Af hverju að mæla vinnustaðamenningu?
Vinnustaðamenning birtist í hegðun og samskiptum á vinnustað. Vinnustaðamenning hefur áhrif á alla starfsemi og árangur og ætti að vera kappsmál fyrir stjórnendur að byggja upp menningu sem hentar starfseminni best og hámarkar árangur vinnustaðarins.
Menningarmælitæki Capacent byggir á líkani sem fyrst kom fram á áttunda áratugnum og hefur síðan verið þróað áfram af ýmsum fræðimönnum. Líkanið gerir ráð fyrir fjórum megintegundum vinnustaðamenningar og að menning hvers vinnustaðar sé blanda þeirra. Megintegundirnar eru valdamenning, hlutverkamenning, verkefnamenning og þroskamenning.
Menningarmælitæki Capcent byggist á 15 spurningum þar sem svarendur velja annars vegar valkost sem lýsir raunstöðu á þeirra vinnustað og hins vegar æskilegri stöðu. Með þessu móti fæst samhliða mat á raunmenningu og óskamenningu starfsmanna.
Ýmsar leiðir eru færar til að vinna með niðurstöður mælinga en æskilegt er að það sé gert á vinnustofum sem margir starfsmenn koma að. Þannig má auka skilning og samstöðu meðal starfsmanna, eða vinna kerfisbundið að tillögugerð sem miðast að því að færa vinnustaðinn nær óskamenningu.
Til að prófa mælitækið lagði Capacent könnun fyrir úrtak starfandi fólks á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöðurnar, sem voru kynntar á fundi Stjórnvísi í síðustu viku, benda til að vinnustaðamenning hafi mikil áhrif á viðhorf starfsfólks til ýmissa þátta í vinnuumhverfinu. Má þar nefna mat á stjórnun, trú á samkeppnishæfni fyrirtækis eða stofnunar, umbótahegðun starfsmanna, tryggð starfsmanna og mat á starfsanda. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að starfsfólk kýs oftast verkefnamenningu en nær enginn telur valdamenningu æskilega. Starfsfólk sem starfar þar sem valdamenning er ríkjandi hefur mun neikvæðara viðhorf til vinnustaðarins, sýnir minni hollustu og hefur minni trú á framtíðarmöguleikum hans.
Höfundur greinar er: Hildur Jóna Bergþórsdóttir, sérfræðingur á sviði fyrirtækja-og starfsmannarannsókna hjá Capacent