Diversify Nordic Summit

Í síðustu viku héldu tvær stjórnarkonur faghóps um fjölbreytileika og inngildingu til Osló til að taka þátt í fyrsta Diversify Nordic Summit. Ráðstefnan var haldin í fallegu umhverfi við Holmenkollen skíðasvæðið. Á ráðstefnuna var mætt fólk víðsvegar að úr heiminum, flest frá Norðurlöndunum en auk þeirra voru þátttakendur frá Norður-Ameríku, Afríku og annars staðar frá Evrópu. Þátttakendur höfðu það flest sameiginlegt að brenna fyrir fjölbreytileika og inngildingu fólks til atvinnuþátttöku og í samfélögum sínum almennt. Ráðstefnan var skipulögð af Diversify sem eru samtök, ekki rekin í hagnaðarskyni, sem vinna að því að auka fjölbreytileika innan fyrirtækja og auka skilning samfélagsins á mikilvægi inngildingar.

Chisom Udeze sem stofnaði Diversify Nordics og er forsprakki þess að ráðstefnan var sett á fót, er upprunalega frá Nígeríu. Chisom hefur búið í Noregi í fjöldamörg ár og fannst tími til kominn að stofnað væri til samtals milli Norðurlandanna á sviði inngildingar. Hún viðurkenndi í setningarræðu sinni að gera þyrfti betur á næsta ári, því enginn fyrirlesara eða þátttakenda í pallborðsumræðum voru einstaklingar með fötlun eða frá frumbyggjaþjóðum líkt og Inúíta eða Sama. Einnig var skortur á þátttakendum frá Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum og sagðist Chisom staðráðin í því að bæta um betur á næsta ári. Að takast á við vankanta sinnar eigin ráðstefnu strax í upphafi setti tóninn fyrir það sem eftir kom. Umræður voru innihaldsríkar, gagnrýnar og á sama tíma leituðust þátttakendur til að sýna hvorum öðrum skilning. Öll voru vissulega komin til að læra af hvoru öðru, öðlast reynslu og betrumbæta sín samfélög eða fyrirtækjamenningu.

Þann lærdóm sem við drógum helst af þessari ráðstefnu er að Ísland er ekki bara komið frekar stutt á veg í þessu málefni, heldur eru Norðurlöndin ekki endilega komin mikið lengra en við í þessari umræðu. Hin svokallaða samnorræna „afneitun“ (e. Nordic denial), þ.e. tilhneigingin til að halda svo fast í þá hugmynd að allt hljóti að vera í lagi í velferðarríkjunum okkar að ekki gefst rými til að tala um vandamálin, eða hlusta á raddir þeirra sem verða fyrir óréttlæti í okkar eigin ríkjum, ristir enn djúpt. Nauðsynlegt er að horfast í augu við þá fordóma sem eru ríkjandi hjá okkur sjálfum og skoða hvernig ómeðvituð hlutdrægni heldur aftur af ákveðnum hluta fólks.

Þrátt fyrir að öll Norðurlöndin geti greinilega gert mun betur til að breyta hugarfari sínu gagnvart fjölbreyttu starfsfólki þá þykir okkur enn vanta upp á að samtalið sé tekið á Íslandi. Frá hinum löndunum mátti sjá mjög fjölbreyttan hóp einstaklinga sem starfa við mannauðsmál, fjölbreytileika- og inngildingarstjórnun fyrir hin ýmsu fyrirtæki og var umræðan eftir því. Þetta er ólíkt því sem gerist alla jafna á Íslandi. Hér er vissulega fjölbreytileiki til staðar, enda næstum fjórðungur íbúa landsins innflytjendur, börn innflytjenda eða einstaklingar með erlendan bakgrunn. Samt sem áður skortir fjölbreytileikann enn í mörgum geirum og sérstaklega í stjórnunarstöðum. 

Við viljum ekki að Ísland verði eftirbátur hinna landanna, enda höfum við allt bolmagn til þess að vera framarlega á sviði inngildingar, líkt og í svo mörgu öðru. Það er von okkar að sá aukni áhugi sem við finnum fyrir að fólk sýni inngildingu færi íslenskum fyrirtækjum og íslensku samfélagi meiri velferð. Enda hafa fjölbreyttar raddir, með fjölbreytta reynslu, sannað að þær færa sínu nærumhverfi hagsæld og hamingju - svo fremi sem þær upplifa inngildingu. 

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, stjórnarmeðlimur

Irina S. Ogurtsova, formaður

 

Fleiri fréttir og pistlar

Áhugaverð skýrsla um þróun gervigreindar

Sjá skýrsluna með því að opna eftirfarandi vefslóð AI Index Report 2024 – Artificial Intelligence Index (stanford.edu)

Faghópur Öryggisstjórnunar vekur athygli á aðalfundi Vinnís 15 apríl n.k.

Á aðalfundi Vinnís þann 15 apríl n.k. mun Leó Sigurðsson, formaður Vinnís og meðlimur stjórnar faghóps öryggisstjórnunar, flytja erindi um helstu áskoranir og tækifæri tengt vinnuvist, vinnuvernd og öryggisstjórnun á Íslandi í dag með alþjóðlegri nálgun. 
Allir eru velkomnir og þá sérstaklega þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í öflugu starfi tengt vinnuvist/vinnuvernd með það að markmið að efla þennan málaflokk á Íslandi og efla tengslanet sitt. Sjá nánar hér: 
https://www.facebook.com/events/239313009203603
 
Aðalfundur Vinnuvistfræðifélag Íslands (Vinnís) er haldin í húsnæði Verkfræðingafélagi Íslands.
Dagskrá verður hefðbundin og boðið verður upp á léttar veitingar á meðan fundinum stendur. 
Endilega skráið mætingu í viðburðinum svo við vitum hversu mörgum við eigum von á.
Staður: Verkfræðingafélagið, Engjateig 9, Reykjavík.
Klukkan:17:00
Dagskrá aðalfundar verður samkvæmt lögum Vinnís:
1) Kosning fundarstjóra og fundarritara
2) Skýrsla stjórnar
3) Skýrsla gjaldkera
4) Kosning tveggja meðstjórnenda til tveggja ára
5) Kosning formanns til eins árs
6) Kosning tveggja varamanna til eins árs í senn
7) Kosning tveggja endurskoðenda til eins árs
😎 Ákvörðun félagsgjalds
9) Önnur mál
Auglýst er eftir framboðum í stjórn Vinnís
Auglýst er eftir framboðum til stjórnarsetu. Vinnís og NES eru að ganga í gegnum heilmiklar breytingar og mjög spennandi framundan. Vinnís er hluti af NES (Nordic Ergonomic and Human factor Society) og er því seta í stjórn aukið tækifæri til norrænnar samvinnu, þátttöku í ráðstefnum og útvíkkunar tengslanets í faginu.
 
Þeir sem gefa kost á sér eru hvattir til að tilkynna um framboð sitt í gegnum fésbókarsíðu Vinnís https://www.facebook.com/vinnuvistfraedi/ í síðasta lagi mánudagin 15.apríl kl.16, 2024.
Í lögum félagsins segir að reynt skuli eftir fremsta megni að manna stjórnina fulltrúum frá sem flestum sviðum vinnuvistfræðinnar til að stjórn félagsins endurspegli hinn breiða faglega grunn félagsmanna.
Við hlökkum til að sjá ykkur á aðalfundi Vinnís.
Stjórn Vinnís

THE GLOBAL 50 – Meginkraftar framtíða.

THE GLOBAL 50 – Meginkraftar framtíða.

Dubai Future Foundation, sem er samstarfsaðili Framtíðarseturs Íslands, var að gefa út áhugaverða skýrslu, The Global 50, um 50 meginkrafta til framtíðarvaxtar, velmegunar og velferðar. Sumir þessara krafta eru hægt rísandi, en aðrir í nærri en allir þarfnast íhugunar, þó svo langt sé í að þeir skelli á okkur.

Skoðið þessa vefslóð, þar er síðan hægt að ná í skýrsluna sem pdf.

The Global 50 Report | Dubai Future Foundation

 

Njótið dags og framtíðar.

Námskeið í breytingastjórnun

Ágætu félagsmenn faghóps um breytingastjórnun

Til upplýsinga er áhugavert námskeið í breytingastjórnun í Opna háskólanum í apríl sem einhver hér gætu haft áhuga á. Námskeiðið fjallar um leiðir til að ná árangri í breytingum en jafnframt er farið dýpra í að gera breytingar auðveldari á vinnustaðnum. Kynntar verða til sögunnar viðurkenndar aðferðir í breytingastjórnun í bland við sannreynda hugmyndafræði kennara sem ræðst á orsök vanda vinnustaðarins. Kennari námskeiðsins er Ágústs Kristjáns Steinarrsson, stjórnunarráðgjafi í breytingum, en hann var áður formaður faghóps um breytingar hjá Stjórnvísi.

 

Allar nánari upplýsingar og skráning er hér: Opni háskólinn – Háskólanum í Reykjavík (ru.is) auk þess er hér kynningarmyndband

FP&A Trends Group - Alþjóðleg hugveita fyrir stjórnendur og sérfræðinga

FP&A Trends Group er alþjóðleg hugveita ætluð stjórnendum og sérfræðingum í fjármálum, áætlanagerð og greiningu. Hugveitan stendur fyrir fjölda áhugaverðra funda ár hvert þar sem toppstjórnendur og sérfræðingar víðsvegar um heim deila reynslu sinni og þekkingu. Þar á meðal eru fjármálastjórar og aðrir toppstjórnendur margra stærstu fyrirtækja heims.

FP&A Trends Group gefur einnig út vefritið FP&A Insights sem hefur 450.000 áskrifendur. Hugveitan gefur jafnframt út rannsóknir á sérsviði sínu. Hún hefur útibú í 18 löndum sem standa fyrir reglubundnum fundum, meðal annars í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Helsinki, sem er nýjasta útibúið.

Hugveitan heldur einnig úti vinnuhópi rúmlega 40 stjórnenda og sérfræðinga í notkun gervigreindar á sviði fjármála, áætlanagerðar og greiningar. Hér má sjá ýmsar greinar og fyrirlestra frá fundum vinnuhópsins, þar á meðal umfjöllun stjórnenda hjá Microsoft, Philips, Swarowski og fleiri fyrirtækjum um eigin vegferð og reynslu af innleiðingu gervigreindarlausna. 

Aðgangur að FP&A Trends Group og áskrift að FP&A Insights er ókeypis og tilvalið fyrir stjórnendur, sérfræðinga og annað áhugafólk um fjármál, áætlanagerð og greiningu að skrá sig og fá þannig tækifæri til að fylgjast með því nýjasta á sínu sviði.

Nánari upplýsingar um starfsemi FP&A Trends Group og hlekk á skráningu má finna hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?