Framúrskarandi þjónusta
Fyrir einum og hálfum mánuði ákvað ég að nýta mér frímiða sem ég átti í Borgarleikhúsið, sem er svo sem ekki frásögu færandi nema í ferlinu átti ég eftir að fá einu bestu þjónustu sem ég hef fengið.
Þetta byrjaði allt með einum vefpósti sem ég sendi á midasala@borgarleikhus.is. Í póstinum spurðist ég fyrir um sýninguna Róme og Júlíu, en ég hafði heyrt að hún væri að koma aftur í sýningu. Klukkutíma eftir að ég sendi póstinn var ég kominn með svar frá miðasölunni með þeim upplýsingum að salan á miðum myndi hefjast í mars.
Það var svo nokkrum dögum seinna sem ég fékk annan póst frá miðasölunni þar sem starfsmaður upplýsti mig um að miðasalan væri hafin, án þess að ég hefði óskað eftir því. Ég þakkaði aftur fyrir mig en ég spurðist fyrir um kaup á miða, þar sem ég var með gjafabréf.
Daginn eftir fékk ég hringingu frá miðasölunni þar sem starfsmaður fór yfir þetta með mér, benti mér á bestu sætin og hvenær ég ætti að ná í miðana. Ég var mjög
þakklátur enda hef ég ekki mikið vit á hvar bestu sætin eru, enda hafði ég ekki farið í leikhús síðan Latibær var uppá sitt besta.
Svo núna um daginn fór ég á sýninguna og reyndust sætin svo sannarlega vera ein þau bestu í húsinu. Ég fékk sæti í annarri röð á sviðinu, þannig maður fékk leikhúsupplifunin beint í æð og skemmti ég mér konunglega.
Borgarleikhúsið getur svo sannarlega verið stolt af starfsmönnum sínum, enda ekki á
hverjum degi sem maður upplifir svona framúrskarandi þjónustu. Þetta er akkúrat eitthvað sem fyrirtæki ættu að taka til sín, en með því að bjóða upp á svona þjónustu auka þau líkur á sterkari tengslum viðskiptavinarins við fyrirtækið og í kjölfarið verða til litlar sögur sem gleðja bæði starfsmenn og viðskiptavini Borgarleikhússins.
Takk fyrir frábæra sýningu og ennþá betri þjónustu.