Smelltu hér til að bóka þig á viðburðinn.
Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á íslenskt samfélag, hagkerfi og virðiskeðjur. Á þessum sameiginlega viðburði Festu og Stjórnvísi skoðum við hvernig slíkar breytingar geta haft áhrif á rekstur, hvernig við getum beitt ímyndunarafli í áhættustýringu og hversu vel fyrirtæki og opinberir aðilar eru undirbúin fyrir vaxandi loftslagsáhættu. Fundurinn er rafrænn og fer fram þann 16. desember kl 13:00 - 14:00.
Dagskrá:
- Dr. Anna Hulda Ólafsdóttir, sérfræðingur í loftslagsaðlögun hjá Veðurstofu Íslands, segir okkur frá mögulegum afleiðingum loftslagsbreytinga á Íslandi.
- Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku, fer yfir ráð gegn óhugsandi áhættu.
- Dr. Mikael Allan Mikaelsson, sérfræðingur á sviði loftslagsstefnumótunar hjá Stockholm Environment Institute, mun fjalla um hvernig loftslagsbreytingar eru að endurmóta áhættulandslag íslenskra fyrirtækja og hagkerfisins í heild ásamt því að kynna nýtt framtak á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.
Að loknum erindum verður opið fyrir umræður. Þátttakendur eru hvattir til að íhuga eftirfarandi spurningar fyrir fundinn:
- Hefur íslenskt atvinnulíf þegar orðið fyrir áhrifum af truflunum í hnattrænum virðiskeðjum?
- Hversu meðvituð og vel undirbúin eru íslensk fyrirtæki fyrir loftslagstengdar truflanir í virðiskeðjum?
- Hvernig er hægt að nýta samstarf hins opinbera og einkageirans til að styrkja efnahagslegt öryggi á tímum vaxandi loftslagsáhrifa?
Verkefnið sem Dr. Mikael kynnir er nýtt framtak á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem norrænar rannsóknarstofnanir — þar á meðal Stockholm Environment Institute — kanna hvernig auka megi loftslagsþol efnahagskerfisins með öflugu samstarfi opinberra aðila og atvinnulífsins. Verkefnið beinir sjónum að því hvar slíkt samstarf er nauðsynlegt til að vernda mikilvægar virðiskeðjur fyrir norrænt samfélag.
Í framhaldi af þessu verða haldnir geirasértækir hringborðsfundir snemma árs 2026, þar sem fyrirtæki víðsvegar af Norðurlöndum verða boðuð til þátttöku. Þar koma saman leiðtogar fyrirtækja og opinberra aðila til að móta hagnýtar lausnir til að draga úr loftslagsdrifnum röskunum.