Verkefnalistar stjórnenda eru gjarnan mílulangir og flestir sjá aldrei fram á að ljúka honum þar sem sífellt bætist á hann. Stærsta verkefni þeirra er oftar en ekki að koma meiru í verk á skemmri tíma, hvort sem það er um að ræða að klára sín verkefni fyrr eða styðja starfsfólk sitt í að afkasta meiru. Það getur hins vegar verið mjög yfirþyrmandi að sjá aldrei ganga á blessaðan verkefnalistann og þegar til lengdar lætur jafnvel leitt til kulnunar í starfi. Það er því mikilvægt að sjá listann góða öðru hvoru styttast í annan endann. Nýttu þér þessi einföldu ráð til að „rusla“ listanum hraðar af:
- Kláraðu þrjú atriði fyrir hádegi. Það lið sem er yfir í hálfleik er líklegra til að sigra! Gerðu það sem þú getur til að þú getir fagnað áfangasigri yfir hádegismatnum og þá mætirðu fílefld(ur) til leiks eftir mat (mundu nauðsyn þess að fara í „alvöru“ mat, ekki bara gleypa í sig við tölvuna!).
- Stóru steinarnir fyrst. Brjóttu stærri verkefni niður í minni einingar og byrjaðu á þeim sem lengstan tíma taka. Ef þú byrjar á þeim styttri eru meiri líkur á að þær lengri sitji á hakanum því erfiðara er að hafa sig í stór verkefni þegar langt er liðið á daginn og orkan er farin að dvína.
- Sameinaðu lík verkefni. Endurtekningin er góð til að ná upp hraða. Leggðu þig fram um að vinna lík verk í sömu atrennu og náðu þannig upp slagkrafti sem skilar þér auknum afköstum.
- Skerðu niður. Líkur eru á að þú komist aldrei yfir allt sem er á listanum. Sættu þig við það frekar en að láta það íþyngja þér, komdu þeim verkefnum annað, eða strikaðu þau hreinlega út!
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri