Mentor var stofnað árið 1990 undir nafninu Menn og mýs. Frá upphafi hefur fyrirtækið unnið með grunnskólum og er því komið með 20 ára reynslu af þróun og rekstri upplýsingakerfa. Mentor sameinaðist fyrirtækinu P.O.D.B árið 2007 en erlendis er fyrirtækið rekið undir nafninu InfoMentor (sjá www.infomentor.se).
Vefkerfið Mentor.is er aðal lausn fyrirtækisins.Fyrstu árin voru það eingöngu grunnskólar sem nýttu kerfið en árið 2001 kom fyrsta útgáfa fyrir leikskóla og sveitarfélög. Í dag er Mentor heildstætt upplýsinga- og námskerfi fyrir alla sem starfa með börnum í skólum og tómstundastarfi.
Mentor er notað í fjórum löndum en auk höfuðstöðvanna á Íslandi er fyrirtækið með skrifstofu í Svíþjóð þar sem 18 starfsmenn vinna við ráðgjöf, sölu og þjónustu við sænska viðskiptavini. Á Íslandi starfa 23 starfsmenn þar af eru 15 tölvunarfræðingar sem vinna við þróun kerfisins.
Eitt mest notaða vefkerfi landsins
Mentor er eitt mest notaða vefkerfi landsins. Að meðaltali skrá sig rúmlega tuttugu þúsund notendur inn í kerfið á degi hverjum.
Mentor er í dag í notkun í 170 grunnskólum og um 60 leikskólum á Íslandi auk þess sem fyrstu íþróttafélögin og tónlistarskólarnir hafa tekið kerfið í notkun.
Í Svíþjóð er InfoMentor notað í yfir 700 skólum í um 100 sveitarfélögum. Árið 2010 komu um 9000 kennarar, skólastjórnendur og starfsmenn skólaskrifstofa á námskeið og ráðstefnur fyrirtækisins í Svíþjóð.
Eigendur Mentors eru frumkvöðlar félagsins Vilborg Einarsdóttir, Jón Georg Aðalsteinsson og Mats Rosenkvist auk starfsmanna Mentors. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Frumtak eru einnig eigendur að félaginu.