Góður stjórnandi býr yfir fjölbreyttum eiginleikum, allt frá skipulagningu og útdeilingu verkefna til miðlunar upplýsinga og hvatningar. Ásamt fyrrgreindum hæfileikum er yfirgripsmikil og sérhæfð þekking á stjórnun og sjúkrahússtarfsemi talin nauðsynleg öllum stjórnendum á Landspítala.
Á Landspítala er lagt mat á starfsumhverfið með reglubundnum hætti en tilgangurinn er að kanna stöðu innra starfs spítalans og upplifun starfsmanna á vinnustað, meðal annars stjórnun, boðleiðum og öðrum mikilvægum þáttum sem snúa að innri ferlum. Mælingar taka mið af starfsánægju, starfsanda, trausti til stjórnenda og yfirmanna svo eitthvað sé nefnt. Slík greining getur lagt grunn að umbótastarfi, sé þess þörf, veitir stjórnendum aðhald, segir þeim hvað vel er gert og hvað má betur fara á vinnustaðnum til að starfsfólki líði vel.
Niðurstöður síðustu könnunar (2012) bentu til þess að starfsumhverfið væri að mörgu leyti í góðu lagi en þar væru líka ákveðin tækifæri til þess að gera betur. Stjórnendur njóta til að mynda mikils trausts starfsmanna sinna (4,26)*, leggja áherslu á hagkvæmni í rekstri (4,43), setja almennt fagmennsku í forgang (4,25) og hafa skýra framtíðarsýn og vinna í anda stefnu LSH (4,28). Flestir eru í auknum mæli meðvitaðir um jákvæð áhrif þess að hrósa en hins vegar sýna kannanir fram á að starfsmenn telja endurgjöf um frammistöðu í starfi ábótavant (3,67).
Við leggjum upp úr því að vinna með niðurstöður slíkra kannana og grundvöllur stjórnendaþjálfunar tekur mið af þeim nú þegar ný námskeið hefjast á Landspítala. Góð endurgjöf skiptir miklu fyrir starfsanda og þar eru stjórnendur í lykilhlutverki. Hrós er hvetjandi þegar vel gengur og leiðbeinandi endurgjöf getur verið lykilatriði þegar bæta þarf frammistöðu og ná árangri. Okkar markmið er að hafa góða stjórnendur sem gera endurgjöf að einu af þeim öflugu verkfærum sem skapa gott starfsumhverfi á Landspítala.
*Meðaltal á Likert skala (1-5) þar sem 5 er hæsta gildi.
Greinarhöfundur er Arna Pálsdóttir, M.Sc í vinnusálfræði og verkefnastjóri á mannauðssviði Landspítala.