Kompaní-fólk
Stjórnendum tekst hvað best upp þegar starfsmenn eru stoltir af fyrirtækjum sínum og vinnuveitendum - og líta nánast á fyrirtækið sem hluta af fjölskyldunni. Þegar starfsmenn eru það sem kallað er kompaní-fólk. Starfsandinn í slíkum fyrirtækjum er þá góður og allir tilbúnir til að leggja sitt af mörkum. Ég held hins vegar að tryggð við fyrirtæki sé að minnka og minna sé um kompaní-fólk líkt og var fyrir nokkrum áratugum þegar starfsmenn stórra fyrirtækja héldu að fyrirtækin væru eilífðarvélar sem gætu ekki stöðvast. Gott dæmi um slíka vél var t.d. Kodak í Bandaríkjunum. Hvernig gat nokkrumdottið í hug að fyrirtækið lenti í vandræðum einmitt þegar aldrei er tekið eins mikið af myndum - aldrei er eins oft smellt af - og myndir sendar út og suður á augabragði?
Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo, kom hingað til lands í haust í tilefni af 100 ára afmæli Ölgerðarinnar. Hún flutti skemmtilegt erindi í Þjóðleikhúsinu og lagði mikla áherslu á tryggð starfsmanna við fyrirtækið og að þeir væru stoltir af að vinna fyrir það. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að ná upp góðum starfsanda og hvatti stjórnendur til að horfa til langs tíma við stjórnun og forðast skammtímahugsun. Pepsi í Bandaríkjunum er orðið 150 ára gamalt fyrirtæki. Indra lagði ofuráherslu á að stjórnað væri með því sem hún kallaði höfði, hjarta og höndum. Hjartalag stjórnenda yrði að vera hlýtt til að ná upp góðri stemningu og starfsanda; öflugri liðsheild, og þannig væri miklu auðveldara og jafnframt skemmtilegra að koma hlutum í verk. Indra sagði að útgeislun hefði mikil áhrif við stjórnun og bjartsýni stjórnenda ýtti undir bjartsýni starfsmanna - og byggi til kompaní-
fólk.
Jón G. Hauksson er ritstjóri Frjálsrar verslunar og fyrrverandi formaður Stjórnvísi.