Hvar er hægt að beita gæðastjórnun?
Gæðastjórnun á meðal annars að draga fram hvernig fyrirtækjum er stjórnað og hvernig hlutverk stjórnenda getur skapað fyrirmyndarfyrirtæki.
Sumir eru þeirra skoðunar að gæðastjórnun eigi ekki alls staðar við, eða það borgi sig ekki að innleiða þessa stjórnarhætti vegna kostnaðar eða þá að fyrirhöfnin við innleiðingu sé of mikil, t.d. í formi skriffinnsku. Einnig eru dæmi um að þegar harðnar í ári - sparnaðarleiðir eru kortlagðar - að þá séu gæðakerfin skorin af.
Það er ekki alltaf skilningur á því hvað felst í gæðastjórnun. Öll fyrirtæki og stofnanir, s.s. heilbrigðisstofnanir eða skólar, eiga að sjá hag í því að vinna samkvæmt hugmyndafræði gæðastjórnunar. Öll fyritæki og stofnanir eiga sér viðskiptavin sem annað hvort greiðir beint fyrir þjónustuna eða nýtur hennar og greiðir fyrir t.d. í formi skatta. Það er sama hvort er. Í öllum tilfellum eiga viðskiptavinir heimtingu á að fá þá bestu þjónustu sem hægt er að veita hverju sinni; í því felst gæðastjórnunin. Það er hægt að innleiða gæðastjórnun alls staðar. Við sem þegnar þessa lands eitum t.d. heimtingu á að gæðastjórnun sé innleidd í ríkisstjórn og Alþingi - sem og í opinberri stjórnsýslu.
Algengar kröfur til gæðastjórnunar eru innleiðing á gæðastjórnunarstaðli eins og t.d. ISO 9001 sem er stjórnunarstaðall fyrirtækja eða stofnana. Þessi staðall á alls staðar við. Ég fullyrði að ef fyrirtæki eða stofnanir myndu innleiða hann og uppfylla kröfur hans þá myndi það skila ávinningi þegar í stað.
Að lokum vil ég benda á starfsemi Stjórnvísi - stærsta stjórnunarfélags landsins með yfir 1.700 félagsmenn. Þar starfa 18 faghópar með það að markmiði að efla alla þætti gæðastjórnunar. Ég hvet ykkur til að skoða starfsemi félagsins og verið velkomin upp í vagninn þið ykkar sem eruð ekki á honum nú þegar.
Höfundur texta er Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri Landsvirkjunar.