12
nóv.
2025
12. nóv. 2025
08:30 - 09:30
/
Á netinu
Umhverfissálfræði, samsköpun og skipulag borga og bæja.
Join the meeting now
Tækniframfarir munu breyta eðli starfa framtíða og hversu miklum tíma er varið á vinnustöðum. Þessar breytingar munu hafa áhrif á samsetningu og íbúafjölda í sveitarfélögum um land allt og kalla óneitanlega á endurskoðun á vægi samfélagsrýma. Hvernig hönnum við innviði og almenningsrými í sveitarfélögum sem stuðla að velsæld og efla tengsl milli íbúa til framtíðar?
Dögg Sigmarsdóttir og Páll Líndal kynna á fjarfundi ólíkar útfærslur á þróun samfélagsrýma framtíða sem ýta undir mannvænt og vistvænt samfélag í virku samráði við íbúa.
Dögg Sigmarsdóttir, sérfræðingur í sköpun samfélagsrýma, kynnir hugmyndir borgarbúa frá Framtíðarfestivali Borgarbókasafnsins um mögulega nýtingu almenningsrýma eins og bókasafna eftir 100 ár og hvernig slík samfélagsrými gætu komið í veg fyrir að tengslarof, ójöfnuður og vistkreppa samtímans fylgi okkur inn í framtíðina.
Páll Líndal, umhverfissálfræðingur, kynnir nýja nálgun í skipulagi fyrir þéttbýlið Árnes í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem gagnvirkt þrívíddarlíkan af þéttbýlinu er þróað í tölvuleikjaumhverfi sem m.a. býður upp á kraftmikla upplifun í sýndarveruleika, og gerir hagaðilum kleift að skoða og meta skipulagið á aðgengilegan og sannfærandi hátt. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldi núverandi þéttbýliskjarna sem telur um nú 60 manns ríflega tífaldist á næstu árum og áratugum. Frá upphafi hefur sveitarstjórn lagt áherslu á að skipulagið byggi á umhverfissálfræðilegum áherslum, með það að markmiði að skapa mannvænt umhverfi og samheldið samfélag. Verkefnið markar nýja nálgun í skipulagsvinnu þar sem samþætt er vísindaleg þekking úr umhverfissálfræði, hönnun og skipulagsgerð, auk virks samráðs við íbúa. Með þessu er lagður grunnur að sjálfbærum þéttbýliskjarna í íslensku dreifbýli.
Páll Jakob Líndal er með doktorspróf í umhverfissálfræði frá Háskólanum í Sydney og rekur ráðgjafar-og rannsóknarfyrirtækið ENVALYS þar sem umhverfissálfræði, skipulagi og hönnun er tvinnað saman með hjálp þrívíddar- og sýndarveruleikatækni. Þá er Páll forstöðumaður viðbótarnáms á meistarastigi í umhverfissálfræði við Háskólann í Reykjavík auk þess að vera fyrirlesari og markþjálfi.
Dögg Sigmarsdóttir er verkefnastjóri sem lokið hefur APME í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er með meistaragráðu í Political and Economic Philosophy frá Universität Bern (Sviss) og hefur einnig lokið diplómanámi í alþjóða- og evrópurétti frá sama háskóla. Hún hefur stýrt fjölmörgum verkefnum sem snúa að mótun samfélagsrýma og eflingu borgaralegrar þátttöku í þágu inngildingar, velsældar og félagslegrar sjálfbærni.