Náma hjá Endurmenntun Háskóla Íslands Dunhagi 7, Reykjavík
Leiðtogafærni,
Alþjóðlegi mistakadagurinn (International Day for Failure) er haldinn hátíðlegur ár hvert þann 13. október. Hann á rætur að rekja til Finnlands árið 2010 – þar sem hlutirnir ganga yfirleitt það vel að Finnar þurftu beinlínis að finna upp mistök til að geta rætt þau opinberlega. Markmiðið? Að hætta að skammast sín og fagna mistökum með húmor, heilbrigðri sjálfsgagnrýni og örlitilli skömm.
Mistakadagurinn snýst ekki bara um að hlæja að sjálfum sér (þó það hjálpi). Hann minnir okkur líka á að mistök eru ómissandi hluti af þroska, sköpun og framförum. Stundum þarf að ganga á einn eða marga veggi áður en maður finnur hurðina.
Ef þú hefur einhvern tímann:
- farið út að morgni í sitt hvorum skónum
- ruglað saman Zoom og Teams og mætt í vitlaust fundarherbergi, á náttfötunum og með myndavélina á
- sett hjarta á póst sem auðvelt hefði verið að misskilja
- sent tölvupóst á alla starfsmenn með viðhengi sem átti alls ekki að fara út
- átt djúpt og innihaldsríkt samtal innra með þér og haldið svo áfram upphátt fyrir framan saklausan vegfaranda sem nú heldur að þú sért annaðhvort andlega djúphugsandi eða eigir við vandamál að stríða
- sagt eitthvað gáfulegt sem engum öðrum fannst vera gáfulegt.
- tekið ákvörðun sem þú leiðréttir ekki fyrr en klukkutíma, ári eða hjónabandi síðar
- skammað einhvern með tilþrifum sem átti enga sök, en þér bara fannst það…
…þá er þessi fyrirlestur fyrir þig. Eða öllu heldur: fyrir okkur öll. Við erum öll meðlimir í klúðurklúbbnum – sum okkar jafnvel með ársáskrift eða stimpilkort.
Fyrirlesarinn, Ingrid Kuhlman, er leiðbeinandi og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun. Hún lauk MSc-námi í hagnýtri jákvæðri sálfræði (MAPP) frá Bucks New University árið 2018 og hefur síðan þá verið óþreytandi í að hjálpa fólki að blómstra – jafnvel á mánudögum fyrir hádegi. Ingrid trúir því staðfastlega að mistök séu ekki endapunktur heldur byrjun á einhverju merkilegu – eða að minnsta kosti góðri sögu.
Þá mun Virpi Haavisto ávarpa okkur við upphaf viðburðarins. Hún er virtur stjórnandi, stofnandi Creative Leaders Forum og annast m.a. leiðtogaþjálfun við Aalto háskólann í Helsinki.