Samskipti í fullri alvöru
Hvað skyldi ráða mestu um það hvort við náum árangri í rekstri? Ætli það sé það sama og fær mesta athygli stjórnenda? Líklega ekki, ef marka má niðurstöður rannsókna um árangur fyrirtækja. Þær sýna að 10-30% fyrirtækja ná þeim árangri sem þau stefna að. Þetta hlutfall virðist eiga við sama hvar borið er niður. Í verkefnum um innleiðingu á stefnu eða nýjum upplýsingakerfum, í stórum mannvirkjaframkvæmdum, við samruna fyrirtækja eða í öðrum verkefnum.
Hver gæti skýringin verið? Flestum ber saman um að samskipti hafi mikil áhrif á árangur. En hversu markvisst vinnum við með samskipti á vinnustöðum og hversu mikla athygli veitum við gæðum samskipta? Mörkum við stefnu um hvernig við viljum nýta samskiptaleiðir? Ef samskiptastefna er fyrir hendi, er hún þá í takt við meginstefnu og markmið fyrirtækisins? Gerum við áætlanir um hvað við viljum fá út úr samskiptum? Reiknum við með kostnaði vegna samskipta í fjárhagsáætunum? Þjálfum við stjórnendur og starfsmenn í árangursríkum samskiptum? Mælum við árangur af samskiptum sem eiga sér stað? Hver ber ábyrð á því að samskiptin í fyrirtækinu skili árangri?
Með öðrum orðum, erum við að meðhöndla samskipti eins og aðra mikilvægi þætti í rekstri, svo sem stjórnun sölu- og markaðsmála, fjármál, framleiðslustýringu, birgðastýringu, gæðastjórnun, mannauðsstjórnun og vöruþróun? Rannsóknir sýna að fyrirtæki sem veita samskiptum athygli og vinna markvisst með samskipti eins og aðra mikilvæga þætti í rekstri, skila 47% betri rekstrarnipurstöðu en önnur fyrirtæki. Í fullri alvöru, verða samskiptin hluti af þínum áætlunum í framtíðinni?
Sigrún Þorleifsdóttir, eigandi Vendum ehf.