Fundarboð með Teams hlekk verður sent á skráða þátttakendur.
Á flestum vinnustöðum er „dulda verksmiðjan“ til staðar – öll þau ferli, endurtekningar og falin vinna sem bæta litlu sem engu virði við vinnudaginn okkar. Þessi viðburður gefur innsýn í hvernig við getum auðkennt verkin sem tilheyra þessari duldu verksmiðju sem er í formi sóunar og rætt áskoranir og vandamál sem hún skapar. Kynntar verða leiðir til að auðkenna og draga úr sóun og skapa jákvætt umbótaumhverfi þar einblínt er á virðisaukandi þætti með því að ná yfirsýn yfir verklagið ásamt því að starfa í réttum takti (flæði) sem hentar starfsmönnum og um leið mætir kröfum viðskiptavinarins.
Fyrirlesarinn – Magnús Ívar Guðfinnsson
Magnús Ívar Guðfinnsson er stofnandi og framkvæmdastjóri ráðgjafar- og þekkingarfyrirtækisins ANSA ehf. Magnús Ívar hefur sérhæft sig í að vinna með fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum í að ná yfirsýn og gera athuganir á verklaginu til að ná bættum árangri i rekstrinum. Samfara ráðgjöf þá kennir hann nemendum í iðnarverkfræði við Háskóla Íslands gæðastjórnun á haustin og straumlínustjórnun á vorönn. Þá kennir Magnús Ívar áfangann árangur í rekstri í Executive MBA-námi á vegum Háskóla Íslands.
Magnús er með MSc. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og stundaði hluta námsins við Norwegian School of Management (BI) í Osló. Hann er vottaður BPM Professional og er með svarta beltið í Lean Six Sigma.
Magnús Ívar býr að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu, úr kennslu og ráðgjöf hjá fyrirtækjum úr flestum greinum atvinnulífsins við að ná framúrskarandi árangri í framleiðslu og þjónustu.