Gervigreind og stefnumótun - “Frá óvissu til árangurs - Skýr hugsun og listin að taka betri ákvarðanir”
Fundurinn er haldinn í Innovation House á Eiðistorgi Seltjarnarnesi. Gengið er inn á Eiðistorg - upp á 2.hæð - beint á móti Bókasafni Seltjarnarness er hurð og þar er gengið upp á 3.hæð inn í Innovation House. Hindranir í vegi aukins árangurs og betri ákvarðana liggja nánast undantekningarlaust í huga okkar, hvort sem um er að ræða rangar og oft ómeðvitaðar forsendur, gallaða mælikvarða, sálrænar hömlur eða skaðlegar reglur eða ferla. Til að brjótast út úr stöðnuðu umhverfi er nauðsynlegt að finna og uppræta þessar hindranir. Eitthvert öflugasta tólið til þess er röklegt umbótaferli (Logical Thinking Process) og með tilkomu gervigreindarinnar er notkun þess nú aðgengileg langtum fleirum en áður.
Á fundinum fjallar Þorsteinn Siglaugsson um röklegt umbótaferli og les valda kafla úr bók sinni „Frá óvissu til árangurs: Skýr hugsun og listin að taka betri ákvarðanir“ sem er nýkomin út á vegum Mjaldurs útgáfu. Þorsteinn er vottaður sérfræðingur í röklegu umbótaferli og hefur um árabil starfað við ráðgjöf og þjálfun stjórnenda og sérfræðinga í aðferðafræðinni, sem á rætur að rekja til Dr. Eliyahu M. Goldratt höfundar metsölubókarinnar „The Goal“ sem haft hefur mikil áhrif á stjórnun fyrirtækja allt frá því á níunda áratug síðustu aldar.
Röklegt umbótaferli er kerfismiðuð aðferð til að taka vandaðar ákvarðanir og greina og leysa erfið og viðvarandi vandamál innan fyrirtækja og stofnana með skýra röklega hugsun að vopni.
Þessi bók er að miklu leyti byggð á fyrri bók Þorsteins, „From Symptoms to Causes – Applying the Logical Thinking Process to an Everyday Problem“ sem kom út árið 2020. Um þá bók segir Jón Torfi Jónasson prófessor emeritus við H.Í.: „Ritið vísar stjórnendum til skynsamlegra lausna í glímu við vandamál sem í fyrstu virðast ill-leysanleg. Þorsteinn lýsir vel öguðu þrepskiptu verkferli röklegrar greiningar sem dregur fram eðli vandans hverju sinni. Góð tengsl við raunhæf dæmi í megintexta og viðauka gagnast lesanda í stjórnunarstarfi afar vel. Nálgun Þorsteins er bæði frumleg og skýr og jafnframt raunhæf og spennandi.“
Í bókinni rekur Þorsteinn ýmis dæmi um beitingu röklegs umbótaferlis og síðasti hluti bókarinnar er helgaður gervigreindinni og því hvernig beita má henni til að hraða og bæta ákvarðanatöku.
Fundarstjóri er Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi.
Um staðfund er að ræða. Ekki verður streymt frá fundinum.