Opni háskólinn í HR, Vendum og Stjórnvísi undirrituðu á dögunum samstarfssamning í þeim tilgangi að þjóna stjórnendum og íslensku atvinnulífi með enn faglegri og hagnýtari hætti en hingað til.
Samstarfið felur í sér sameiginlega fundarröð þar sem að þungavigtarfólk úr atvinnulífinu deilir reynslu sinni og skoðunum um stjórnunarleg málefni. Í morgun var fyrsti fundurinn haldinn fyrir troðfullum sal í Háskólanum í Reykjavík þar sem að Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá fór yfir reynslu sína sem stjórnandi. Hann notar verkefna- og valddreifingu á markvissann hátt til að ná betri yfirsýn og stíga enn sterkar inn í hlutverk sitt sem forstjóri með árangur fyrirtækisins að leiðarljósi. Hann kom með dæmi um praktísk atriði eins og að velja rétta fólkið í kringum sig og eiga markviss samskipti byggð á trausti. ,,Góður stjórnandi þarf að hafa þann eiginleika að njóta þess að sjá aðra vaxa, öðruvísi virkar verkefna- og valddreifing ekki.“ Hermann deildi persónulegum dæmum og fór yfir hvernig skipulagsbreytingar í Sjóvá hafi verið studdar í framhaldinu til dæmis með vel heppnuðum breytingum á húsnæðinu.
Alda Sigurðardóttir, stjórnendamarkþjálfi og eigandi Vendum fór yfir það sem að helst hindrar stjórnendur í vald- og verkefnadreifingu eins og meðhöndlun trúnaðargagna, skortur á tíma, skortur á starfsfólki en einnig skortur á hæfni starfsfólks, áhrif fyrirtækjamenningar og síðast en ekki síst eigin viðhorf, einnig fór hún yfir hagnýtar leiðir til að yfirstíga þessar hindarnir. Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísis sá um fundarstjórn með glæsibrag og tók meðal annars dæmi frá Jack Welch um mikilvægi þess að efla starfsfólkið í verkefna- og valddreifingu út frá þeim styrkleikum sem hver og einn býr yfir. Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður stjórnmenntar Opna háskólans fór í upphafi fundar yfir mikilvægi samstarfs Opna háskólans, Vendum og Stjórnvísi til að virkja sem flesta stjórnendur til að setja fókus á eigin stjórnun og þar með auka árangur síns fyrirtækis. Fundaröð sem þessi er tilvalin vettvangur til að læra af öðrum stjórnendum og í framhaldinu meta hvar maður getur eflt sig eða sitt fyrirtæki í framhaldinu.
Hér neðar eru nánari upplýsingar um samstarfsaðilana og á meðfylgjandi mynd sem tekin var við upphaf samstarfsins eru: Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður stjórnmenntar Opna háskólans, Alda Sigurðardóttir, eigandi Vendum, Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísar og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, eigandi Vendum.
Nánari upplýsingar veitir Alda Sigurðardóttir í gsm 662 0330
Meginhlutverk Opna háskólans í HR er að veita stjórnendum og sérfræðingum fræðslu og þjálfun til að viðhalda og efla samkeppnishæfni þeirra sem og fyrirtækja, atvinnulífs og samfélagsins í heild. Í Opna háskólanum má finna fjölbreytt úrval vandaðra námskeiða og þjálfunar undir leiðsögn fremstu sérfræðinga Háskólans í Reykjavík og samstarfsaðila úr íslensku atvinnulífi auk erlendra sérfræðinga. Námskeiðin eru hagnýt og taka til helstu áskorana sem stjórnendur í íslensku viðskiptalífi standa frammi fyrir hverju sinni.
Vendum þjálfar stjórnendur og leiðtoga til að ná hámarksárangri í gegnum markþjálfun (e. Executive coaching). Vendum hefur núþegar starfað með yfir 60 fyrirtækjum og er að hefja sitt þriðja starfsár. Þjónusta Vendum er ýmist í einstaklingsþjálfun og hópþjálfun og með samstarfi við Opna háskólann verða í boði fjölbreytt námskeið tengd stjórnun. Árangur er meginmarkmiðið og er áhersla lögð á að bjóða áhrifaríkustu aðferðir sem völ er á og að þjónustan skili viðskiptavinum ávinningi sem skipar þeim í fremstu röð.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með tæplega 2.000 virka félagsmenn og mjög öflugt tengslanet. Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á stjórnun; eins og stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum áhugamönnum um stjórnun.