Hugtakið atvinnuhæfni (employability) hefur fengið aukna umfjöllun í mannauðsfræðum undanfarin 15-20 ár. Fræðimenn benda á að horfa megi á atvinnuhæfni frá þremur sjónarhornum. Frá sjónarhorni samfélagsins, sem vísar til almenns heilbrigðis vinnumarkaðarins og atvinnustigi. Frá sjónarhorni fyrirtækisins, því máli skiptir að atvinnuhæfir einstaklingar séu á vinnumarkaði og að lokum frá sjónarhorni einstaklingsins, það er þeirra tækifæra sem bjóðast til að fá og halda góðu starfi á vinnumarkaði. Þessir aðilar hafa mismunandi sýn á atvinnuhæfni en í grunninn snýst málið um einstaklinginn sjálfan.
Víð skilgreining á atvinnuhæfni felur í sér færni, getu og vilja einstaklingsins til að nýta hæfileika sína á vinnumarkaði á þann hátt sem líklegur er til að skila árangri miðað við aðstæður og forsendur viðkomandi. Um er að ræða afstætt hugtak sem er háð lögmálum framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði. Því er nauðsynlegt að skilgreina það vítt og taka með innri og ytri þætti. Þröng skilgreining á atvinnuhæfni er hæfileiki einstaklingsins til að halda í vinnuna sem hann hefur eða til að fá vinnuna sem hann hefur áhuga á. Miklu máli skiptir að gera sér grein fyrir því efnahagslega umhverfi og félagslega samhengi sem um ræðir hverju sinni.
Samfélagsþróun undanfarinna ára og breytingar sem má gera ráð fyrir að verði á næstu árum hafa í för með sér tilfærslu í uppbyggingu starfsferla og breytingu á sambandi starfsmanna og atvinnurekanda. Þekking og skilningur á atvinnuhæfni með aðstoð fagaðila getur skipt máli hvort sem einstaklingurinn er í starfi eða í atvinnuleit og leitt af sér ný tækifæri fyrir aðila samfélagsins.
Helga Rún Runólfsdóttir
INTELLECTA - Sérfræðingur í ráðningum