með ýmsum aðilum t.d. Landsbjörg, og velferðarráðuneytinu. Sigríður segir að það séu frábærir leiðtogar innan lögreglunnar sem leiða þessi verkefni.

Sköpunargleði og áhrif stjórnenda

Stjórnendur víðsvegar um heiminn telja að sköpunargleði sé einn af þeim þáttum sem vegur hvað þyngst til að fyrirtæki nái árangri, og alþjóða efnahagsstofnunin spáir að sköpunargleði verði á meðal þriggja mikilvægustu eiginleika starfsfólks árið 2020. Sköpunargleði er forsenda nýsköpunar og nýsköpun er grundvöllur samkeppnishæfni fyrirtækja. Stjórnendur hafa hvað mest áhrif á hvort starfsfólk komi með skapandi lausnir til að efla fyrirtækið og auka þannig samkeppnishæfni þess. Nú er brýnna en áður að stjórnendur nýti og efli sköpunargleði starfsmanna, þar sem fjórða iðnbyltingin felur í sér miklar og hraðar breytingar.
Birna Dröfn Birgisdóttir var fyrirlesari fundar sem haldinn var á vegum faghóps um mannauðsstjórnun í Festi. Á fundinum fjallaði Birna Dröfn fjalla um hvernig hægt er að efla sköpunargleði, ásamt því að fara yfir hlutverk stjórnandans við að efla og nýta sköpunargleði starfsmanna
Birna Dröfn Birgisdóttir er doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík þar sem hún rannsakar leiðir stjórnenda til að auka sköpunargleði starfsmanna. Hún er viðskiptafræðingur og stjórnendamarkþjálfi, hefur lært NLP (Neuro-linguistic programming) og mannauðsstjórnun og hún hefur meðal annars starfað við stjórnun og kennslu."
Birna byrjaði að segja frá því hve störf eru að breytast hratt og mikið. Nú eru bílar orðnir sjálfkeyrandi, póstþjónusta án starfsfólks og neytandinn orðinn vanur hraða og einfaldlega. Því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að efla sköpunargleðina til að takast á við nýju gullöldina eða iðnbyltinguna. Sköpunargleði er sköpunarkraftur, sköpunareiginleikar. Þegar við fáum að skapa þá eykur það gleði. Sköpunargleði leiðir af sér nýjar lausnir. En hvað er sköpun? Hún getur verið eitthvað nýtt fyrir einstakling eins og að hjóla í vinnuna, innleiðing á lean í vinnunni eða 3D og internet fyrir heiminn allan. Það er ekki nóg að hafa hugmynd, það verður að framkvæma hana og það er nýsköpun. Sá sem er í nýsköpun er frumkvöðull. Eitt af því sem hefur hvað mest áhrif á sköpun er trú manns á eigin sköpun, þá skapast tækifæri, við framkvæmum og fáum niðurstöðu. Þetta gengur svo aftur og aftur. Trúin eflist ekki nema niðurstaða fáist.
Rannsóknir gefa til kynna að yfirmenn hafi mest áhrif allra þátta á sköpun. Hversu virkir starfsmenn eru má útskýra með yfirmanninum. (sjá rannsókn frá US https://hbr.org/2016/12/what-great-managers-do-daily). Fyrirtæki þurfa nýsköpunarstefnu sem þarf að passa við stefnu fyrirtækisins. Öll fyrirtæki þurfa að standa í stöðugum breytingum þ.e. stigvaxandi breytingum eins og að bæta ferla. Hins vegar eru til róttækar breytingar eins og þegar apple kom með hugmynd að Itunes og hægt var að kaupa eitt lag í einu. Þetta breytti bæði viðskiptamódelinu og tækninni.
Það eru 5 þættir sem efla sköpunargleðina. Stjórnendur ættu að: 1. Spyrja spurninga 2. Finna nýjar tengingar 3. Fylgjast með (það felast gríðarleg tækifæri í að fylgjast með og læra af öðrum) 4. Gera tilraunir 5. Tala við aðra.
Mamma Albert Einstein spurði hann alltaf þegar hann kom heim úr skólanum: „Hvaða góðu spurningar spurðir þú í dag?“ Henry Ford spurði spurninga eins og hvernig getur vinnan komið til starfsmanna? Þannig breytti hann gjörsamlega öllum bílaiðnaðinum. Birna hvatti alla til að skoða áhugaverðar spurningar á: http://www.perspective.cards og einnig til að horfa á myndband með Ricardo Semler Ted talk https://www.youtube.com/watch?v=k4vzhweOefs
Þegar tekin er ákvörðun um eitthvað á alltaf að spyrja sig: Af hverju? Af hverju? Af hverju? Alltaf spyrja sig 3svar. Birna kynnti líka áhugaverða aðferð varðandi hvernig hægt er að leysa hvaða vandamál sem er t.d. að mæta oftar í ræktina eða hvernig allir geta aukið sölu. Valið er tilviljunarkennt orð. Birna lét alla velja sér tölu á bilinu 1-20 og kynnti síðan orð sem áttu við hverja tölu. Þar næst átti hver og einn að tengja sitt vandamál við það orð sem valið var. Skrifa átti niður allt sem fólki datt í hug sem tengdist viðkomandi orði.
Það felast gríðarleg tækifæri í að fylgjast með og læra af öðrum. Fara t.d. á Ted, lesa rannsóknir á netinu, heimsækja fyrirtæki innanlands sem utan og bjóða fólki heim. Henry Ford fékk mikið af hugmyndum með því að fylgjast með fólki. Mikilvægt er að teikna ferli upp þá verða þau skýrari.

Mikilvægt er að hafa hugrekki til að gera tilraunir. Margir tengja saman tilraunir við fólk í hvítum sloppum. En tilraunir má gera með allar vörur. Skoða fyrir/eftir, hafa samanburðarhópa, kalla saman teymi. Læra lítið í einu og reyna að fá niðurstöðu. Birna sagði að í doktorsnáminu væri aldrei hægt að segja að búið sé að sanna einhvern ákveðinn hlut, einungis er hægt að segja að rannsókn leiði eitthvað í ljós, ekki að hún sé hinn fullkomni sannleikur.
Það er hægt að fá ótrúlega margar hugmyndir en þær þurfa að passa fyrirtækinu og vera í takt við það sem við erum framúrskarandi í.
Sköpunargleði er að hafa gaman og hlutverk stjórnenda er að sanna að mistök séu líka skemmtileg því við lærum af þeim.

Stjórn

Guðjón Örn Helgason
Formaður - Reykjavíkurborg - öll svið
Guðrún Símonardóttir
Stjórnandi - ÁTVR
Margrét Grétarsdóttir
Stjórnandi - Reykjavíkurborg - öll svið
Sigríður Hrefna Jónsdóttir
Stjórnandi - Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
Sigrún H. Sigurðard
Stjórnandi - Kompás
Sveinborg Hafliðadóttir
Stjórnandi - Festi
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?