Faghópur um fjölbreytileika og inngildingu vekur athygli meðlima á áhugaverðum fyrirlestrum SALTO-Youth um inngildingu og fjölbreytileika. Fyrirlestrarröðin er miðuð að þeim sem starfa með ungu fólki en á þó fullt erindi til alls samfélagsins.
Fjallað er um ólíka þætti inngildingar í hverjum fyrirlestri. Í haust hafa verið haldnir fyrirlestrar um kynþætti, hinsegin samfélagið og stéttaskiptingu en eftir eru fyrirlestrar um kyn (20. október) og fjölbreytileika (3. nóvember). Alla fyrirlestrana er hægt að nálgast á formi upptöku nokkrum vikum eftir að þeir hafa verið fluttir, að kostnaðarlausu.
Hægt er að nálgast fyrri fyrirlestrarraðir á vef SALTO ásamt því að samantekt úr fyrirlestrum vetrarins 2020-2021 hefur verið gefin út á rafrænum bækling, ID Talks Magazine. Fyrirlestrarnir veturinn 2020-2021 voru um trú, líkamlega getu, fólksflutninga, kynslóðabil og samtvinnun (e. intersectionality), en eldri fyrirlestrar um inngildingu í rafrænu ungmennastarfi, í samtökum, fyrirtækjum og í samfélögum framtíðarinnar eru einnig aðgengilegir á vefnum.
SALTO-Youth stendur fyrir Support, Advanced Learning and Training Opportunities for Youth og vinnur SALTO náið með Erasmus+ samstarfinu sem Ísland er þátttakandi í.