Þjálfunarefnið “Gestrisni í ferðaþjónustu – raundæmi og verkefni”

Kynningarfundur var haldin 28 september í Húsi atvinnulífsins í samstarfi við SAF, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Stjórnvísi þar sem Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur ehf og Sigrún Jóhannesdóttir, menntaráðgjafi kynntu þjálfunarefnið fyrir fræðsluaðilum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Þær stöllur fengu styrk úr Fræðslusjóði til að vinna þjálfunarefni fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu.

Þau svið sem tekin eru fyrir í þessu þjálfunarefni eru móttaka ferðamanna, þrif, veitingar og bílaleigur

Þjálfunarefnið byggir á raundæmum úr ferðaþjónustu og hentar fyrir þjálfun á vinnustöðum og er það jafnframt aðgengilegt fyrir starfsþjálfa á vinnustað. Það hentar líka vel sem efni á námskeiðum og er fjölþætt og sveigjanlegt. Það má nota eitt dæmi eða raða nokkrum saman fyrir lengra námskeið og hentar til að flétta saman þjálfun í persónulega hæfni  og faglegri hæfni.

Helstu kostir þjálfunar  með raundæmum og verkefnum eru að þau brúa bil „sögu“ og veruleika. Starfsmenn vinna saman að lausnum,og fá tækifæri til að ræða eigin reynslu undir yfirskyni sögunnar.

Efnið getur einnig nýst í  öðrum þjónustugreinum í atvinnulífinu því auðvelt er að heimfæra það  á önnur þjónustustörf.

Verkefnið var þróað með 18 álitsgjöfum þar á meðal, SAF, Mímir símenntun, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Símey símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Vakanum og nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Þau fyrirtæki sem hafa tilraunakeyrt þjálfunarefnið segja að það auki gæði, starfsánægju og hæfni og starfsfólk verði öruggara. Það kemur að góðum notum við  mannaráðningar, innanhúsnámskeið, símenntun, íslenskunámskeið og á starfsmannafundum. Álitsgjafar töldu efnið skemmtilegt og fræðandi. Þeir nefndu einnig að umræðan sem  verkefnin sköpuðu væri ómetanleg. Fólk lærði af mistökunum í dæmunum án þess að upplifa þau á eigin skinni og voru dugleg að koma með hugmyndir að lausnum.

Það sem gekk síst er að efnið er eingöngu á íslensku en nú er unnið að þýðingum á ensku og pólsku með styrkjum úr starfsmenntasjóðum.  

Hægt að er að nálgast efnið hjá Gerum betur ehf, gerumbetur@gerumbetur.is s 8998264

Fleiri fréttir og pistlar

Vel sóttur fundur í JBT Marel í morgun - Hvernig vinna HSE og LEAN saman.

Stjórnvísifélagar fjölmenntu í JBT Marel í morgun þar sem Lilja Birgisdóttir (HSE/ÖHU Manager) hjá JBT Marel fræddi  okkur um hvernig HSE (ÖHU) og LEAN vinna saman, kosti þess og galla.

Boðið var upp á morgunhressingu fyrir kynninguna kl. 08:30. Eftir kynninguna var öllum boðið upp á fræðslu og útsýningshring á svölunum þar sem hægt verður að horfa yfir framleiðsluna.

Nýkjörin stjórn faghóps um sjálfbæra þróun, loftslagsmál og umhverfi

Fjöldi áhugaverðra aðila sýndu áhuga á að setjast í stjórn faghóps um sjálfbæra þróun, loftslagsmál og umhverfi allt afburðarfólk. Úr vöndu var að ráða við að móta stjórn hópsins.

Úr varð sextán manna stjórn, sem endurspeglar vel fjölbreytileika þeirra sem áhuga sýndu. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var á Kringlukránni í dag þar sem félagar kynntu sig og farið var yfir ábyrgð og hlutverk stjórna faghópa Stjórnvísi. Stjórnin mun hittast í næstu viku til að móta hugsanlegar áherslur hópsins. Stjórnin kaus Eirík Hjálmarsson, Orkuveitunni, sem formann og Rakel Lárusdóttur, Hörpu, sem varaformann.   Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig í faghópinn með því að smella hér.   

Stjórn faghópsins skipa:  Erla Rós Gylfadóttir Advania, Sara Elísabet Svansdóttir Austurbrú, Þóra Dögg Jörundsdóttir Bananar, Páll Sveinsson Brú lífeyrissjóður, Ásdís Nína Magnúsdóttir Carbfix, Harpa Júlíusdottir Festa, Björg Jónsdóttir Háskólinn á Bifröst, Ragnhildur Helga Jónsdottir Landbúnaðarháskóli Íslands, Klara Rut Ólafsdóttir Landspítali, Sandra Rán Ásgrímsdóttir COWI Ísland, Guðbjörg Lára Sigurðardóttir Urta, Hólmfríður Bjarnadóttir Vegagerðin, Eiríkur Hjálmarsson Orkuveitan, Freyr Eyjólfsson Sorpa, Marta Jóhannesdóttir Grant Thornton og Rakel Lárusdóttir Harpa. 

Vel sóttur fundur um hvaða áhrif NIS2 hefur á íslensk fyrirtæki og stofnanir

Í dag hélt faghópur um góða stjórnarhætti sinn fyrsta fund í Grósku.  Fundurinn var einstaklega áhugaverður og vel sóttur. Hægt er að nálgast glærur fyrirlesara á innraneti Stjórnvísi með því að smella hér og velja "ítarefni". Hér má nálgast myndir sem voru teknar. 

NIS2 er Evróputilskipun um net- og upplýsingaöryggi (Network and Information Systems Directive) sem tók gildi í Evrópu í október 2024 og kemur til með að vera innleidd í íslensk lög.  Tilskipunin mun ná yfir fleiri fyrirtæki á Íslandi en fyrri tilskipun og ábyrgð stjórnenda á netöryggi verður gerð skýrari.

Nanitor mun bjóða til morgunverðarfundar þar sem fjallað verður um tilskipunina og áhrif hennar á stjórnir og stjórnendur fyrirtækja.

Dagskrá viðburðarins:

  • Hildur Sif Haraldsdóttir, yfirlögfræðingur Advania flytur erindi um áhrif NIS2 á íslensk fyrirtæki
  • Heimir Fannar Gunnlaugsson forstjóri Nanitor: Frá óvissu til yfirsýnar á 24 klst með Nanito

Viðburðurinn er haldinn í móttökurými á 2. hæð í Grósku hugmyndahúsi, Bjargargötu 1. Húsið opnar klukkan 8.30.

Faghópur almannatengsla, miðlunar og samskipta endurvakinn

Á aðalfundi faghóps um almannatengsl, miðlun og samskipti var ný stjórn kjörin. Stjórnina skipa þau Andrea Guðmundsdóttir, fagstjóri og lektor við Háskólann á Bifröst, Anna Margrét Gunnarsdóttir ráðgjafi hjá Altso, Aðalbjörg Kristín Jóhannsdóttir ráðgjafi hjá Apríl og Nasdaq á Íslandi, Dóra Magnúsdóttir samskiptastjóri Hafrannsóknastofnunar, Erla Björg Eyjólfsdóttir ráðgjafi og stundakennari við Háskólann á Bifröst, Grétar Theodórsson ráðgjafi hjá Innsýn samskiptum og Stefán Hrafn Hagalín, framkvæmdastjóri Þrettánellefu og fyrrverandi formaður Stjórnvísi, en hann er jafnframt formaður faghópsins. 

Hópurinn er eins og aðrir faghópar Stjórnvísi öllum opinn, hvort heldur fólk hefur áhuga á faginu, starfar við það eða sækir sér menntun á þessu sviði. Smelltu hérna til ganga til liðs við hópinn: https://www.stjornvisi.is/is/faghopar/almannatengsl-e-public-relations-og-samskiptastjornun
Á vinnufundum stjórnar síðustu vikur og mánuði hefur verið mótuð metnaðarfull dagskrá fyrir veturinn, sem verður birt á vef og samfélagsmiðlum Stjórnvísi. Má þar nefna tvo staðfundi við upphaf og lok vetrar til að efla tengslamyndun þar sem sérfræðingar stíga á stokk og fara yfir stefnur og strauma í faginu. Einnig eru áætlaðir mánaðarlegir fundir með fjölbreyttum umfjöllunarefnum.

  • Október: Staðfundur með góðum gestum og tengslamyndun
  • Október: Hagnýting gervigreindar í faginu
  • Nóvember: Samskiptastjórnun og sjálfbærni
  • Desember: Almannatengsl fyrir frumkvöðla, nýsköpun og sprotafyrirtæki
  • Janúar: Almannatengsl fyrir stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök
  • Febrúar: Fjárfestatengsl og almannatengsl í skráðum og óskráðum fyrirtækjum
  • Mars: Innri samskipti og markaðssetning á vinnustöðum
  • Apríl: Menntun og símenntun í almannatengslum og samskiptum
  • Maí: Almannatengsl á opinberum vinnustöðum.
  • Júní: Staðfundur með góðum gestum og tengslamyndun

Tilgangur faghópsins er að efla faglega þróun á sviði almannatengsla, miðlunar og samskipta innan skipulagsheilda, ásamt því að auka vitund um mikilvægi atvinnugreinarinnar með því að bjóða upp á fræðandi og hvetjandi fyrirlestra frá fyrirtækjum, stofnunum, háskólum og sérfræðingum. Metnaður er lagður í að bjóða upp á fyrirlestra sem veita áhorfendum aukna þekkingu, færni og innsæi í starfsvettvang fagsins, hér heima og erlendis. 

Mikil vitundarvakning hefur orðið hér á landi undanfarin ár um mikilvægi góðra almannatengsla og markvissrar miðlunar og samskipta. Fagleg, heiðarleg og stöðug upplýsingagjöf við mikilvæga hagsmunahópa byggir og styrkir góða ímynd og eykur um leið velferð og virðingu hvort sem um ræðir skipulagsheildir eða einstaklinga. 

Faghópur Stjórnvísi um Mannauðsstjórnun – Fyrsti viðburður vetrarins er á fimmtudaginn

Eftir fjölda áskorana hefur faghópur Stjórnvísi um mannauðsstjórnun verið endurvakinn.

Mikill áhugi er á að taka þátt í starfinu og hefur nú verið skipuð sextán manna stjórn, sem endurspeglar vel þann fjölbreytileika sem hópurinn býr yfir. (Sjá frétt hér )

Í faghópnum eru yfir 900 manns, sem gerir hann að einum stærsta faghópnum innan Stjórnvísi. Þar sem sífelld endurnýjun á sér stað í fyrirtækjum hvetjum við ykkur til að framsenda þetta skeyti til áhugasamra einstaklinga innan ykkar fyrirtækja og hvetja þá til að skrá sig í hópinn.

Ný stjórn kemur saman á næstunni og mun í kjölfarið setja fram dagskrá vetrarins.


 

Fyrsti viðburður vetrarins

Fyrsti viðburður er í anda vetrarins um framsýna forystu og er í samstarfi við FranklinCovey á Íslandi.

Áhersla er á framtíð vinnustaða og vinnumenningar og mikilvægi mannlegra gilda á tímum örra tæknibreytinga, gervigreindar og alþjóðlegs umróts. Hvernig má stuðla að því að starfsfólk þrói með sér þá færni sem þarf til framtíðar?

Viðburðurinn er nk. fimmtudag, 4. september og er á Teams (8:30-10:00).  Skráning hér

 

Við vonumst til að sjá ykkur sem flest á viðburðum vetrarins.

 

Stjórn faghóps um mannauðsstjórnun.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?