WOW air var stofnað í nóvember 2011 og fór í jómfrúarflug sitt til Parísar 31. maí 2012. WOW air reynir alltaf að standa undir nafni, við viljum vera WOW í öllu sem við gerum. Stefna félagsins er að veita alltaf skemmtilega og eftirminnilega þjónustu ásamt því að bjóða upp á lægsta flugverðið í flugsamgöngum til og frá Íslandi með bros á vör. Við leggjum mikið upp úr stundvísi og erum stolt að segja frá því að við höfum verið stundvísasta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli síðustu mánuði.
WOW air var stofnað af Skúla Mogensen og er í eigu fjárfestingafélagsins Títan. Skúli hefur mikla reynslu úr hátækni, farsíma- og viðskiptageiranum bæði sem frumkvöðull, forstjóri og fjárfestir. Hann situr í stjórn fjölda tæknifyrirtækja bæði í Norður-Ameríku og Evrópu og var valinn viðskiptamaður ársins 2011. Stjórnarformaður félagsins er Liv Bergþórsdóttir en hún hefur verið framkvæmdastjóri Nova frá árinu 2006. Liv var valin markaðsmaður ársins 2012.
Í lok október 2012 tók WOW air yfir áætlunarflug Iceland Express og í kjölfarið var boðið upp á aukna tíðni til London og Kaupmannahafnar ásamt því að bjóða upp á flug til Berlínar, Salzburg yfir skíðatímabilið og Varsjár og Kaunas yfir jólin. Sumarið 2013 verður boðið upp á spennandi sumaráætlun til 14 áfangastaða; London, Kaupmannahafnar, Parísar, Amsterdam, Barcelona, Mílanó, Zurich, Stuttgart, Dusseldorf , Berlínar, Lyon, Alicante, Vilníus og Varsjár.
Í októbermánuði tók WOW air á móti nýrri Airbus A320 vél árgerð 2010. Er þetta fyrsta vélin af fjórum nýlegum Airbus A320 vélum sem WOW air mun taka í gagnið fyrir næsta vor. Vélarnar verða nýjustu þoturnar sem notaðar eru í áætlunarflugi til og frá Íslandi af íslensku flugfélagi og er allur aðbúnaður um borð eins og best verður á kosið. Nýju Airbus A320 vélarnar eru mun sparneytnari og jafnframt menga þær umtalsvert minna. Hvort tveggja styður við stefnu WOW air um að geta ávallt boðið hagstæðasta verðið til og frá Íslandi og að láta gott af sér leiða.
WOW air starfrækir ferðaskrifstofuna WOW travel sem hafur það að leiðarljósi að veita heildarlausnir þegar kemur að ferðum til og frá Íslandi. Ferðaskrifstofan leggur allt kapp á að bjóða alltaf ódýrstu fargjöldin til og frá Íslandi ásamt góðu úrvali af ólíkum pakkaferðum, hótelum, og afþreyingu.