Fyrirlesarar fóru á kostum á Nýsköpunarhádegi sem haldið var í Þjóðminjasafninu í dag. Yfirskrift fundarins var "Engar hindranir" sem er átak sem Icelandic Startups stendur fyrir til þess að hvetja konur til þátttöku í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi með því að sýna sterkar fyrirmyndir úr sprotaumhverfinu. Þær sterku faglegu fyrirmyndir sem komu fram voru Eliza Reid, forsetafrú, Margrét Júlíanna Sigurðardóttir, stofnandi Mussila, Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi Icelandic Lava Show og Stefanía Ólafsdóttir, stofnandi Avo. Þær veittu fundargestum svo sannarlega innblástur og hvöttu alla með viðskiptahugmynd til að láta drauma sína rætast.