9. september 2025 18:19
Á aðalfundi faghóps um almannatengsl, miðlun og samskipti var ný stjórn kjörin. Stjórnina skipa þau Andrea Guðmundsdóttir, fagstjóri og lektor við Háskólann á Bifröst, Anna Margrét Gunnarsdóttir ráðgjafi hjá Altso, Aðalbjörg Kristín Jóhannsdóttir ráðgjafi hjá Apríl og Nasdaq á Íslandi, Dóra Magnúsdóttir samskiptastjóri Hafrannsóknastofnunar, Erla Björg Eyjólfsdóttir ráðgjafi og stundakennari við Háskólann á Bifröst, Grétar Theodórsson ráðgjafi hjá Innsýn samskiptum og Stefán Hrafn Hagalín, framkvæmdastjóri Þrettánellefu og fyrrverandi formaður Stjórnvísi, en hann er jafnframt formaður faghópsins.
Hópurinn er eins og aðrir faghópar Stjórnvísi öllum opinn, hvort heldur fólk hefur áhuga á faginu, starfar við það eða sækir sér menntun á þessu sviði. Smelltu hérna til ganga til liðs við hópinn: https://www.stjornvisi.is/is/faghopar/almannatengsl-e-public-relations-og-samskiptastjornun
Á vinnufundum stjórnar síðustu vikur og mánuði hefur verið mótuð metnaðarfull dagskrá fyrir veturinn, sem verður birt á vef og samfélagsmiðlum Stjórnvísi. Má þar nefna tvo staðfundi við upphaf og lok vetrar til að efla tengslamyndun þar sem sérfræðingar stíga á stokk og fara yfir stefnur og strauma í faginu. Einnig eru áætlaðir mánaðarlegir fundir með fjölbreyttum umfjöllunarefnum.
- Október: Staðfundur með góðum gestum og tengslamyndun
- Október: Hagnýting gervigreindar í faginu
- Nóvember: Samskiptastjórnun og sjálfbærni
- Desember: Almannatengsl fyrir frumkvöðla, nýsköpun og sprotafyrirtæki
- Janúar: Almannatengsl fyrir stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök
- Febrúar: Fjárfestatengsl og almannatengsl í skráðum og óskráðum fyrirtækjum
- Mars: Innri samskipti og markaðssetning á vinnustöðum
- Apríl: Menntun og símenntun í almannatengslum og samskiptum
- Maí: Almannatengsl á opinberum vinnustöðum.
- Júní: Staðfundur með góðum gestum og tengslamyndun
Tilgangur faghópsins er að efla faglega þróun á sviði almannatengsla, miðlunar og samskipta innan skipulagsheilda, ásamt því að auka vitund um mikilvægi atvinnugreinarinnar með því að bjóða upp á fræðandi og hvetjandi fyrirlestra frá fyrirtækjum, stofnunum, háskólum og sérfræðingum. Metnaður er lagður í að bjóða upp á fyrirlestra sem veita áhorfendum aukna þekkingu, færni og innsæi í starfsvettvang fagsins, hér heima og erlendis.
Mikil vitundarvakning hefur orðið hér á landi undanfarin ár um mikilvægi góðra almannatengsla og markvissrar miðlunar og samskipta. Fagleg, heiðarleg og stöðug upplýsingagjöf við mikilvæga hagsmunahópa byggir og styrkir góða ímynd og eykur um leið velferð og virðingu hvort sem um ræðir skipulagsheildir eða einstaklinga.