Í upphafi skyldi endinn skoða. Stefnumótun hefur afgerandi áhrif á fyrirtækjamenningu. En hvers konar fyrirtækjamenning þarf að vera til staðar til að fyrirtæki nái markmiðum sínum?
Talsvert hefur verið rannsakað og skrifað um fyrirtæki sem hafa náð afburðaárangri í rekstri. Þannig hafa helstu einkenni slíkra fyrirtækja verið tínd til - sem og leiðir til að ná fram einkennum afburðaárangurs hjá fyrirtækjum.
En er markmið um afburðaárangur í rekstri alltaf það sem hafa skal að leiðarljósi? Hvaða árangri eiga deildir í fyrirtækjum, eða málaflokkar og verkefni, að keppast við að ná?
Er ásættanlegt að sumar deildir í fyrirtækjum sýni viðunandi eða góða frammistöðu á kostnað annarra?
Getur verið að það þjóni hagsmunum fyrirtækisins best að forgangsraða varðandi frammistöðu einstakra deilda? Er t.d. hægt að afrita aðferðir, sem leiða til afburðaárangurs á einum stað, og nota þær annars staðar í þeirri von að árangurinn verði samsvarandi?
Stórt er spurt en litlu svarað.
Málið er að sé forgangsröðun og vægi einstakra deilda eða málaflokka fyrirtækis ekki í takt við stefnuna skapast vandræði. Mikilvægt er að móta fyrirtækjamenningu á skipulegan hátt og ætti lykilspurningin að vera þessi: „Hverju er verið að reyna að ná fram með fyrirtækjamenningunni?“
Ennfremur er til lítils að móta fyrirtækjamenningu nema spyrja hvers konar hegðun skuli stefnt að? Það þarf að vera klárt því stefnumótuð fyrirtækjamenning verður ekki til af sjálfu sér. Eftir höfðinu dansa limirnir.
Þess utan þarf auðvitað markvissa aðferðafræði við að innleiða ákveðna stefnu innan fyrirtækja sem og hvernig best sé að tengja hana við þá fyrirtækjamenningu sem stjórnendur óska að hafa. Þar koma aðferðir í verkefna- og gæðastjórnun að góðu gagni við að setja stefnuna og fylgja henni eftir við að ná settum markmiðum.
Í upphafi skyldi endinn skoða. Fyrirtækjamenning mótast ekki af sjálfu sér. Affarasælast er að ákveða í upphafi hvernig útkoman skal vera.
Höfundur, Sigríður Hrund Pétursdóttir, M.Sc. í stjórnun og stefnumótun er eigandi Viðskiptavits ehf.