Við höfum fengið Guðrúnu Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs til að fjalla um þær áskoranir sem skapandi greinar standa frammi fyrir varðandi nýtingu höfundaréttarvarðra verka til þjálfunar gervigreindar.
Guðrún Björk hefur bent á að „rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur af tekjum tónhöfunda gæti horfið með tilkomu gervigreindar.“ Áhugavert verður að heyra af stefnumiðum samtakanna til að takast á við þessa þróun, en STEF hefur starfað náið með norrænum höfundaréttarsamtökum og sett fram stefnu til framtíðar hvað varðar leyfisveitingar vegna spunagreindar.
Þær spurningar sem leitast verður við að svara eru m.a.:
- Er þjálfun gervigreindar með höfundaréttarvörðum verkum brot á höfundarétti?
- Hvaða áhrif hafa ákvæði tilskipunar ESB sem mælir fyrir um að rétthafar verði að kjósa að standa utan ("opt-out") þjálfunar gervigreindar annars sé slík þjálfun heimil án samþykkis.
- Hvað verður um þau verk sem gervigreindin skapar? Eru þau höfundaréttarvarin? Hvað með verk sem eru að hluta til sköpuð af gervigreind?
- Hverjar eru skyldur fyrirtækja sem síðan nýta sér verk sköpuð af gervigreind í sínum rekstri?
Fundurinn verður einungis á streymi, föstudaginn 31. október kl. 9:00 -10:00.
Guðrún Björk Bjarnadóttir er framkvæmdastjóri STEFs. STEF eru innheimtusamtök tón- og textahöfunda á Íslandi. Guðrún Björk er hæstaréttarlögmaður með cand.jur gráðu frá Háskóla Íslands og viðbótar mastersgráðu í Evrópurétti frá Stokkhólmsháskóla svo og gráðu á meistarastigi í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
Guðrún Björk á að baki farsælan feril sem lögmaður hjá LOGOS lögmannsþjónustu og Samtökum atvinnulífsins áður en hún hóf störf hjá STEFi. Guðrún Björk hefur einnig sinnt kennslu í lögfræði bæði við Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur og haldið fjölda erinda og fyrirlestra hjá ýmsum aðilum, hin síðustu ár aðallega á sviði höfundaréttar. Guðrún Björk situr í stjórn NCB (Nordisk Copyright Bureau) sem annast hagsmunagæslu fyrir höfunda á Norðurlöndunum vegna hljóðsetningar og eintakagerðar verka þeirra og í stjórn Tónlistarmiðstöðvar.