Með nýsköpun í genunum
Að varpa fram nýjum spurningum, skoða nýjar leiðir og líta á óleyst vandamál frá nýju sjónarhorni krefst skapandi hugmyndaafls og markar raunverulegar framfarir í vísindinum (Albert Einstein).
Nýsköpun er afurð þeirra framfara og þrífst best í umhverfi þar sem er rými til rýnis, fjölbreytileiki og frjálst flæði hugmynda. Við slíkar aðstæður verða bestu hugmyndirnar oft til og stundum gerist eitthvað stórkostlegt, sótt er fram. Nýsköpunarferlið í sinni einföldustu mynd felst í að skapa réttu skilyrðin og virkja snjalla hugmynd svo úr verði nýjung eða lausn sem leiðir til framfara.
Marel er með nýsköpun í genunum og hefur frá upphafi lagt áherslu á framfarir og endurbætur í vöruþróun hátæknibúnaðar sem og í daglegu starfi. Innan veggja Marel skorum við sífellt hvort á annað að gera það sem vel er gert í dag enn betur á morgun. Við hvetjum til gagnrýnnar hugsunar og fögnum fjölbreytileika. Velgengni Marel byggist þannig m.a. á þeirri grunnhugsun að verðmæti felist í orkulind hugmyndaaflsins og virkjun þess.
Það besta við þessa orkulind er að hún er auðlind Íslendinga og ein sú verðmætasta. Einhver besta fjárfesting okkar til framtíðar er því að virkja sköpunargleði ungu kynslóðarinnar. Þess vegna styrkir Marel nýsköpunarstarf á öllum skólastigum í landinu allt frá leiksskólastigi til háskólastigs. En tækifærið er okkar allra. Styðjum og hvetjum ungmenni um land allt til að sækja fram, virkja hugmyndaaflið og stuðla að nýsköpun. Þannig getur nýsköpunin ein orðið að einni verðmætustu auðlind komandi kynslóða. Þá verða allir Íslendingar með nýsköpun í genunum.
Höfundur: Nótt Thorberg, markaðsstjóri Marel á Íslandi og varamaður í stjórn Stjórnvísis