Það ríkti mikil gleði á ráðstefnunni Ást og hatur í tölvupóstum sem Margrét Reynisdóttir eigandi Gerum betur bauð til í dag. Tilefni ráðstefnunnar var útgáfa bókarinnar 8 lyklar að árangursríkum samskiptum eftir Margréti Reynisdóttur.
Fyrirlesarar voru átta og upplýstu ráðstefnugesti um mikilvægi þess að vanda til verka í tölvupóstsamskiptum.
Helgi Jóhannesson lögfræðingur hvatti aðila til að nota tölvupóst sem allra mest. Sleppa öllum bréfum því tölvupóstur væri mun öruggari en bréfpóstur.
Kristín Ingimarsdóttir verkfræðingur hjá VSÓ var ekki á sama máli því hún taldi að hægt væri að nálgast tölvupóst á svo ótrúlega marga vegu. Hún nefndi dæmi um það þegar tölvan er send í viðgerð og þegar við erum að skrá okkur inn í tölvur erlendis t.d. á hótelum. Öryggi kostar vinnu og vð verðum að huga að því hvað má alls ekki gerast.
Friðrik Pálsson hótelstjóri á Hótel Rangá fór yfir þróun samskipta og hvernig maður slær tóninn í samskiptum.
Halldóra Traustadóttir kynnti þjónustustefnu Íslandsbanka og hvernig hún sjálf fer að þvi að skipuleggja tölvupóstinn sinn.
Ómar Örn markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar sagði frá umbótaferli í þjónustu fyrirtækisins og þeim gildum sem þeir standa fyrir.
Sigrún Viktorsdóttir OR fjallaði um átak sem OR fór í varðandi stöðluð svör í tölvupósti.
Þórunn Lárusdóttir leikkona endaði ráðstefnuna með því að kynna hina 8 lykla sem eru lykillinn að árangursríkum tölvupóstsamskiptum og endaði á að syngja lag um það hvernig svara skal tölvupósti.