Myndir af hátíðinni. Samkvæmt hlutafélagalögum skulu vald og ábyrgð innan fyrirtækja skiptast í þrjá meginþætti, hluthafafund, stjórn og framkvæmdastjóra. Vald og áhrif hluthafa takmarkast við hluthafafundi en stjórnir félaga sækja umboð sitt til fundanna og fara með stjórn félaganna á milli fundanna. Það er síðan á ábyrgð stjórna félaganna að ráða framkvæmdastjóra (einn eða fleiri) og kalla til ábyrgðar varðandi rekstur þeirra. Framkvæmdastjórar bera síðan ábyrgð á daglegum rekstri félaganna í samræmi við stefnur og fyrirmæli stjórna þeirra.
Góðir stjórnarhættir snúast öðru fremur um að skipting valds og ábyrgðar sé með þeim hætti sem þrískipting hlutafélagaformsins gerir ráð fyrir, skýr mörk séu á milli vald- og ábyrgðarsviðs hvers þáttar og að aðilar hlutist ekki til um málefni sem eru á forræði annars aðila.
Fylgni við góða og ábyrga stjórnarhætti er talin styrkja innviði félaga og efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu.
„Mikilvægt er að hvetja til góðra stjórnarhátta á Íslandi. Verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum hefur sannað sig sem áhrifaríkt tæki í þeirri vegferð.“
Í dag hlutu 18 fyrirtæki viðurkenningu Stjórnvísi fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn á Nauthóli, að viðstöddum fulltrúum fyrirmyndarfyrirtækjanna en það eru Stjórnvísi, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland sem veita viðurkenningarnar.
Fyrirmyndarfyrirtæki í fjölbreyttri starfsemi
Fyrirmyndarfyrirtækin 18 eru í afar fjölbreyttri starfsemi en þar má nefna fjármála- og tryggingastarfsemi, fjarskipti, leigustarfsemi, eignaumsýslu og ferðaþjónustu. Fyrirtækin þykja öll vel að nafnbótinni komin enda eru starfshættir stjórna þeirra vel skipulagðir og framkvæmd stjórnarstarfa til fyrirmyndar.
Eftirtalin fyrirtæki voru að þessu sinni metin sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum:
- Arion banki hf.
- Eik fasteignafélag hf.
- Fossar fjárfestingarbanki hf.
- Heimar hf.
- Icelandair Group hf.
- Íslandssjóðir hf.
- Kvika banki hf.
- Lánasjóður sveitarfélaga ohf.
- Orkan IS ehf.
- Reiknistofa bankanna hf.
- Reitir hf.
- Sjóvá hf.
- Stefnir hf.
- Sýn hf.
- TM tryggingar hf.
- Vátryggingafélag Íslands hf.
- Vörður hf.
- Ölgerðin Egill Skallagríms hf.
Á viðurkenningarathöfninni hélt Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forseti Akademías, varaforseti European Academy of Management og upphafsmaður verkefnisins, stutt erindi þar sem hann fjallaði um áskoranir í stjórnarháttum og hvernig stjórnir verða markvirkar.
Eyþór benti á að ein af lykilforsendum fyrirmyndarfyrirtækja í stjórnarháttum er að skilja hvernig stjórnir geta kennt og lært. Hann fór í gegnum nýtt módel, stjórnarkanvas, sem hann hefur þróað sem verkfæri fyrir viðurkennda stjórnarmenn sem eru þjálfaðir hjá Akademias. Stjórnarkanvasinn er verkfæri fyrir stjórnir til þess að samræma skilning stjórnarmanna á hlutverki stjórnar og skipuleggja stjórnarstarfið með markvirkni að leiðarljósi.
Jón Gunnar Borgþórsson frá JGB ráðgjöf fór því næst stuttlega yfir verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum sem sett var á laggirnar fyrir rúmum áratug. Markmið verkefnisins er að stuðla að góðum stjórnarháttum með því að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja og auðvelda þeim þannig að rækja störf sín. Viðurkenningin tekur mið af leiðbeiningum um stjórnarhætti útgefnum af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland sem sjá má á www.leidbeiningar.is.
Það voru svo Anna Hrefna Ingimundardóttir hjá Samtökum atvinnulífsins og Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi, sem afhentu viðurkenningarnar en fundarstjóri var Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.