Kæru félagsmenn.
Ég vil byrja á að óska ykkur gleðilegs og kraftmikils árs. Árið fer vel af stað í félaginu og þegar í þessari viku eru tveir áhugaverðir og vel sóttir fundir.
Eftir hálfan mánuð, 24. janúar, er fundur á veitingastaðnum Nauthól sem mig langar að vekja athygli ykkar á. Það er fundur stjórnar með stjórnum faghópa þar sem farið verður yfir verkefni og hugmyndir allra faghópa á vormánuðum.
Þessir fundir hafa tekist afskaplega vel og sl. haust mættu um 90 manns og tóku virkan þátt í umræðum. Allir félagsmenn eru velkomnir - og hvet ég sem flesta til að mæta og taka púlsinn á starfinu.
Innan raða Stjórnvísi eru núna yfir 2 þúsund félagsmenn og um 300 fyrirtæki. Svo margir hafa aldrei áður verið í félaginu og er Stjórnvísi stærsta og fjölmennasta stjórnunarfélag landsins.
Faghóparnir eru félagið. Þess vegna er það helsta verkefni stjórnar að halda vel utan um faghópana, hvetja þá til dáða en gæta þess að þeir haldi sjálfstæði sínu og frumkvæði. Stjórnvísi verður 27 ára á þessu ári og dafnar vel. Það er í harðri samkeppni við nokkur önnur félög, t.d. Dokkuna, og er sú samkeppni af hinu góða. Í þeirri samkeppni bið ég þó félagsmenn og forráðamenn fyrirtækja að hafa í huga að Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.
Markmið félagsins er að efla faglegar umræður um stjórnun - og fylgjast náið með nýjum straumum og stefnum í samvinnu við atvinnulífið og háskólaumhverfið; sem og að skerpa á gömlum og góðum gildum í stjórnun.
Það verður margt um að vera næstu vikur og mánuði og fyllsta ástæða til að fylgjast vel með og missa ekki af frjóum fundum og fljúgandi hugmyndum. Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi verða veitt í fjórða sinn í mars næstkomandi. Hátíðin er einn af hápunktum starfsins og verðlaunin hafa fest sig í sessi í viðskiptalífinu. Forseti Íslands hefur frá upphafi afhent þau og flutt áhugaverða tölu í tilefni þeirra.
Við í stjórn Stjórnvísi höfum haldið því að forráðamönnum fyrirtækja að þátttaka starfsmanna þeirra í félaginu sé hagstæðasta símenntunin á markaðnum og gefi færi á hagnýtri umræðu um stjórnun og raunhæfum viðfangsefnum.
Eflum félagsvitundina og verum öll stolt af því að vera félagar í Stjórnvísi. Ég er í Stjórnvísi, er setningin. Hvetjum alla til að hoppa á vagninn og ferðast með okkur um heim praktískra stjórnunarfræða.
Höfum eldmóð og bjartsýni ávallt að leiðarljósi í starfi sem einkalífi og heilsum árinu 2013 í góðum félagsskap.
Með kveðju,
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.