Oft er talað um flöskuhálsa í fyrirtækjum þegar afmarkaður staður í skipulagsheildinni veldur því að líkur á hámarksárangri minnka. Flöskuhálsinn getur verið ákveðið skref í framleiðslu-, þjónustu- eða söluferlinu. Það liggur því í hlutarins eðli að flöskuhálsar geta hæglega verið einstaklingar sem með hegðun sinni gera það að verkum að ekki er hægt að uppfylla þarfir viðskiptavina (innri eða ytri) með eins skjótum hætti og best væri.
Flöskuhálsar í framleiðslu eru oft vel sýnilegir. Afkastageta véla hefur t.d. veruleg áhrif á afhendingatíma vöru. Erfiðara getur hins vegar verið koma auga á flöskuhálsa í liðsheildum og þá sérstaklega þegar svo háttar til að flöskuhálsinn er stjórnandinn sjálfur sem með hegðun sinni og vinnulagi kemur í veg fyrir að starfsfólk hans geti með góðu móti gert það sem það er ráðið til að gera.
Stjórnandinn verður til dæmis flöskuháls þegar hann ætlar sér að gera of mikið sjálfur. Því miður eru enn til stjórnendur sem ekki hafa tileinkað sér nægilega hæfni í að dreifa verkefnum og/eða því valdi sem nauðsynlegt er til að starfsmaður geti eignað sér verkefnin. Með slíkri hegðun er stjórnandinn að ræna starfsmanninn möguleikann á því að vaxa í starfi og verða betri starfsmaður sér sjálfum og fyrirtækinu til heilla. Stjórnandi sem dreifir ekki valdi og verkefnum er því í raun réttri að halda starfsfólkinu sínu niðri, takmarka möguleika þeirra á að vaxa í starfi og um leið auka álag á sig sjálfan umtalsvert.
Ert þú flöskuháls í þínu fyrirtæki, og ef svo er, hvað ætlar þú að gera til að breyta því?
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, stjórnendaþjálfari og eigandi Vendum, www.vendum.is