Lean; stjórnunaraðferð til árangurs
Lean Management er hugmynda- og aðferðafræði sem kemur upprunalega frá Toyota í Japan. Í upphafi var hún þróuð til að lifa af kreppuárin eftir síðari heimstyrjöldina en síðan þá hefur fyrirtækið náð það miklum árangri að fjöldamörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum hafa tileiknað sér þessa stjórnunaraðferð.
Rannsóknir erlendis frá sýna ótrúlegan árangur eftir innleiðingu Lean s.s. tvöföldun á afkastagetu, helmingi færri galla og allt að 90% styttri tíma sem tekur að veita viðskiptavininum þá vöru eða þjónustu, sem boðið er upp á, án þess að bæta við starfsfólki. Að auki næst enn frekari árangur með áframhaldandi stöðugum umbótum.
Hugmyndafræði og aðferðir Lean ganga í stuttu máli út á að gera stöðugt betur með stöðugt minni auðlindum með aðaláherslu á viðskiptavininn. Þetta er gert með markvissri umbótavinnu á öllu skipulagi og ferlum. Líka á þeim þáttum sem ganga vel. Allir starfsmenn fyrirtækisins eru virkjaðir til umbóta og þeim veittur vettvangur til að koma hugmyndum sínum á framfæri og fylgja þeim eftir. Því verður umbótavinna eðlilegur hluti vinnunnar sem leiðir stöðugt til aukins árangurs og skapar þannig hvetjandi og skemmtilegt vinnuumhverfi.
Þónokkur fyrirtæki hér á landi nýta sér Lean til að ná markmiðum sínum, eins og bættri skilvirkni, lægri kostnaði, auknum tekjum og aukinni ánægju starfsmanna og viðskiptavina.
Þar sem um viðamiklar breytingar er að ræða ef Lean er innleitt í alla starfsemi fyrirtækisins fara mörg fyrirtæki varlega í sakirnar og láta duga að nýta sér eina eða fáar aðferðir, meðan önnur ganga lengra og leggja allt fyrirtækið undir. Kosturinn er að hvert fyrirtæki getur valið sína leið, sínar aðferðir og sinn hraða og því er um að gera að kynna sér þessar aðferðir því til mikils er að vinna.
Höfundur geinar, Þórunn M. Óðinsdóttir, er stjórnunarráðgjafi sem aðstoðar fyrirtæki við innleiðingu á Lean.