LinkedIn sem ráðningartól
Ráðningarferli fyrirtækja er oft á tíðum strembið ferli sem kostar mikið í tíma og fjármunum. Hvoru tveggja hefur sjaldan verið ofgnótt af og því er ágætt að benda á ágætis tæki sem fólk sem að ráðningum stendur, getur nýtt sér á nýju ári.
LinkedIn er samfélagsmiðill sem hefur rutt sér vel til rúms á Íslandi undanfarin ár. Það sést vel af því að 29% Íslendinga eru þar með prófíl - gamla góða höfðatölutölfræðin bregst ekki. Misbresturinn felst í hvernig það er nýtt, eða öllu heldur, vannýtt.
Allar líkur eru á að næsti starfsmaður sem þú ræður til starfa er með prófíl á LinkedIn. Leitin að honum hefur verið gerð auðveldari með leitarvélum. Á okkar litla landi er kunningjasamfélagið sterkt og líklega er viðkomandi tengdur einhverjum sem tengdur er þér. Því er auðvelt að spyrjast fyrir um viðkomandi í gegnum sameiginlegar tengingar.
Hérlendis hefur þessi miðill lítið verið notaður af fólki sem stendur að ráðningum, en erlendis hefur hann orðið að verðmætu tóli í verkfærakassa þeirra. Hér hafa fyrirtæki notað LinkedIn sem tæki á síðari stigum ráðningaferilsins, mest til að staðfesta vissa þætti í umsókn viðkomandi. Það er ekki notað á fyrstu stigum leitar, jafnvel þótt allar forsendur séu til staðar. Því miður hafa sumar ráðningastofur séð LinkedIn sem samkeppnisaðila og því ekki notað það sem skyldi í leit sinni, en það stendur vonandi til bóta.
Notkun á LinkedIn getur þannig hjálpað mannauðsstjórum við að koma auga á - og viðhalda tengingum við hæft starfsfólk, auka gæði ráðninga og auðvelda leitina að þeim. Tengslanetið virkar sem endranær - en bara betur með LinkedIn.
Haraldur U. Diego er hugmyndabóndi