Hvert stefnir þú?
Á áhugaverðum fundi Stjórnvísi um stjórnendaþjálfun nýverið kom skýrt fram hjá frummælendum að stjórnendur leggi meira upp úr því að tryggja að fólkið þeirra fái viðeigandi þjálfun og stuðning en sækja sér ekki endilega sjálfir endurmenntun eða þjálfun á þeim sviðum sem þeir þurfa á að halda. Öfugsnúið, en satt. Mikilvægi þess að stjórnendur og leiðtogar gefi sér tíma til að efla hæfni sína og getu líkt og starfsfólk þeirra er gríðarlegt. Með því að líta upp og sækja einhverskonar námskeið, fara í markþjálfun, vera í samskiptum við mentor eða lesa áhugavert efni víkkum við sjóndeildarhringinn, komum auga á ný tækifæri, eflumst sem stjórnendur, komum í veg fyrir stöðnun, hugsum fram á við og svo mætti lengi telja. Í versta falli fáum við staðfestingu á því að við erum að gera góða hluti sem styrkir okkur í því að halda áfram á sömu braut.
Spurning mín til þín kæri stjórnandi er „hvert stefnir þú?“. Hvar ætlar þú að vera eftir þrjú ár? Hvaða hæfni þarftu að tileinka þér eða styrkja enn frekar til að komast þangað sem þú ætlar þér? Til hvaða aðgerða ætlar þú að grípa til að komast þangað? Hvað gæti staðið í vegi fyrir því að þú stigir þessi skref? Hvaða afleiðingar hefur það ef þú stígur ekki þessi skref?
Gefðu þér tíma til að hugsa um þig. Hvað þú vilt og þarft að gera til að ná þeim allra besta árangri sem þú getur mögulega náð? Það þarf ekki að vera flókið en það eitt að gefa sér tíma til að hugsa um þetta og jafnvel ræða það við einhvern sem þú treystir setur kastljósið á þessi atriði og þá eru meiri líkur á því að við gerum raunverulega eitthvað í málum. „Ekki gera ekki neitt“ því í því hraða viðskiptaumhverfi sem við búum við í dag er það ávísun á stöðnun.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, eigandi Vendum stjórnendaþjálfunar