Segjum frá!
Fyrirtæki búa yfir mikilli þekkingu í mannauði sem með tiltölulega auðveldum hætti mætti nýta betur. Mikilvægt er að mótuð sé stefna um að nýta innanhúsþekkingu, greina hvar hún liggur og ákveða að deila henni til annarra starfsmanna. Finna snillinginn í samningagerð, þann sem er flinkur í samskiptum, nýkominn úr námi o.s.frv. Hvaða starfsmaður býr yfir einstakri þekkingu eða hæfileikum sem nýtast öðrum til árangurs í starfi? Slík miðlun eflir fyrirtækjamenninguna, eflir þann sem miðlar, veitir innblástur og leiðir til meiri framsækni. Samspil þessara þátta getur skilað auknum hagnaði til fyrirtækisins.
Það er ákveðin traustsyfirlýsing og heiður fyrir þann sem er beðinn um að halda erindi fyrir samstarfsfólk um starfstengt hugðarefni. Slíkt erindi þarf ekki að vera langt, en á að vera hreinskiptið og einlægt. Þegar við lærum nýja hluti lærum við best af eigin reynslu. Næstbest lærum við af reynslu annarra. Reynsla miðluð í sagnastíl getur verið áhrifamikil eins og við þekkjum úr íslendingasögunum. Sagnahefðin er sterk hérlendis og notuð í daglegum samskiptum fólks um hversdagslega hluti. Tilvalið er að nýta slíkar sögur í mun meiri mæli í stjórnun og rekstri fyrirtækja. Jafn mikilvægt er að miðla reynslu er leiddi til ávinnings og reynslu af mistökum. Því ekki byrja í dag með fimm mínútna erindi þar sem miðlað er af reynslu sem nýtist fyrirtækinu? Fyrir einstaklinginn fer hugsanaferillinn í gang og viðkomandi fer að tengja saman punkta í ólíklegustu verkefnum til að draga saman í lærdómssögu til góðs eða ills! Miðlun reynslu í sagnastíl er öflugt tæki til að efla einstaklinga og hópa innan fyrirtækja.
Arnþrúður Jónsdóttir lyfjafræðingur
Sölu- og markaðsstjóri hjá Vistor