Opni háskólinn í HR, Vendum og Stjórnvísi undirrituðu á dögunum samstarfssamning. Tilgangur samstarfsins er að þjóna stjórnendum og íslensku atvinnulífi með enn faglegri og hagnýtari hætti hætti en hingað til. Opni háskólinn í HR kynnir markþjálfun og sérfræðinga Vendum sem hluta af sinni framboðslínu og að sama skapi kynnir Vendum framboð námsleiða Opna háskólans fyrir sínum viðskiptavinum.
Meginhlutverk Opna háskólans í HR er að veita stjórnendum og sérfræðingum fræðslu og þjálfun til að viðhalda og efla samkeppnishæfni þeirra sem og fyrirtækja, atvinnulífs og samfélagsins í heild. Í Opna háskólanum má finna fjölbreytt úrval vandaðra námskeiða og þjálfunar undir leiðsögn fremstu sérfræðinga Háskólans í Reykjavík og samstarfsaðila úr íslensku atvinnulífi auk erlendra sérfræðinga. Námskeiðin eru hagnýt og taka til helstu áskorana sem stjórnendur í íslensku viðskiptalífi standa frammi fyrir hverju sinni.
Vendum þjálfar stjórnendur og leiðtoga til að ná hámarksárangri í gegnum markþjálfun. Gildi Vendum eru fagmennska, ástríða og árangur. Vendum leggur áherslu á fagleg vinnubrögð. Heiðarleiki, traust og vandvirkni eru fyrirtækinu mikils virði og fyrir það vill það standa. Það er ástríða Vendum að ná auknum árangri og að hjálpa öðrum að auka árangur sinn. Krefjandi verkefni á þessu sviði veitir Vendum innblástur og orku. Árangur er meginmarkmiðið og er áhersla lögð á að bjóða áhrifaríkustu aðferðir sem völ er á og að þjónustan skili viðskiptavinum ávinningi sem skipar þeim í fremstu röð.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með tæplega 2.000 virka félagsmenn og mjög öflugt tengslanet. Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á stjórnun; eins og stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum áhugamönnum um stjórnun.
Þann 30 jan næstkomandi verður efnt til morgunfundar í Opna háskólanum undir yfirskriftinni „Árangursrík verkefna- og valddreifing“ þar sem samstarfinu verður formlega ýtt úr vör. Þar mun forstjóri Sjóvár Hermann Björnsson stíga á stokk og fjalla um reynslu sína af árangursríkri vald- og verkefnadreifingu. Þá mun Alda Sigurðardóttir eigandi og stjórnendaþjálfari hjá Vendum draga fram algengustu hindranirnar við að verkefna- og valddreifa og hvernig sé best að yfirstíga þær.
Fundarstjóri verður Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi.