Marel hlaut í dag viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Fyrr í dag veittu Festa - miðstöð um sjálfbærni, Stjórnvísi og Viðskiptaráð viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins. Þetta er í sjötta sinn sem viðurkenningin er veitt og sem fyrr var hátíðleg stemning þegar fulltrúar útgefanda skýrslunnar veittu viðurkenningunni móttöku. Frá árinu 2018 hefur viðurkenningin verið veitt fyrirtækjum og stofnunum sem birta upplýsingar um sjálfbærni sína og samfélagsábyrgð með markvissum og vönduðum hætti. Fyrri handhafar viðurkenningarinnar eru Play, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, BYKO, Landsvirkjun, Krónan, Landsbankinn og Isavia.

Að þessu sinni var það Marel sem dómnefnd taldi hafa gefið út eftirtektarverðustu sjálfbærniskýrslu ársins 2023, fyrir rekstrarárið 2022. Líkt og fyrri ár fjölgaði þeim skýrslum sem hlutu tilnefningu á milli ára og voru 35 skýrslur tilnefndar að þessu sinni.

Ítarleg skýrsla sem tekur tillit til helstu staðla

Hátæknifyrirtækið Marel starfar á alþjóðlegum markaði og endurspeglar upplýsingagjöf félagsins þann veruleika. Innan Marel hefur farið fram greining á hvaða sjálfbærnimælikvarðar eru viðeigandi fyrir þeirra atvinnugrein, svokölluð mikilvægisgreining. Það er mat dómnefndar að skýrslan sýni hvernig mikilvægisgreiningin nýtist í upplýsingagjöf og að meiri losun gróðurhúsalofttegunda í sjálfbærniskýrslu sé ekki endilega verra, heldur endurspegli aukna áherslu á betri gögn sem svo verða tól til skilvirkari ákvarðana.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali ársins segir að sjálfbærniskýrsla Marel birti viðeigandi upplýsingar og beri af, bæði í samanburði við innlend og erlend fyrirtæki:

„Sjálfbærniskýrsla Marels ber af sé hún borin saman við skýrslur og upplýsingagjöf innlendra fyrirtækja, og einnig sé litið til erlendra fyrirtækja sem leiða slíka upplýsingagjöf. Skýrslan er mjög ítarleg og tekur tillit til helstu staðla við gerð og birtingu sjálfbærnigagna en Marel birtir í ársskýrslu sinni almenna sjálfbærniskýrslu, Nasdaq ESG mælikvarða sérstaklega ásamt TCFD upplýsingum. Það má því segja að upplýsingagjöfin sé breið. Innan Marel hefur farið fram ítarlegri greining á umfangi 3, sem er óbein losun gróðurhúsalofttegunda en fyrirtækið birtir nú einnig óbeina losun vegna notkunar viðskiptavina á þeim tækjum sem Marel selur. Sú losun er stærsti hluti óbeinnar losunar Marel og fanga þessar upplýsingar áhuga lesanda.“

Gögn birt til virðisauka en ekki af skyldurækni

Það var Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo, sem veitti dómnefnd viðurkenningarinnar formennsku. Reynir Smári segir það ánægjulegt að veita Marel viðurkenninguna enda séu gögn skýrslunnar augljóslega birt til virðisauka fremur en af skyldurækni:

„Sjálfbærniskýrsla Marel ber með sér að þar birtist lesandanum upplýsingar sem raunverulega séu nýttar til virðisaukningar fyrir félagið en ekki sem skylduæfing til að uppfylla regluverk. Marel hefur sett sér metnaðarfull markmið og ætlar fyrirtækið meðal annars að draga úr losun frá umfangi 1 og 2 um 42% fyrir árið 2030 miðað við árið 2021 og um 25% í umfang 3. Þá ætlar Marel að endurvinna 90% af úrgangi sínum fyrir árið 2026 og stefnir að kolefnishlutleysi virðiskeðjunnar árið 2040. Það er því virkilega gaman að geta veitt Marel viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins 2023.“

Leggja sig fram við að veita skýrar og áreiðanlegar upplýsingar

Þorsteinn Kári Jónsson, forstöðumaður sjálfbærni og samfélagstengsla, veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd Marel og var að vonum glaður með árangurinn:

“Við hjá Marel erum afskaplega ánægð með að hljóta þessa viðurkenningu í ár. Síðastliðin 8 ár hefur fyrirtækið gefið út vandaðar og góðar sjálfbærniskýrslur þar sem við höfum lagt okkur sérstaklega fram við að veita skýrar og áreiðanlegar upplýsingar um það hvaða áhrif starfsemin hefur á samfélag okkar og umhverfi,” sagði Þorsteinn Kári.

“Við höfum lagt áherslu á að á hverju ári komi út vandaðri sjálfbærniskýrsla en árið áður og að við séum að mála upp heiðarlega og gegnsæja en um leið gagnlega mynd af þeim árangri sem við höfum náð.

Hluthöfum Marel, stjórnendum og starfsfólki er annt um það að vera treyst fyrir jafn veigamiklu hlutverki í alþjóðlega matvælageiranum og raun ber vitni en að sama skapi erum við stolt af því að geta tekið þátt í því að lyfta íslensku viðskiptalífi upp á hærra plan með því að veita greinargóðar upplýsingar um það hvernig við vinnum skipulega að því að hlúa að sjálfbærri þróun í okkar rekstri.” 

Í dómnefnd ársins sátu, auk Reynis Smára Atlasonar, þau Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og umhverfis hjá Landsvirkjun og Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnastjóri í stefnumótun og sjálfbærni hjá Isavia.

Markmið Festu, Stjórnvísis og Viðskiptaráðs með viðurkenningunni er meðal annars ýta undir notkun mælanlegra markmið og vandaðrar upplýsingagjafar á sviði sjálfbærni. Til að sinna þessu og til að undirbúa störf dómnefndar var skipað sérstakt fagráð sem lagði mat á allar þær skýrslur sem hlutu tilnefningu. Fagráðið var skipað þremur nemendum við Háskólann í Reykjavík sem hafa lokið sérstöku námskeiði með áherslu á sjálfbæran rekstur og upplýsingagjöf, þeim Heiðrúnu Örnu Ottesen Þóroddsdóttur, Kára Jóni Hannessyni og Jóhönnu Sól Erlendsdóttur.

Fleiri fréttir og pistlar

Áhugavert viðtal um þróun gervigreindar

Hér er viðtal við Eric Schmidt, fyrir framkvæmdastjóra Google, fjárfestir og hugsuður um þróun gervigreindar. Viðtalið er nokkuð langt, en áhugavert. Tækifæri til að drepa tíman og hugleiða framtíðina, í hvíld sumarsins :)

https://www.youtube.com/watch?v=qaPHK1fJL5s 

Nýkjörin stjórn faghóps um þjónustu-og markaðsstjórnun

Nýlega barst fyrirspurn til Stjórnvísi frá áhugasömum félaga um að endurvekja stjórn faghóps um þjónutu-og markaðsstjórnun.  Í framhaldi var sendur út póstur til félaga þar sem óskað var eftir áhugasömum í stjórn faghópsins. Viðbrögðin létu ekki á sér standa þar sem búið er að mynda 10 manna stjórn sem fundaði á VOX.  Þar kynntu félagara sig og farið var yfir ábyrgð og hlutverk stjórna faghópa Stjórnvísi. Stjórnin kaus Maríu Ágústsdóttur ON sem formann og  Hildi Ottesen sem varaformann.  Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig í faghópinn með því að smella hér. 

Stjórn faghópsins skipa:   Ásdís Gíslason Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Brynja Ragnarsdóttir Veitur, Heiðrún Grétarsdóttir Bananar, Hildur Ottesen Harpa, Hjördís María Ólafsdóttir Happdrætti Háskóla Íslands, Ingibjörg Magnúsdóttir Pílukast ehf, María Ágústsdóttir ON, Sædís Jónasdóttir Samgöngustofa, Unnur Líndal ON og Þórhallur Örn Guðlaugsson Háskóli Íslands.

Nýkjörin stjórn faghóps um verkefnastjórnun

Yfir þrjátíu áhugaverðir aðilar sýndu áhuga á að setjast í stjórn faghóps um verkefnastjórnun, allt afburðarfólk. Úr vöndu var að ráða við að móta stjórn hópsins. Úr varð fjórtán manna stjórn, sem endurspeglar vel fjölbreytileika þeirra sem áhuga sýndu. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var á Kringlukránni í dag þar sem félagar kynntu sig og farið var yfir ábyrgð og hlutverk stjórna faghópa Stjórnvísi. Þar sem helmingur stjórnar var staddur erlendis stefnir stjórnin á að hittast aftur í júní til að móta hugsanlegar áherslur hópsins. Stjórnin kaus Gísla Rafn Guðmundsson sem formann og Aðalstein Ingólfsson sem varaformann.   Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig í faghópinn með því að smella hér.  

Stjórn faghópsins skipa:  Aðalsteinn Ingólfsson MT Sport, Auður Íris Ólafsdóttir Hagar, Daníel Sigurbjörnsson Efla, Eygerður Margrétardóttir Ríkislögreglustjóri, Gísli Rafn Guðmundsson Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir, Halldóra Traustadóttir Reykjavíkurborg, Hannes Bjarnason Sjúkrahúsið á Akureyri, Íris Elma Guðmann Dómstólasýslan, Lísbet Hannesdóttir Háskólinn á Akureyri, Signý Jóna Hreinsdóttir Landspítali, Sigurður Blöndal Háskólinn á Bifröst, Steinunn Anna Eiríksdóttir Háskóli Íslands, Þóra Kristín Sigurðardóttir Eimskip og Unnur Helga Kristjánsdóttir Strategia. 

 

Aðalfundur Öryggishópur Stjórnvísi - ný stjórn kosin

Fundur haldinn:  4 júní 2025

Aðilar: Vilborg Magnúsdóttir Isavia Innanlands, Lilja Birgisdóttir Marel, Viðar Arason HS Orka, Snorri Páll Davíðsson Háskóli Íslands, Eggert Jóhann Árnason Bætt Öryggi, Erlingur E. Jónasson LSE og Fjóla Guðjónsdóttir Isavia Ohf sem jafnframt ritaði fundargerð.
Gísli Níls Einarsson og Eyþór Víðisson boðuðu forföll.

Dagskrá:

  1. Yfirferð síðasta starfstímabils
  2. Kosning í stjórn og formanns
  3. Drög að viðburðum næsta starfstímabils
  4. Önnur mál

Yfirferð síðasta starfstímabils

Nokkur lægð var í starfsemi hópsins á tímabilinu september 2024 til maí 2025. Þrátt fyrir að drög hefðu verið lögð að viðburðum tímabilsins og margar góðar hugmyndir komu fram til að efla og fjalla um öryggismá á víðum grunni þá raungerðust þær ekki.

Eini viðburðurinn var haldinn í  júní í samstarfi við Öryggishóp Samorku og bar yfirsögnina Orka og Öryggi. Þar var fjallað um helstu áskoranir þeirra starfsvettvangur á við að etja og leiðir sem og aðferðir sem þeir hafa tekið upp. Virkilega áhugavert og verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi vinnu.

Hópurinn var sammála um að efling öryggisumræðu væri mikilvæg og þessi vettvangur gæti lagt mikið til. Áríðandi að allir í stjórn séu virkir og taki frumkvæði að því að koma með hugmyndir og setja upp viðburði.

Kosning í stjórn og formanns

Auglýst hafði verið eftir aðilum í stjórn þar sem tveir aðilar hafa hætt á tímabilinu.

Viðbót í stjórn: Viðar Arason HS Orka, Snorri Páll Davíðsson Háskóli Íslands og Eggert Jóhann Árnason Bætt Öryggi hafa því bæst við í stjórn Öryggishóps Stjórnvísi.

Formaður: Fjóla Guðjónsdóttir bauð sig fram til formanns til aðalfundar 2026. Engin mótframboð voru og því framboð samþykkt.

Samsetning stjórnar 2025-2026 er því eftirfarandi:

Vilborg Magnúsdóttir Isavia Innanlands, Lilja Birgisdóttir Marel, Viðar Arason HS Orka, Snorri Páll Davíðsson Háskóli Íslands, Eggert Jóhann Árnason Bætt Öryggi, Erlingur E. Jónasson LSE, Fjóla Guðjónsdóttir Isavia Ohf. Gísli Níls Einarsson Öryggisstjórnun/Alda Öryggi og Eyþór Víðisson Reykjavíkurborg.

Formaður sendir fundarseríu á stjórn fyrir starfstímabil.

Drög að viðburðum næsta starfstímabils

Margar góðar hugmyndir komu fram og stjórnin einhuga um að bjóða upp á fræðandi og flotta dagskrá.

Drög að dagskrá vetrarins:

  1. Öryggi og LEAN á það samleið og eykur LEAN öryggi
    1. Ábyrgð Lilja, september 2025
    2. Hvað er Bætt Öryggi og hvernig vinnur fyrirtækið til að auka öryggi
      1. Ábyrgð Eggert, nóvember 2025
      2. Hvernig eru og fyrir hvað standa Gullnu Reglurnar
        1. Ábyrgð Viðar, október 2025 eða janúar 2026
        2. Vinna í opnu rými, hefur það áhrif á heilsu?
          1. Ábyrgð Vilborg haldið í samvinnu við Vinnís
          2. Tæknin og öryggi, hvernig vinnur Tesla að bættu öryggi með tækni
            1. Ábyrgð Lilja (Fjóla) tími ekki ákveðinn

Önnur mál
Vilborg sagði frá alþjóðlegri ráðstefnu um atferlismiðaða hegðun sem haldin verður þann 9 og 10 október 2025.

 

Aðalfundur faghóps um stjórnun upplýsingaöryggis

Þann 21.maí var haldinn aðalfundur faghóps um stjórnun upplýsingaöryggis. 

Farið var yfir þá viðburði sem haldnir voru á starfsárinu sem var að líða. Rætt var um markmið og tilgang hópsins, hver sé markhópur þeirra kynninga sem hópurinn stendur fyrir og hvort að tækifæri séu til að gera betur. Þessi mál verða rædd nánar á komandi starfsári en hópurinn var sammála um að mörg tækifæri eru fyrir hópa eins og þennan. 

Kosning stjórnar fór fram þar sem Jón Kristinn Ragnarsson var endurkjörinn sem formaður hópsins. Auk hans gáfu Benedikt Rúnarsson, Friðbjörn Steinar Ottósson, Sigurður Bjarnason og Tryggvi Níelsson aftur kost á sér. Hrefna Gunnarsdóttir bættist við hópinn eftir áramót og bauð einnig kost á sér. Auk þeirra voru ný framboð, Auður Íris Ólafsdóttir og Gná Guðjónsdóttir buðu kost á sér í hópinn og eru þær boðnar velkomnar. Fyrirkomulag hópsins er að fjöldi og fjölbreytileiki stjórnar er mikill kostur og þess vegna eru öll boðin velkomin að taka þátt í þessari vinnu. 

Faghópurinn fer nú í sumarfrí en mun hefja skipulagsvinnu að sumri loknu. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?