29
okt.
2025
29. okt. 2025
09:00 - 10:30
Það að verða stjórnandi í fyrsta sinn eru ákveðin tímamót og margt getur komið á óvart. Nýtt hlutverk, nýjar væntingar og ný ábyrgð geta vakið eftirvæntingu, tilhlökkun, efa og óöryggi.
Nú er það í þínum verkahring að leiða fólk, taka ákvarðanir, hafa yfirsýn og halda utan um bæði verkefni, fólk og samskipti. Á sama tíma ert þú að læra hvað felst í þessu nýja hlutverki og hvernig þú átt að fóta þig í því. Í raun er hlutverk nýrra stjórnenda fullt af mótsögnum: þú átt að vera leiðtogi en ert sjálf/ur að læra. Þú átt að vera styðjandi en þarft sjálf/ur stuðning. Þú átt að halda ró þinni en finnur kannski fyrir ótta og efa.
Þessi vegferð getur verið ótrúlega krefjandi. Þér er treyst fyrir hlutverki, verkefnum og ábyrgð og færð tækifæri til að þróast og vaxa í starfi, en þér er ekki endilega kennt hvað stjórnendahlutverkið felur í sér og hvernig best er að nálgast það.
Í þessu erindi munum við fjalla um og skoða hvað það raunverulega þýðir að stíga inn í stjórnendahlutverk í fyrsta sinn og hvernig við getum tekist á við þær áskoranir og þau tækifæri sem hlutverkið felur í sér af festu, styrk, alúð og mildi.
Helgi Guðmundsson hefur ástríðu fyrir hjálpa stjórnendum og vinnustöðum að skapa umgjörð og menningu þar sem fólk og teymi geta þrifist og mætt til leiks með sitt besta. Helgi er fyrirtækjaþjálfi með bakgrunn í vinnu- og fyrirtækjasálfræði með mikla reynslu af agile- og lean nálgunum á stjórnun, þróun öflugra teyma og vöruþróun.
Lella Erludóttir elskar að gera vinnustaði mannlegri og styðja við fólk að lokka fram sitt sannasta og besta sjálf í starfi. Lella er PCC markþjálfi og hefur fjölbreyttan bakgrunn og reynslu frá markaðsmálum, mannauðsstjórn, strategíustarfi og að styðja við leiðtoga og stjórnendur í viðskiptalífinu.