Ánægja starfsmanna: Það er gott að gefa af sér.
Því er jafnan haldið fram, að þátttaka fyrirtækja í samfélagslegum verkefnum sé jákvæð fyrir ímynd fyrirtækisins. Minna hefur verið rætt og ritað um þá ánægju sem starfsmenn fyrirtækja fá af því að leggja sitt af mörkum, en víða eru vísbendingar um að hún sé umtalsverð og bæti vinnuandann á hverjum stað.
Vodafone í Bretlandi hefur um nokkurra ára skeið stutt sitt starfsfólk til að vinna að góðgerðarmáli að eigin vali. Reynslan af því er afar góð, því ánægja starfsfólks hefur mælst hærri í kjölfarið og hollusta við fyrirtækið hefur aukist.
Hér á landi hefur Vodafone um árabil tekið þátt í Degi rauða nefsins, fjáröflunarverkefni UNICEF á Íslandi. Auk þess að annast tæknilega framkvæmd verja starfsmenn Vodafone hundruðum klukkustunda í undirbúning og vinnu við símsvörun á deginum sjálfum. Þegar samstarf Vodafone og UNICEF hófst þurfti fyrirtækið að meta hvort kostnaðurinn og álagið sem fylgir verkefninu væri fyrirhafnarinnar virði. Eftir nokkurra ára samstarf er niðurstaðan afdráttarlaus - það er gott að gefa af sér og starfsfólk hefur mikinn áhuga á að taka þátt. Þannig eru þeir jafnan fljótir að skrá sig til þátttöku sem hafa áður tekið þátt og gildir þá einu hvort vinnuálag á viðkomandi hafi verið mikið eður ei. Við erum stolt af því að taka þátt, bæði sem einstaklingar og heild.
Í mannauðsfræðunum er rík áhersla lögð á mikilvægi þess að ráðningar, fræðsla, starfsþróun, starfslok og annað styðji við viðskiptastefnu hvers fyrirtækis. Minni áhersla hefur hins vegar verið á ýmsa innri þætti í rekstrinum, t.d. viðburðarstýringu, markaðssetningu innan fyrirtækjanna sjálfra á innri þjónustu, vörum og ólíkum hlutverkum í stórri heild. Reynsla okkar af því að reyna að samþætta innri og ytri markaðssetningu er ekki aðeins jákvæð, heldur gegnir slík samþætting lykilhlutverki í því að auka ánægju starfsmanna.
Sonja M. Scott
Starfsmannastjóri Vodafone