Kæru félagsmenn í Stjórnvísi.
Starfið innan Stjórnvísi hefur sjaldan byrjað eins vel og þetta starfsárið og mikil gróska einkennir félagið. Svo til allir faghópar eru komnir vel af stað og þegar hafa verið haldnar nokkrar fjölmennar ráðstefnur á vegum félagsins. Þessu ber að fagna og þakka.
Það er ekkert sjálfgefið að félagsmenn séu svo kraftmiklir og áhugasamir en fyrir vikið er félagið bæði áhugaverðara og skemmtilegra.
Mig langar að vekja athygli ykkar á stórglæsilegri haustráðstefnu Stjórnvísi í Hörpu nk. föstudag, 26. október. Hún ber yfirskriftina: Að móta framtíðina - besta leiðin til að spá í framtíðina er að móta hana sjálfur!
Afar vel hefur tekist til með fyrirlesara að þessu sinni en þeir verða Jón von Tetzchner, frumkvöðull og stofnandi Opera Software, Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors, og David Martin, ráðgjafi í öryggismálum ríkja og stórfyrirtækja.
Ráðstefnan verður í Kaldalóni í Hörpu og verður með óvenjulegu fyrirkomulagi. Þeir Jón von Tetzchner og David Martin verða ekki með fyrirlestra heldur verður samtalsformið notað. Ég ræði við Jón von Tetzchner og Sigurjón Þ. Árnason, gæða- og öryggisstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins, ræðir við David.
Ég hvet ykkur öll til að mæta á þessa glæsilegu haustráðstefnu í Hörpu en fjölmörg fyrirtæki hafa styrkt Stjórnvísi vegna hennar og gert okkur kleift að halda hana. Félagið þakkar þennan stuðning.
Aðgangur á ráðstefnuna í Hörpu er ókeypis og öllum félögum í Stjórnvísi opinn.
Innan raða Stjórnvísi eru núna um tvö þúsund félagsmenn og næstum 270 fyrirtæki. Svo margir hafa ekki verið í félaginu áður.
Höfum það ávallt í huga að Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.
Þungamiðjan í starfinu eru faghóparnir og án þeirra væri Stjórnvísi lítils virði.
Sem formaður hef ég lagt mikla áherslu á samheldni okkar félagsmanna og aukna félagsvitund þannig að við getum öll sagt með stolti að við séum félagar í Stjórnvísi - stærsta og virkasta stjórnunarfélagi landsins.
Að lokum vil ég þakka framkvæmdastjóra félagsins, Gunnhildi Arnardóttur, fyrir gott starf og að hafa komið faghópunum svo vel af stað á þessu hausti.
Með von um að sjá ykkur í Hörpu næsta föstudag. Sú ráðstefna er liður í því að móta framtíðina - móta framtíð Stjórnvísi.
Kveðja,
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.