Jafnréttisstefna Stjórnvísi og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi

Stjórnvísi leggur áherslu á að skapa öllu félagsfólki umhverfi þar sem samskipti einkennast af gagnkvæmri virðingu og fólki er ekki mismunað á grundvelli kyneinkenna, kynvitundar, kyntjáningar, kynhneigðar, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs eða annarra þátta. Við ákvarðanatöku og stefnumótun félagsins skal ávallt gætt að jafnréttissjónarmiðum og athugað hvaða áhrif ákvörðun hefur á mismunandi hópa svo sem konur, karla og þau sem ekki falla að kynjatvíhyggjunni. 

Í starfsemi félagsins skal unnið gegn hefðbundnum kynjaímyndum sem og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla. 

Hegðun á borð við kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni er ekki liðin á vegum félagsins , á viðburðum eða í tengslum við aðra starfsemi, og skuldbindur félagið sig til þess að bregðast við ef slík atvik koma upp. Jafnréttisstefna þessi inniheldur því einnig viðbragðsáætlun gegn kynferðislegu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni.

Stjórnvísi miðar að því að gæta fyllsta jafnréttis við ráðningu í nýtt starf og að val á starfsfólki sé óháð kyni. Við stjórnarskipti í stjórn Stjórnvísi og stjórnum faghópanna  skal gæta jafnréttis- og margbreytileika sjónarmiðum. Auglýst stjórnarsæti skulu standa öllum kynjum opin til umsóknar. Í auglýsingum sé hvatning til einstaklinga óháð staðsetningu, starfsstöðu, stærð- og tegund fyrirtækis, aldurs, kyn, uppruna til að sækja um.  

Stefna skal að því að starf í stjórnum faghópa skal vera aðgengilegt fyrir einstaklinga óháð íslensku eftir fremsta megni. 

Huga skal að því fyrir skipulag á viðburðum að aðgengi sé að húsnæðinu. Gera skal grein fyrir aðgengi í lýsingum á viðburðum. 

Jafnréttisstefna Stjórnvísi er unnin í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög nr. 85/2018 um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

Viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi

Stjórnvísi líður ekki kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni, mismunun eða fordóma af nokkru tagi. Komi upp aðstæður á vegum félagsins sem lýsa má með ofangreindum hætti skal haft samband við framkvæmdastjóra, aðila í stjórn félagsins eða formann viðeigandi faghóps. Unnið er með sérhvert tilfelli og hlutaðeigandi aðilar studdir til að leysa málin. Þyki ástæða til eru utanaðkomandi sérfræðingar fengnir til aðstoðar. 

Faghópur um mannauðsstjórnun er hvattur til að miðla þekkingu er snýr að málaflokknum.

Stefna og viðbragðsáætlun þessi er sett fram til að fyrirbyggja og bregðast við aðstæðum þar sem einstaklingur eða hópur telur sig verða fyrir einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi í starfsemi á vegum Stjórnvísi. 

Stjórn og félagsfólk Stjórnvísi skal vera upplýst um viðbragðsáætlun gegn kynferðislegu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni með reglubundnum hætti.

SKILGREININGAR

Þegar fjallað er um einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi þá er stuðst við eftirfarandi skilgreiningar. Þessar skilgreiningar eru í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015 um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. 

EINELTI

Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

KYNFERÐISLEG ÁREITNI

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

KYNBUNDIN ÁREITNI

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

OFBELDI

Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáningar þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis. 

GILDISSVIÐ

Stefna og viðbragðsáætlun nær yfir stjórn og allt félagsfólk Stjórnvísi og aðra sem kunna að mæta á viðburði á vegum félagsins. Stuðst verður við áætlunina í öllum þeim tilvikum sem tilkynning um einelti, hvers konar áreitni eða ofbeldi berst til framkvæmdastjóra eða annarra aðila sem nefndir eru hér fyrir neðan. Í sambandi við hvers kyns ofbeldi sem berst til framkvæmdastjóra eða annarra aðila skal sýna þolanda fullan trúnað meðan og eftir að úrvinnsla málsins hefur verið lokið. 

FORVARNIR OG FYRIRBYGGJANDI AÐGERÐIR 

Það er hlutverk alls félagsfólks að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vettvangi félagsins. Stefna og viðbragðsáætlun þessi skal vera aðgengileg á vef félagsins og skal hún reglulega vera kynnt fyrir stjórn og félagsfólki. Félagsfólk Stjórnvísi skulu virða stefnu þessa, vera meðvituð um hegðun sína og stuðla að því að tekið sé á allri óhlýtlegri háttsemi sem og öðrum ágreiningsmálum. Stjórn Stjórnvísi skal ganga á undan með góðu fordæmi og sýna öllu félagsfólki tillitssemi, virðingu og umburðarlyndi, stuðla að góðum starfsanda og taka á ágreiningsmálum. 

VIÐBRAGÐSÁÆTLUN

Verklag vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og annars ofbeldis. 

TILKYNNING 

Mikilvægt er að félagsfólk láti vita ef upp koma neikvæð og erfið samskipti sem það treystir sér ekki sjálft til að leysa. 

Einstaklingur sem verður fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða verður vitni að slíkri hegðun í tengslum við starfsemi á vegum Stjórnvísi skal tilkynna atvikið til framkvæmdastjóra, aðila í stjórn félagsins eða formanns viðeigandi faghóps og munu þau bregðast við samkvæmt eftirfarandi viðbragðsáætlun. Ef um alvarlegt ofbeldi er að ræða skal tilkynna það til lögreglu.

Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta. Miðað er við að úrvinnsla máls hefjist strax um leið og tilkynning berst. Mikilvægt er að ekki líði langur tími frá atviki/atvikum þar til tilkynningu er komið á framfæri. 

ÓFORMLEG MÁLSMEÐFERÐ

Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og geranda og þeim veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Annað fólk innan félagsins er ekki upplýst um málið. Þolandi og gerandi skulu njóta aðstoðar framkvæmdastjóra eða annarra viðeigandi aðila til að leysa málið. Gangi það ekki eftir er þolandi hvattur til að nýta sér formlega málsmeðferð. Mikilvægt er að báðir aðilar skrái hjá sér öll óformleg samskipti og gögn sem fara á milli á þessu stigi málsins komi til formlegrar málsmeðferðar.

Eftirfylgni í óformlegri málsmeðferð

Tryggja skal að báðir málsaðilar fái sömu meðferð í alla staði. Báðir aðilar verða boðaðir í eftirfylgdarviðtöl þar sem farið er yfir árangur/breytingar á málinu. Æskilegt er að málsaðilar séu boðaðir á fund eftir 2 vikur til að fylgja málinu eftir. Sá sem hafði yfirumsjón með úrlausn málsins er ábyrg/ur fyrir eftirfylgdinni.

FORMLEG MÁLSMEÐFERÐ

Framkvæmdastjóri Stjórnvísi ber ábyrgð á framkvæmd formlegrar málsmeðferðar. Heimilt er að leita til utanaðkomandi sérhæfðra aðila eða ráðgjafa til að stýra málsmeðferðinni fyrir hönd Stjórnvísi. Fundin verður lausn sem m.a. getur falist í breytingum á vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Fylgst verður með samskiptum aðila málsins.

Eftirfarandi skref skulu vera leiðbeinandi í úrlausn mála vegna eineltis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni eða ofbeldi sem koma upp hjá Stjórnvísi.

Aðilinn sem stýrir rannsókninni skal tilkynna þolanda og geranda að rannsókn fari fram og tryggja að hlutaðeigandi aðilar séu upplýstir um ferlið. Einnig skal gera grein fyrir hvert hlutverk þeirra getur verið á seinni stigum málsins.

Aðilinn sem stýrir rannsókninni skal athuga hvort æskilegt sé að vísa gerenda og þolanda frá starfi félagsins tímabundið á meðan rannsókn stendur. Þetta getur minnkað álag á viðkomandi einstaklinga og komið í veg fyrir frekari uppákomur á meðan rannsókn stendur. 

Aðilinn sem rannsakar málið skal hitta þolanda og gefa honum kost á að gefa út yfirlýsingu um málið. Þolandi hefur rétt á að hafa trúnaðarmann með sér í viðtali sér til stuðnings. Þá skal gefa þolanda færi á að benda á vitni sem rannsakandi kallar svo til.

Aðilinn sem rannsakar málið skal hitta meintan geranda, eftir að hann hefur verið upplýstur um að málið sé í rannsókn. Þar skal viðkomandi aðili fá tækifæri til að útskýra sína hegðun og koma á framfæri sinni skoðun á kvörtuninni. Gerandinn hefur rétt á því að hafa trúnaðarmann með sér í viðtalinu sér til stuðnings. Þá skal gefa meintum geranda færi á því að benda á vitni sem rannsakandi kallar svo til.

Aðilinn sem rannsakar málið getur kallað til vitni. Vitni hafa rétt á að hafa trúnaðarmann sér til stuðnings í viðtalinu.

Rannsakandi getur kallað aftur til alla einstaklinga sem tengjast málinu til að afla sér frekari upplýsinga.

Farið er yfir gögnin og ákvörðun tekin um hvort einelti/kynferðislega áreitni sé að ræða.

AÐGERÐIR

Ef niðurstaðan er að um samskiptavanda sé að ræða en ekki einelti, áreitni eða ofbeldi í skilningu stefnu þessarar:

  • Greiða úr samskiptum. 
  • Gefa skýr skilaboð um samskipti. 
  • Eftirlit og eftirfylgni.

Ef talið er að um einelti, áreitni eða ofbeldi sé að ræða í skilningi stefnu þessarar:

  • Fá aðstoð utanaðkomandi fagaðila.
  • Meta afleiðingar fyrir geranda. 
  • Úrsögn. Geranda getur verið sagt úr starfi félagsins allt eftir mati á alvarleika málsins.
  • Ákvörðun um hvernig er tekið á máli ef gerandi tekur áfram þátt í starfi félagsins til að koma í veg fyrir frekari atvik. 

Þegar litið er svo á að máli sé lokið skal upplýsa hlutaðeigandi.

Eftirfylgni í formlegri málsmeðferð

Tryggja skal að báðir málsaðilar fái sömu meðferð í alla staði. Báðir aðilar verða boðaðir í eftirfylgdarviðtöl þar sem farið er yfir árangur/breytingar á málinu. Æskilegt er að málsaðilar séu boðaðir á fund eftir 2, 4 og 8 vikur til að fylgja málinu eftir. Framkvæmdastjóri Stjórnvísi er ábyrgur fyrir þeirri eftirfylgd.

Allar upplýsingar sem aflað er í tengslum við rannsókn og aðgerðir máls eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og verða skrifleg gögn varðveitt á öruggum stað á ábyrgð félagsins í samræmi við lög um persónuvernd. Hlutaðeigandi aðilum er veittur aðgangur að gögnum eftir því sem þau óska og lög um persónuvernd heimila.

Samþykkt af stjórn stjórnvísi þann ???   2023

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?